Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Vígsla hjúkrunarálmu

Nýja hjúkrunarálman var vígð í dag. Kristján Sveinsson formaður stjórnar Höfða bauð gesti velkomna og Sr. Eðvarð Ingólfsson flutti blessunarorð og vígði húsi.

 

Eftir að gestir höfðu skoðað húsið var boðið til kafiisamsætis í Höfðasal. Þar söng Árni Geir Sigurbjörnsson nokkur lög við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar bæjarlistamanns. Þá flutti Sigurfinnur Sigurjónsson ávarp fyrir hönd verktaka, Þorvaldur Vestmann formaður framkvæmdanefndar rakti sögu byggingarinnar og síðan fluttu ávörp Margrét Magnúsdóttir sem afhenti rausnarlega gjöf frá Kvenvélaginu Björk í Skilmannahreppi, Ása Helgadóttir sveitarstjórnarmaður í Hvalfjarðarsveit, Guðmundur Páll Jónsson formaður bæjarráðs Akraness og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri þakkaði öllum sem að verkinu hafa komið og einnig þeim sem færðu Höfða gjafir og blóm.

Fjölgun dvalarrýma

Í lok ágúst heimilaði Velferðarráðuneytið Höfða að fjölga dvalarrýmum um þrjú frá og með 1.september. Þar með hefur þeim fimm rýmum sem tekin voru af Höfða í ársbyrjun 2011 verið skilað aftur, en tveimur hjúkrunarrýmum var skilað í ársbyrjun 2012 samfara lokun E-deildar sjúkrahússins á Akranesi.

 

Fjölgun dvalarrýma kemur sér vel þar sem yfir 30 manns eru á biðlista fyrir vistun á Höfða.

Heimsókn fyrrverandi alþingismanna

S.l. föstudag heimsótti Höfða um 50 manna hópur fyrrverandi alþingismanna og maka, en hópurinn var í dagsferð á Akranesi. Guðjón Guðmundsson og Margrét A.Guðmundsdóttir tóku á móti gestunum og buðu upp á veitingar í Höfðasal þar sem þeim var kynnt starfsemi heimilisins. Guðrún Agnarsdóttir þakkaði fyrir hönd gestanna fyrir góðar móttökur.

Írskir dagar á Höfða

Í gær hófust írskir dagar á Höfða með söngskemmtun Þorvaldar Halldórssonar sem skemmti Höfðafólki með gömlu góðu lögunum. Yfir 100 manns troðfylltu Höfðasalinn og tóku vel undir með Þorvaldi og sumir stigu dansspor. Boðið var upp á léttar veitingar í tilefni írsku daganna.

 

Þá hefur heimilið verið skreytt með írskum fánum, blöðrum o.fl. Írska stemmningin sem ríkir á Akranesi þessa helgi er því ekki síður á Höfða en annars staðar í bænum.

Sumarferð

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin í gær. 50 manns tóku þátt í ferðinni, íbúar Höfða og dagdeildarfólk ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið um Bessastaði, Álftanes, Hafnarfjörð og til Keflavíkur þar sem boðið var upp á kaffihlaðborð í Kaffi Duus. Eftir kaffið litu margir við í safni sem er í sama húsi, en þar má sjá á annað hundrað skipslíkön auk fjölda gamalla muna og ljósmynda frá liðinni tíð. Næst var ekið til Grindavíkur og þaðan um hinn nýja Suðurstrandarveg til Þorlákshafnar og síðan haldið heim um Þrengslin og með Hafravatni. Heim var svo komið kl. 18,50.

 

Á suðurleiðinni rigndi nokkuð á Kjalarnesi og til Kópavogs en eftir það var blíðskaparveður alla leið. Ferðast var með sérútbúinni hjólastólarútu frá Sæmundi. Leiðsögumaður var Björn Ingi Finsen og var leiðsögn hans stórskemmtileg og fróðleg.

Þóra heimsækir Höfða

Þóra Arnórsdóttir forsetaframbjóðandi heimsótti Höfða í dag. Með henni í för var Svavar Halldórsson eiginmaður Þóru og nýfædd dóttir þeirra.

Þóra hélt fund í Höfðasal þar sem hún ávarpaði Höfðafólk og síðan spjallaði hún við íbúa og starfsmenn.

Upptökulið frá þýska sjónvarpinu fylgdi frambjóðandanum og tók m.a. viðtöl við nokkra íbúa Höfða.