Starfsaldursviðurkenningar 2015

IMG_1734

Í gærkvöldi, á kvöldvöku sem haldin var af starfsmönnum fyrir íbúa Höfða, voru afhentar árlegar starfsaldursviðurkenningar. Að þessu sinni fengu eftirtaldir 8 starfsmenn viðurkenningu:

Fyrir 5 ára starf: Birna Júlíusdóttir.

Fyrir 15 ára starf: Ingibjörg Rósa Aðalsteinsdóttir og Margrét Rögnvaldsdóttir.

Fyrir 25 ára starf: Sigurbjörg Ragnarsdóttir, Hjördís Guðmundsdóttir, Jóna Björk Guðmundsdóttir og Guðmundína Hallgrímsdóttir.

Fyrir 35 ára starf: Unnur Guðmundsdóttir.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri sagði að með þessum viðurkenningum vildi stjórn Höfða þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins. Kjartan sagði að starfsfólkið væri helsti styrkleiki Höfða og minnti á mikilvægi stöðugs vinnuafls.

Við sama tækifæri kvaddi Höfðafólk Svandísi Stefánsdóttur sem lét af störfum á Höfða á árinu eftir farsælan starfsferil, Svandís hóf störf í eldhúsi Höfða í nóvember 1992 og hafði því starfað á Höfða í rúmlega 23 ár.

Kjartan afhenti Svandísi blómvönd og litla gjöf frá Höfða um leið og hann þakkaði henni fyrir störf sín fyrir Höfða og óskaði henni góðs gengis á ókomnum árum og að hún mætti njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.

Kvöldvaka

IMG_1732

Hin árlega kvöldvaka þar sem starfsmenn Höfða bjóða íbúum upp á skemmtiatriði og veitingar var haldin í gærkvöldi. Borð svignuðu undan girnilegum kræsingum sem starfsmenn komu með að heiman og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá.

Fyrst söng Daníel Breki og spilaði á gítar, Arnar Snær flutti ljóð, vinkonurnar Rakel Rún og María Dís fluttu tvö lög og að lokum söng Símon Orri tvö lög við undirleik Höllu Margrétar.

Auk þess leiddi Símon Orri afmælissöng en allir sungu fyrir afmælisbarnið og heiðursborgara Akraness Ríkharð Jónsson sem varð 86 ára í gær.

Mikil ánægja var með þessa kvöldvöku sem heppnaðist mjög vel. Skemmtinefndina skipuðu þau Kjartan Kjartansson, Pálína Sigmundsdóttir, Birna Júlíusdóttir, Aðalbjörg Alfreðsdóttir og María G. Kristinsdóttir.

Vökudagar 2015

IMG_1651

Í tengslum við Vökudaga á Akranesi voru tvær sýningar opnaðar á Höfða fyrir helgi.

Fyrst ber að nefna sýninguna „Það sem augað mitt sér“ sem er ljósmyndasýning 5 ára barna í leikskólanum Garðaseli.

Á föstudaginn var opnuð samsýning Ásgeirs Samúelssonar sem sýnir útskurð og myndlistarkvennanna Jóhönnu Vestmann og Nínu Áslaugar Stefánsdóttur.

Við opnunina spilaði Þjóðlagasveit Tónlistaskóla Akraness undir stjórn Ragnars Skúlasonar.

Sýningarnar verða opnar meðan á Vökudögum stendur.

Vökudagar 2015

IMG_0585

Föstudaginn 30. október kl. 17.00 verða Vökudagar settir á Höfða.

Ásgeir Samúelsson sýnir útskurð, börn af leikskólanum Garðasel verða með ljósmyndasýningu og myndlistarkonurnar Jóhanna Vestmann og Nína Áslaug Stefánsdóttir sýna m.a. olíu- og vatnslitamyndir.

Við opnunina mun Þjóðlagasveit Tónlistaskólans á Akranesi spila og boðið verður upp á léttar veitingar.

