Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Grunnskólanemar í heimsókn

Í dag heimsóttu nemendur 8.bekkjar BJ í Grundaskóla Höfða í fylgd kennara síns Borghildar Jósúadóttur.

 

Erindið var að skoða þær listsýningar sem nú standa yfir á Höfða, en faðir eins nemandans er einn þeirra listamanna sem sýna verk sín hér á Vökudögum.

 

Unga fólkið hafði gaman af að skoða listaverkin og heilsa upp á þá íbúa Höfða sem urðu á vegi þeirra.

Opið hús – basar

 

Í dag var opið hús á Höfða frá kl. 13-16 í tilefni af 30 ára afmæli Höfða. Mjög margir litu inn. Boðið var upp á skipulagðar skoðunarferðir um húsið í fylgd Helgu Atladóttur hjúkrunarforstjóra.

 

Hinn árlegi Höfðabasar var svo opinn frá kl. 14-16. Gífurleg aðsókn var að basarnum og mikil sala á þeim fallegu vörum sem þar voru í boði.

 

Þá voru hjónin Rakel Jónsdóttir og Björn Gústafsson, íbúar á Höfða, með sölubás þar sem þau seldu fallega muni og skartgripi úr íslensku grjóti sem þau hafa gert á liðnum árum. Mikil sala var á þessu fallega handverki.

 

Boðið var upp á kaffi í samkomusal og þáðu margir sopann, ekki síst þeir sem áttu maka á basarnum.

Konsúll Færeyja í heimsókn

Í dag heimsótti Gunnvör Balle konsúll Færeyja á Íslandi Höfða. Með henni för voru Gunnar Sigurðsson settur bæjarstjóri, Jón Pálmi Pálsson bæjarritari og Helga Gunnarsdóttir sviðsstjóri.

 

Gestirnir skoðuðu heimilið og snæddu síðan hádegisverð með framkvæmdastjóra, húsmóður og hjúkrunarforstjóra.

Sláturgerð

Í dag og í gær hafa íbúar Höfða staðið í sláturgerð með aðstoð nokkurra starfsmanna. Tekin voru 100 slátur. Fólk var einbeitt við sláturgerðina og handtökin fagmannleg. Augljóst var að þeir sem að sláturgerðinni stóðu hafa tekið slátur allan sinn búskap.

 

Létt var yfir mannskapnum og augljóst að allir höfðu af þessu gaman. Fyrsta sláturmáltíðin verður framreidd á morgun, en slátrið er sívinsæll matur hjá íbúum og starfsfólki Höfða.

Yfirblandari í sláturgerðinni var sem endranær Svandís Stefánsdóttir.

Aðalfundur Höfða

Aðalfundur Dvalarheimilisins Höfða var haldinn í gær.

Benedikt Jónmundsson formaður stjórnar Höfða flutti ítarlega skýrslu stjórnar og Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri skýrði ársreikning Höfða og Gjafasjóðs Höfða.

 

Gísli S.Einarsson bæjarstjóri flutti kveðjur bæjarstjórnar og lýsti ánægju með starfsemi Höfða og samstarf við stjórn og starfsfólk.

 

Fundarstjóri var Rún Halldórsdóttir og fundarritari Karen Jónsdóttir.

Deildarfundur

Í gær hélt hjúkrunarforstjóri deildarfund starfsfólks í aðhlynningu. Þar voru kynntar fyrirhugaðar framkvæmdir við stækkun þjónusturýmis, farið yfir almenn atriði, hjúkrunarskráningu, vinnuskýrslur og fleira.

 

Mjög vel var mætt á fundinn sem tókst í alla staði vel.

Heimsókn sjúkraliða í sérnámi

Í gær heimsóttu Höfða sjúkraliðar í sérnámi í öldrun. Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri tók á móti þeim og sýndi þeim alla starfsemi í húsinu. Þá litu þær inn hjá Guðrúnu Bjarnadóttur íbúa á Höfða sem spjallaði við þær um daginn og veginn og sýndi þeim sína fallegu handavinnu.

 

Þessir góðu gestir voru mjög hrifnir af öllum aðbúnaði og heimilinu almennt og fannst koma góður andi þegar þær gengu inn á heimilið.

 

Þær nema fræði sín í Fjölbrautaskólanum í Ármúla og var Guðrún Hildur Ragnarsdóttir kennari í för með þeim. Tveir þessara nema hafa verið sjúkraliðar á Höfða um langt árabil, þær Guðrún Björnsdóttir og Rakel Gísladóttir.