Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Sumarferð

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin s.l. fimmtudag. 50 manns tóku þátt í ferðinni, íbúar Höfða og dagdeildarfólk ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið norður fyrir fjall upp á Grundartanga, um Hvalfjarðargöng, gegnum Mosfellsbæ að Hafravatni og þaðan að Hellisheiðarvirkjun þar sem Helgi Pétursson tók á móti hópnum og fór yfir virkjun jarðhitans á Hengilsvæðinu, jarðfræði og sérþekkingu Íslendinga á sviði jarðvarma.  Að þessu loknu var ekið til Selfoss þar sem boðið var upp á glæsilegt kaffihlaðborð á Hótel Selfoss.  Síðan var ekið um Grafning og Mosfellsheiði á leiðinni heim á Skaga. Heim var svo komið kl. 19,20.


Oft hefur veðrið verið betra í sumarferðum Höfða en ferðafólk lét það ekki á sig fá enda ferðaðist hópurinn undir leiðsögn Björns Inga Finsen og var leiðsögn hans að vanda bæði fróðleg og skemmtileg.  Ferðast var með sérútbúinni hjólastólarútu frá Sæmundi.

Heimsókn úr Velferðarráðuneytinu

Síðastliðinn föstudag heimsóttu Höfða þær Bryndís Þorvaldsdóttir og Heiður Margrét Björnsdóttir úr Velferðarráðuneytinu. Kynntu þær sér ný afstaðnar framkvæmdir við nýbyggingu hjúkrunardeildar og endurbætur á eldri hjúkrunardeild ásamt því að eiga góðan fund með stjórnendum Höfða.

Haldið upp á Írska daga

Í upphafi Írskra daga á Akranesi komu íbúar Höfða og dagdeildarfólk saman í Höfðasal og skemmtu sér. Boðið var upp á léttar veitingar. Þjóðlagasveit tónlistarskólans hélt uppi írskri stemmingu með flutningi sínum.

 

Þá var heimilið skreytt með írskum fánum, blöðrum o.fl. Írska stemmningin sem ríkir á Akranesi þessa helgi er því ekki síður á Höfða en annars staðar í bænum.

Grænir fingur á Höfða

Annað árið í röð er sáð og plantað út í nýja gróðurkassa á Höfða.  Í kössunum er m.a. jarðarber, grænkál, steinselja og ýmsar kryddplöntur s.s. graslaukur, mynta, blóðberg, origanó og timjan.  Vaskur hópur heimilismanna hefur unnið að ræktuninni undir stjórn þeirra Lísu sjúkraþjálfara, Maríu iðjuþjálfa og fleiri starfsmanna.  Að ræktuninni hafa komið þær  Jóhanna Ólafsdóttir, Rafnhildur Árnadóttir, Guðrún Jónsdóttir, Guðný Þorvaldsdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Guðborg Elíasdóttir og Guðbjörg Guðmundsdóttir.  Síðan hafa þeir Jóhannes Páll Halldórsson og Kristján Pálsson verði duglegir við að vökva plönturnar.

Kvennahlaupið á Höfða

Síðastliðinn föstudag var gengið í fyrsta sinn kvennahlaupið á Höfða, gengið var frá Höfða inn í Leyni og tilbaka. Þátttakendur voru um 40 og skapaðist mikil og góð stemming meðal þátttakanda.   Eftir „hlaupið“ var boðið upp á léttar veitingar í Höfðasal um leið og allir þátttakendur fengu verðlaunapening.  Veðrið lék við alla og var það samdóma álit allra að vel hafi tekist til og án vafa verði þetta að árlegum viðburð á Höfða.

Guðni Ágústsson heimsækir Höfða

Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra heimsótti Höfða í dag og rabbaði við Höfðafólk í gamansömum tón í troðfullum Höfðasal. Var gerður góður rómur að spjalli Guðna sem fór á kostum að vanda.


Guðjón þakkaði Guðna komuna og þakkaði í leiðinni Höfðafólki fyrir ánægjuleg samskipti s.l. 8 ár, en hann hættir störfum á Höfða á morgun. Guðjón sagði að það hefðu verið forréttindi að starfa með íbúum og starfsfólki Höfða og bað Guð og gæfuna að fylgja þeim öllum. Guðjón kynnti eftirmann sinn, Kjartan Kjartansson, og óskaði honum velfarnaðar í starfi.


Þá ávarpaði Kjartan Kjartansson fólk og kynnti sig, en hann tekur við starfi framkvæmdastjóra 1.júní.  Sagði hann starfið leggjast vel í sig og að hann hlakkaði til að starfa með Höfðafólki.

Vel heppnaður vormarkaður

Myndasafn

S.l. laugardag var haldinn vormarkaður á Höfða. Þar var meðal annars í boði úrval af brauði, kleinum, kökum, sultum, kæfu, garðplöntum, fötum, bókum, smámunum o.fl. sem starfsmenn seldu til fjáröflunar fyrir væntanlega utanlandsferð.

Tveir íbúar, Ólöf Hjartardóttir og Sigmundur H.H.Hansen,  voru með stórskemmtilega sölubása þar sem boðið var upp á falleg gjafakort, skartgripi og útskurð, allt unnið af seljendum.

Þá var boðið upp á svæðanudd og vaxmeðferð á höndum.

Í samkomusalnum var voðið upp á kaffi og vöfflur og ávaxtasafa fyrir börnin. Þar var troðfullt allan opnunartímann, en mörg hundruð manns sóttu þennan vel heppnaða vormarkað.

Heimsókn frá Grund

Í dag heimsóttu Höfða 11 hjúkrunarfræðingar frá Grund dvalar- og hjúkrunarheimili í Reykjavík. Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri fræddi þær um starfsemi Höfða og sýndi þeim heimilið.

Sigurlín ráðin húsmóðir

Á fundi stjórnar Höfð í fyrradag var Sigurlín Gunnarsdóttir ráðin húsmóðir á Höfða.

17 umsækjendur voru um starfið.

Sigurlín sem er sjúkraliði á Höfða tekur við starfinu af Margréti A.Guðmundsdóttur 1.júlí n.k.

Óvenjuleg heimsókn

Í dag kom Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með tvo tveggja daga heimalninga frá Ásfelli í heimsókn á Höfða.

Þessi heimsókn vakti mikla ánægju, jafnt meðal íbúa og starfsmanna og ekki var annað að sjá en að ferfætlingunum liði vel á Höfða