Allir velkomnir.

 

Þemavika á Höfða

IMG_1628

Líf og fjör hefur verið á öllum deildum Höfða í vikunni og allir keppst við að skreyta sína deild. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum hefur ríkt mikil hugmyndaauðgi og hart barist um bestu skreytinguna.

Eftir hádegi í dag kom sérstök dómnefnd í heimsókn og tók út skreytingarnar. Dómnefndina skipa Kirstín Benediktsdóttir blómaskreytir, Jón Þórir Guðmundsson garðyrkjufræðingur og Ólöf Una Ólafsdóttir hársnyrtir. Úrslit og verðlaun verða svo kynnt og afhent á árshátíð starfsmanna á laugardagskvöld.

 

Gangurinn minn

Gulli skrýddur er gangurinn minn

sem gleður augað og hressir sinni

ánægju og gleði ég aftur finn

sem eflaust geymist lengi í minni.

 

Kjartan H. Guðmundsson

Íbúi á Jaðri

Sláturgerð á Höfða

IMG_1494

Í gær var unnið í sláturgerð á Höfða með aðkomu íbúa og starfsmanna. Tekin voru 150 slátur. Fólk var einbeitt við sláturgerðina og handtökin fagmannleg og augljóst að margir þeirra sem að sláturgerðinni stóðu hafa tekið slátur allan sinn búskap.

Fyrsta sláturmáltíðin verður framreidd í dag fimmtudag, en slátrið er sívinsæll matur hjá íbúum og starfsfólki Höfða.

Yfirblandari í sláturgerðinni var Sigurlaug Garðarsdóttir.

Útiganga á Höfða

 

IMG_2144

Útigangan á Höfða í sumar hefur verið með hefðbundnu sniði.

Öllum íbúum og dagdeildarfólki sem vilja,  gefst kostur að komast út, hvort sem fólk gengur sjálft eða situr í hjólastól.

Nokkrir starfsmenn af deildum, úr sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og dagdeild eru með til aðstoðar. Nokkrir aðstaðdendur hafa  verið duglegir að koma með og hjálpa til.  Söknum þess að hafa  ekki  í sumar fengið krakka úr Vinnuskólanum til að hjálpa til að keyra fólki í hjólastólum í , en þau hafa virkilega verið  góð viðbót þannig  að fleiri komist út.  Höfum þó aðeins fengið aðstoð frá Rauða krossinum.

Góðar gönguleiðir eru kringum og við Höfða og eru þær farnar til skiptist og eftir því hvernig vindurinn blæs.   Á nokkrum leiðum eins og á stígnum fyrir ofan Langasand vantar þó tilfinnanlega fleiri bekki . Bekkir eru ótrúlega gott hvatningartæki sambandi við gönguferðir eldra fólks, og fólk fer gjarnan lengra og lengra þegar það veit af næsta bekk.

Sumarferð 2015

IMG_1412

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin sl. mánudag. 55 manns tóku þátt í ferðinni, íbúar Höfða og dagdeildarfólk ásamt nokkrum starfsmönnum.

Lagt var af stað kl. 13 og ekið upp í Borgarnes með viðkomu í Ölveri. Í Borgarnesi var Safnahúsið heimsótt og skoðaðar sýningarnar „Börn í 100 ár“ og „Ævintýri fuglanna“. Að því loknu var ekið um Borgarnes og komið við á Borg á Mýrum. Síðan lá leiðin að Hótel Hamri þar sem boðið var upp á glæsilegt kaffihlaðborð. Að lokum var ekið um Borgarfjarðarbrú og upp Andakíl, Skorradal og farið yfir Geldingadraga og sem leið lá heim á Skaga. Heim var svo komið kl. 18.15.

Hópurinn ferðaðist undir leiðsgögn Björns Inga Finsen og var leiðsögn hans að vanda bæði fróðleg og skemmtileg.