Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Heimsókn úr Borgarnesi

Í dag heimsóttu Höfða þrír starfsmenn frá sjúkraþjálfun og handavinnu Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi. Þær skoðuðu heimilið í fylgd Ingibjargar Ólafsdóttur iðjuþjálfa og fengu upplýsingar um þá starfsemi sem fer fram í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og handavinnu Höfða. Einnig skoðuðu þær hjálpartækjakost heimilisins.

Vel heppnað “OPIÐ HÚS”

OPIÐ HÚS á Höfða í gær tókst einstaklega vel. Um 400 manns heimsóttu Höfða og skoðuðu þær sýningar sem boðið var upp á, þ.e. málverkasýningu Sveins Guðbjarnasonar, ljósmyndasýningu Helga Daníelssonar og sýningu á skipslíkönum í eigu Sveins Sturlaugssonar.

Allar sýningarnar gerðu mikla lukku. Gömlu ljósmyndirnar og skipslíkönin rifjuðu upp lífið á Akranesi á sjöunda áratugnum. Málverk Sveins vöktu mikla athygli og fjölmargir vildu kaupa myndir, en þær voru ekki til sölu að þessu sinni.

Þá var stanslaus ös á bazarnum og mikið selt af þeim fallegu munum sem þar voru til sölu, en flestir voru þeir framleiddir af dagvistarfólki og íbúum á Höfða.

Margir gestanna skoðuðu í leiðinni starfsemi sjúkraþjálfunar og iðjuþjálfunar og litu í heimsókn til íbúa Höfða.

Harmonikuleikur

Gestur Friðjónsson heimsótti höfða og lék á harmonikku í félagsrými og á sjúkradeild við góðar undirtektir áheyrenda.

Helgi Dan í heimsókn

Helgi Daníelsson heimsótti Höfða í morgun, en sýning á ljósmyndum hans frá sjöunda ártugnum verður opnuð á laugardaginn. Helgi hafði meðferðis fjölda mynda af íbúum Höfða sem teknar voru í lok síðustu aldar. Myndir þeirra Skagamannanna og feðganna Helga og Friðþjófs sonar hans af lífi og starfi Akurnesinga eru ómetanlegar og ræktarsemi þeirra við bæinn sinn einstök.

Starfsmenn kvaddir

Í dag kvöddu íbúar og starfsmenn tvær heiðurskonur sem létu af störfum á Höfða fyrr á þessu ári eftir langan og farsælan starfsferil, þær Bryndísi Guðmundsdóttur sem starfaði á Höfða í 23 ár og Svanheiði Friðþjófsdóttur sem starfaði á Höfða í 18 ár.

Báðar störfuðu þær við aðhlynningu og fleiri störf þar til mötuneyti Höfða tók til starfa árið 1992, en þar hafa þær starfað síðan. Hefur Bryndís leyst brytann af, enda afbragðs kokkur og bakari.

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri ávarpaði þær stöllur, þakkaði stöf þeirra og rakti farsæln starfsferil. Guðjón óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þær mættu njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.

Þær Bryndís og Svanheiður þökkuðu íbúum og starfsfólki ánægjuleg samskipti og óskuðu Höfða og þeim sem þar búa og starfa alls góðs.

Góðir gestir á Höfða

S.l. laugardag heimsóttu Höfða Margrét Margeirsdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og Bryndís Steinþórsdóttir. Með þeim í fylgd voru þau Bragi Níelsson og Bjarnfríður Leósdóttir frá Félagi eldri borgara á Akranesi.

Margrét A.Guðmundsdóttir tók á móti þessum góðu gestum og sýndi þeim heimilið. Gestunum leist vel á Höfða og aðbúnað allan.

Kökukvöld

Hið árlega kökukvöld Höfðafólks var haldið í gærkvöldi. Þar koma starfsmenn með kökur og annað góðgæti að heiman og bjóða íbúum hússins til veislu. Þetta árlega boð starfsmanna lýsir þeim góða anda og þeirri vináttu sem er milli starfsmanna og íbúa Höfða.

Starfsmenn skipa árlega nefnd til að undirbúa kökukvöld. Að þessu sinni var nefndin skipuð þeim Rakel, Guðmundu, Vigdísi, Hrönn og Maríönnu. Dagskrá kökukvöldsins var þannig að Guðjón ávarpaði samkomuna, Gísli S.Einarsson spilaði og söng, karlakórinn krummarnir söng nokkur lög, hjónin Sigurbjörg og Hallgrímur kváðu rímur og dúettinn Nína og Dalla söng nokkur lög.

Þetta skemmtikvöld tókst frábærlega og var mjög vel sótt af íbúum og starfsmönnum.

Sláturgerð

Í gær og í dag hafa íbúar og starfsmenn Höfða staðið í sláturgerð. Tekin voru 120 slátur. Mikið stuð var á fólki í sláturgerðinni og handtökin fagmannleg, enda hafa flestir sem þarna voru tekið slátur á hverju hausti í áratugi.

Létt var yfir fólki við sláturgerðina og augljóst að fólk hafði gaman af þessu verkefni. Fyrsta sláturmáltíðin verður framreidd á morgun og meiningin er að taka fleiri slátur í næstu viku enda er slátrið vinsæll matur hjá íbúum og starfsfólki Höfða.

Yfirblandari í sláturgerðinni var Svandís Stefánsdóttir.

Bleika slaufan

Dvalarheimilið Höfði er nú lýst upp með bleiku ljósi í tilefni af því að í október er vakin athygli á brjóstakrabbameini hér á landi. Þetta er hluti af árveknisátaki, en tákn þess er bleika slaufan.

Bleika slaufan liggur frammi á Höfða. Það fé sem safnast er notað til verkefna sem valin eru af Krabbameinsfélaginu og Samhjálp kvenna.

Krabbameinsfélag Akraness og nágrennis hefur verið þátttakandi í átakinu síðan 2004 en þá var Sjúkrahús Akraness lýst upp í bleiku og í fyrra var það Akraneskirkja.