Þrátt fyrir miklar annir hjá starfsfólki Höfða gefa flestir sér tíma til að fá sér matarbita og spjalla saman um það sem efst er á baugi. Hvað þessar góðu konur voru að ræða um í hádeginu í dag er ekki vitað, e.t.v. nýjustu uppskriftina eða landsleikinn í gær eða þjóðaratkvæðagreiðsluna eða hvað steikti fiskurinn var góður eða……….
Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized
Sláturgerð
Í dag hafa íbúar Höfða staðið í sláturgerð með aðstoð nokkurra starfsmanna. Tekin voru 120 slátur. Fólk var einbeitt við sláturgerðina og handtökin fagmannleg og augljóst að margir þeirra sem að sláturgerðinni stóðu hafa tekið slátur allan sinn búskap.
Létt var yfir fólki við sláturgerðina og augljóst að allir höfðu af þessu gaman. Fyrsta sláturmáltíðin verður framreitt á morgun, en slátrið er sívinsæll matur hjá íbúum og starfsfólki Höfða.
Yfirblandari í sláturgerðinni var sem endranær Svandís Stefánsdóttir.
Guðrún hættir
Guðrún Sigurbjörnsdóttir sem rekið hefur fótaaðgerðastofu á Höfða í aldarfjórðung hætti rekstri stofunnar í dag. Á síðasta fundi stjórnar Höfða færði stjórnin Guðrúnu þakkir fyrir frábæra þjónustu við íbúa Höfða í 25 ár.
Nína Borg Reynisdóttir tekur við rekstri stofunnar um næstu mánaðamót. Hún er boðin velkomin á Höfða
Tónlistarheimsókn
Feðginin Ólafur B. Ólafsson og Ingibjörg dóttir hans héldu tónleika á Höfða í dag. Þau fluttu gömlu góðu lögin auk þess sem Ólafur sló á létta strengi með gamanmálum og rímnakveðskap.
Höfðafólk fyllti samkomusalinn og hafði mikla ánægju af þessum ágætu tónleikum.
Fjölmenni í Höfðakaffi
Höfðavinir, félag aðstandenda Höfðafólks, voru með vöfflukaffi á Höfða í gær frá kl. 15-17. Mikið fjölmenni kom og fékk sér kaffi og vöfflur með ættingjum og vinum og var löng biðröð í veitingarnar framan af, en boðið var upp á vöfflukaffi í matsal, samkomusal og í nýju hjúkrunarálmunni.
Höfðavinir hömuðust í bakstrinum og var almenn ánægja með þetta framlag þeirra.
Rotaryfélagar heimsækja Höfða
Í gærkvöldi heimsóttu Höfða félagar í Rotaryklúbbi Akraness. Guðjón Guðmundsson og Margrét A.Guðmundsdóttir kynntu þeim starfsemi Höfða og svöruðu fyrirspurnum.
Bjarnþór Kolbeins þakkaði fyrir hönd gestanna fyrir góðar móttökur. Að kynningu lokinni skoðuðu gestirnir nýju hjúkrunarálmuna.
Vel heppnuð árshátíð
Árshátíð starfsmanna Höfða var haldin að Fannahlíð s.l. laugardagskvöld. Milli 80 og 90 Höfðastarfsmenn og makar mættu og skemmtu sér vel. Árshátíðarnefndina skipuðu þær Hildur Bernódusdóttir, Birna Vala Skarphéðinsdóttir og Lára Bogey Guðjónsdóttir. Boðið var upp á þríréttaða veislumáltíð frá Galító, glens og grín og að lokum var dansað til kl. 2 við undirleik hljómsveitarinnar Blek og byttur. Einnig voru dregnir út hátt í 30 happdrættisvinningar sem ýmsir velunnarar gáfu.
Allir sem mættu voru sammála um að þetta hefði verið frábær árshátíð. Skipað var í næstu árshátíðarnefnd og eiga þar sæti, Guðmunda Maríasdóttir, Helga Jónsdóttir og Sigurlín Gunnarsdóttir.
Vöfflukaffi
Höfðavinir verða með vöfflukaffi í Höfðasal sunnudaginn 14.október kl. 15,00.
Aðstandendur og velunnarar eru hvattir til að mæta og spjalla við íbúa Höfða yfir kaffibolla og vöfflum.
Haustlitaskreytingar
Starfsmenn og íbúar á hjúkrunardeild hafa undanfarið skreytt nýju hjúkrunarálmuna með haustlitunum. Skreytingarnar setja skemmtilegan svip á húsið.
Blá vika á Höfða
Annað kvöld verður árshátíð starfsmanna Höfða haldin í Fannahlíð. Árshátíðarnefnd ákvað að blátt verði þema árshátíðarinnar og að þessi vika verði blá á Höfða. Húsið hefur því verið skreytt með bláu og starfsmann klæðast og skreyta sig bláu.