Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Höfðagleði

Hin árlega Höfðagleði var haldin s.l. föstudagskvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs, makar íbúa, læknar og stjórn Höfða, alls um 170 manns.
Boðið var upp á glæsilega þriggja rétta veislumáltíð sem Haukur bryti og hans fólk í eldhúsinu reiddi fram og var mikil ánægja með frábæran mat.


Margrét A.Guðmundsdóttir setti skemmtunina og stjórnaði henni. Gestur kvöldsins var Ásmundur Friðriksson sem sagði gamansögur úr Eyjum, en hann er meðlimur í hrekkjalómafélaginu þar. Gissur Páll Gissurarson sló í gegn með stórkostlegum söng, meðleikari var Sveinn Arnar Sæmundsson. Þá flutti Anton Ottesen ávarp á léttum nótum.


Dregið var í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu góða vinninga.


Að lokum var dansað við undirleik Bjórbandsins sem hélt uppi miklu stuði til miðnættis.


Höfðagleðin tókst vel að vanda og var mikið stuð á þátttakendum.

Stuð á starfsfólki

Sú hefð hefur skapast hjá starfsfólki Höfða að gera eitthvað skemmtilegt varðandi klæðaburð og útlit í aðdraganda hinnar árlegu Höfðagleði, en hún verður haldin í kvöld.


Þetta gerir mikla lukku hjá íbúum Höfða, en í sumum tilfellum þurftu þeir að spyrja hver væri hver svo góð voru gerfin á starfsfólki í dag.


Á myndinni sést hluti hópsins, f.v. Adda, Ásta Björk, Helga Björg, Ólöf Lilja, Kristín, Kolbrún, Hildur, Guðmunda, Halla, Katrín, Sóley og Elísabet.

Endurbætur ganga vel

Undanfarna tvo mánuði hefur verið unnið að miklum endurbótum á hjúkrunargangi á 1.hæð Höfða. M.a. er öllum íbúðum breytt úr tvíbýli í einbýli. Næstu daga verður flutt í fyrstu endurgerðu íbúðirnar og í morgun  tóku smiðirnir niður þilið sem lokað hefur aðgangi að hjúkrunarganginum.


Verkið heldur svo áfram aaf fullum krafti, en í verksamningi er gert ráð fyrir verklokum 12.apríl.

Samfélagsverkefni

Í morgun heimsóttu Höfða 25 ungmenni úr 7.bekk í Grundaskóla. Með þeim í för var Úrsúla Ásgrímsdóttir umsjónarkennari bekkjarins.

 

Krakkarnir lásu ljóð og spiluðu á fiðlu og píanó. Að því loknu spiluðu þau og tefldu við Höfðafólk og einnig buðu þau fólki í minigolf.

 

Þessi heimsókn var liður í samstarfi við Norðurál sem greiðir rútu fyrir bekkinn til ferðar í Reykjaskóla að því tilskyldu að þau taki þátt í einhverju samfélagsverkefni.

 

Greinilegt var að bæði Höfðafólk og ungmennin höfðu mikla ánægju af þessari samverustund. Í næstu viku kemur svo annar hópur úr Grundaskóla á Höfða í sama tilgangi.

Afmæli Höfða

S.l. föstudag var haldið upp á 35 ára afmæli Höfða, en fyrstu íbúarnir fluttu inn á heimilið 2.febrúar 1978. Boðið var upp á kaffi og glæsilegt kökuhlaðborð og sá Sigurlaug Garðarsdóttir starfsmaður mötuneytis um baksturinn.


Ásmundur Ólafsson fyrrverandi framkvæmdastjóri lýsti aðdraganda að stofnun Höfða, byggingasögu og starfsemi heimilisins. Var góður rómur gerður að erindi hans.  Þá söng Valgerður Jónsdóttir nokkur lög við undirleik Þórðar Sævarssonar.


Talsvert á annað hundrað manns sóttu þessa afmælishátið.

Starfsmenn kvaddir

Í dag kvaddi Höfðafólk starfsmenn sem látið hafa af störfum á Höfða á síðustu mánuðum eftir langan og farsælan starfsferil, þær Arínu Guðmundsdóttur sem var sjúkraliði á Höfða í 16 ár, Sigrúnu Valgarðsdóttur sem var hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri öldrunardeildar í 11 ár, Júlíönu Karvelsdóttur sem starfaði við aðhlynningu í 12 ár og Eddu Guðmundsdóttur sem sem starfaði í býtibúri og síðan við iðjuþjálfun í 9 ár.


Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri þakkaði störf fjórmenninganna og rakti farsælan starfsferil þeirra. Guðjón óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þau mætti njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld. Kristján Sveinsson formaður stjórnar Höfða afhenti konunum blómvönd og litla gjöf frá Höfða

Sólin baðar Grettistak

Einn morguninn í vikunni þegar Jón Atli Sigurðsson kom til starfa á Höfða tók hann þessa mynd af morgunsólinni sem baðaði listaverkið Grettistak á lóð Höfða. 


Þennan morgun var því sem oftar ægifagurt útsýni sem blasti við Höfðafólki við fótaferð.

Leikskólabörn í heimsókn

Í morgun kom hópur elstu leikskólabarna á Garðaseli í heimsókn á Höfða í fylgd starfsmanna leikskólans Gullu og Ernu.

 

Krakkarnir heimsóttu dagdeild og hjúkrunardeild, spjölluðu við fólkið sem þau hittu og sungu nokkur lög.

 

Mikil ánægja var með þessa heimsókn, jafnt meðal barnanna og Höfðafólks. Ráðgert er að framhald verði á þessum heimsóknum.