Sumarferð

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin s.l. fimmtudag. 50 manns tóku þátt í ferðinni, íbúar Höfða og dagdeildarfólk ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið norður fyrir fjall upp á Grundartanga, um Hvalfjarðargöng, gegnum Mosfellsbæ að Hafravatni og þaðan að Hellisheiðarvirkjun þar sem Helgi Pétursson tók á móti hópnum og fór yfir virkjun jarðhitans á Hengilsvæðinu, jarðfræði og sérþekkingu Íslendinga á sviði jarðvarma.  Að þessu loknu var ekið til Selfoss þar sem boðið var upp á glæsilegt kaffihlaðborð á Hótel Selfoss.  Síðan var ekið um Grafning og Mosfellsheiði á leiðinni heim á Skaga. Heim var svo komið kl. 19,20.


Oft hefur veðrið verið betra í sumarferðum Höfða en ferðafólk lét það ekki á sig fá enda ferðaðist hópurinn undir leiðsögn Björns Inga Finsen og var leiðsögn hans að vanda bæði fróðleg og skemmtileg.  Ferðast var með sérútbúinni hjólastólarútu frá Sæmundi.