Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Jólaball

Í dag var haldið jólaball fyrir börn og barnabörn íbúa og starfsmanna Höfða. Jólasveinarnir Kertasníkir og Skyrgámur komu í heimsókn og dansað var í kringum jólatréð. Börnin fengu gos og poka með góðgæti og foreldrarnir kaffi og smákökur.

Gísli S.Einarsson bæjarstjóri stjórnaði jólaballinu af sinni alkunnu snilld, en Gísli hefur stjórnað jólaböllunum á Höfða eins lengi og elstu menn muna. Hann hefur einnig verið óþreytandi við að skemmta íbúum Höfða við ýmis tækifæri svo sem Höfðagleði, kökukvöld, kaffihúsakvöld o.fl. Er ástæða til að þakka Gísla fyrir þá ræktarsemi sem hann sýnir fólkinu á Höfða.

Unga fólkið og foreldrarnir troðfylltu samkomusalinn á Höfða og var það mál manna að aldrei hefðu fleiri sótt jólaballið en að þessu sinni.

Jólaannir á hárgreiðslustofunni

Þessa dagana er mikið að gera hjá Guðnýju hárgreiðslukonu sem stendur myrkranna á milli við að klippa og snyrta íbúa og starfsmenn Höfða fyrir jólin og einnig fyrir fólk utan úr bæ. Við smelltum mynd af henni þegar hún var að eiga við höfuð Elísabetar sjúkraþjálfara.

Annir á fótaaðgerðastofu

Mikil törn er um þessar mundir hjá Guðrúnu fótasérfræðingi, enda vilja flestir vera án líkþorna og óþæginda um jólin. Þegar ljósmyndara bar að garði var Guðrún önnum kafin og að sögn Bjarna bryta mun hún vera að eiga við tær Antons Ottesen varaformanns stjórnar Höfða á myndinni sem fylgir með þessari frétt!

Gjöf frá nemendum Grundaskóla

Í morgun komu fjórir nemendur Grundaskóla í heimsókn á Höfða og færðu heimilinu forkunnarfagran handunninn engil og skreyttan poka, en hvort tveggja var unnið af nemendum skólans.

Nemendur Grundaskóla hafa heimsótt Höfða fyrir hver jól í fjölda ára og fært heimilinu fallega hluti gerða af nemendum. Þessar góðu gjafir prýða Höfða.

Höfði færir nemendum Grundaskóla kærar þakkir fyrir þessar góðu gjafir og þann hlýhug sem þeim fylgja.

Mynd frá vinstri: Elsa María Gunnlaugsdóttir, Eva Ösp Sæmundsdóttir, Særós Ýr Þráinsdóttir, Guðrún Ýr Bjarnadóttir og Guðbjartur Hannesson skólastjóri Grundaskóla.

Laufabrauðsskurður

Í dag settust nokkrir íbúar Höfða að laufabrauðsskurði. Gaman var að fylgjast með handbragði kvennanna, enda flestar þaulvanar laufabrauðsskurði um áratugaskeið. Verkið gekk vel undir röggsamri stjórn Öddu og Svandísar.

Grundartangakórinn á Höfða

Grundartangakórinn söng fyrir íbúa Höfða í gær, en kórinn heimsækir Höfða reglulega við góðar undirtektir.

Söngur kórsins gerði mikla lukku hjá Höfðafólki sem troðfyllti samkomusal heimilisins. Stjórnandi Grundartangakórsins er Atli Guðlaugsson.

Aðventuhátíð

Aðventuhátíð var haldin á Höfða í gær. Sr. Eðvarð Ingólfsson stjórnaði samkomunni. Ræðumaður var Sigríður Kr.Valdimarsdóttir og Guðrún Valdís dóttir hennar lék á píanó Sr. Eðvarð fór með gamanmál og Kammerkór Akraness söng. Að lokum sameinuðust allir viðstaddir í bæn.

Hátíðin var vel sótt af Höfðafólki og tókst í alla staði mjög vel.

Heimsókn úr Borgarnesi

Í dag heimsóttu Höfða þrír starfsmenn frá sjúkraþjálfun og handavinnu Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi. Þær skoðuðu heimilið í fylgd Ingibjargar Ólafsdóttur iðjuþjálfa og fengu upplýsingar um þá starfsemi sem fer fram í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og handavinnu Höfða. Einnig skoðuðu þær hjálpartækjakost heimilisins.

Vel heppnað “OPIÐ HÚS”

OPIÐ HÚS á Höfða í gær tókst einstaklega vel. Um 400 manns heimsóttu Höfða og skoðuðu þær sýningar sem boðið var upp á, þ.e. málverkasýningu Sveins Guðbjarnasonar, ljósmyndasýningu Helga Daníelssonar og sýningu á skipslíkönum í eigu Sveins Sturlaugssonar.

Allar sýningarnar gerðu mikla lukku. Gömlu ljósmyndirnar og skipslíkönin rifjuðu upp lífið á Akranesi á sjöunda áratugnum. Málverk Sveins vöktu mikla athygli og fjölmargir vildu kaupa myndir, en þær voru ekki til sölu að þessu sinni.

Þá var stanslaus ös á bazarnum og mikið selt af þeim fallegu munum sem þar voru til sölu, en flestir voru þeir framleiddir af dagvistarfólki og íbúum á Höfða.

Margir gestanna skoðuðu í leiðinni starfsemi sjúkraþjálfunar og iðjuþjálfunar og litu í heimsókn til íbúa Höfða.