Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Bocciamót

Hinu árlega Boccia móti Höfða lauk í gær. Keppnin var að vanda jöfn og spennandi. 8 lið tóku þátt í mótinu.

 

Liðin voru þannig skipuð:

SKÝIN:

Anna M.Jónsdóttir,

Sjöfn Jóhannesdóttir og

Guðrún Adolfsdóttir.

 

FÁLKAR:

Guðný Þorvaldsdóttir,

Lilja Pétursdóttir og

Ásta Albertsdóttir.

 

FOLAR:

Björn Gústafsson,

Hákon Björnsson og

Guðrún Kjartansdóttir.

 

STRÁIN:

Jóhannes P.Halldórsson,

Rakel Jónsdóttir og

Bjarney Hagalínsdóttir.

 

ERNIR:

Magnús Guðmundsson,

Lára Arnfinnsdóttir og

Gunnvör Björnsdóttir.

 

RÚSÍNUR:

Tómas Sigurðsson,

Vigfús Sigurðsson og

Lúðvík Björnsson.

 

SÓLIR:

Þuríður Jónsdóttir,

Auður Elíasdóttir og

Kristján Pálsson.

 

GARPAR:

Gunnar Guðjónsson,

Sigurjón Jónsson og

Svava Símonardóttir.

 

Í þriggja liða úrslitum kepptu FOLAR, STRÁIN og RÚSÍNUR. Úrslit urðu þau að FOLAR sigruðu, RÚSÍNUR lentu í 2.sæti og STRÁIN í 3 sæti.

 

Edda og Adda voru dómarar og stjórnuðu mótinu af röggsemi og í léttum dúr. Fjöldi áhorfenda var á öllum leikjunum.

 

Verðlaunaafhending fór fram í morgun. Að henni lokinni léku 3 starfsmenn; Unnur, Sigurbjörg og Erla sýningarleik. Kom í ljós að þær komust ekki með tærnar þar sem íbúarnir hafa hælana í Boccia!

Höfðabíó

S.l. föstudagskvöld bauð Höfði starfsmönnum og gestum á einkasýningu á kvikmyndinni MAMMA GÓGÓ í Bíóhöllinni. Um 160 manns mættu á sýninguna og skemmtu sér vel.

Höfðingleg gjöf

Í dag heimsóttu Höfða 8 konur úr Kvenfélaginu Björk í Skilmannahreppi og færðu heimilinu að gjöf rafstýrðan, leðurklæddan hægindastól fyrir dagdeild og hjartastuðtæki. Skilmannahreppur hefur nú sameinast öðrum hreppum sunnan Skarðsheiðar í sveitarfélagið Hvalfjarðarsveit og Kvenfélagið Björk hefur hætt starfsemi sinni. Félagið átti peninga í sjóði og ákváðu konurnar að gefa þá til góðra mála og nýtur Höfði góðs af því. Þess má geta að starfssvæði Höfða er Akranes og Hvalfjarðarsveit.

 

Margrét Magnúsdóttir afhenti gjafirnar. Helga Atladóttir og Margrét A.Guðmundsdóttir veittu þeim viðtöku.

 

Helgihald um hátíðarnar

Á aðfangadagsmorgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í samkomusal. Með henni voru barnabörn hennar sem sungu nokkra jólasálma við gítarundirleik sonar djáknans.

Á annan jóladag var hátíðarmessa. Sr. Eðvarð Ingólfsson predikaði og kór Akraneskirkju söng við undirleik Sveins Arnar Sæmundssonar.

 

Í morgun var svo helgistund djákna. Þar söng kór Saurbæjarprestakalls. Organisti var Örn Magnússon.

 

Allar þessar samkomur voru vel sóttar og áttu stóran þátt í að skapa hátíðarstemningu á Höfða

Jólaball

Í gær var jólaball á Höfða fyrir börn og barnabörn íbúa og starfsmanna. Bjórbandið lék jólalögin og Andrea Guðjónsdóttir söng. Tveir jólasveinar komu í heimsókn og útdeildu gjöfum til barnanna. Ballið var mjög vel sótt bæði af börnum og aðstandendum og skemmtu sér allir vel. Að balli loknu þáðu gestir veitingar í boði Höfða.

 

 

 

 

 

Skemmtileg sýning

Fyrir jólin bauð Haraldur Sturlaugsson Höfðafólki að heimsækja sýningu sína í stjórnsýsluhúsinu, en þar er íþróttasaga Akraness í 100 ár rakin í máli og myndum. Stór hópur þáði þetta góða boð og hafði mikla ánægju af sýningunni, enda rifjuðust upp fyrir mörgum góðu gömlu dagarnir við að skoða myndirnar.

 

Áður en heim var haldið bauð Haraldur upp á rausnarlegar veitingar.

Góðir gestir heimsækja Höfða

Margir góðir gestir heimsóttu Höfða í síðustu viku. Á þriðjudagsmorgni komu börn úr Leikskólanum Vallarseli og fluttu helgileik. Var gaman að sjá hvað börnin lögðu sig fram og hvað flutningur þeirra var góður. Gerði sýningin mikla lukku hjá íbúum Höfða. Að sýningu lokinni var flytjendum boðið upp á Svala sem rann ljúflega niður.

 

Síðdegis á þriðjudag kom svo Grundartangakórinn með sína árlegu jólatónleika, en þessi góði kór hefur heimsótt Höfða ár hvert í aldarfjórðung. Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson.

 

Smári Vífilsson og Guðlaugur Atlason sungu einsöng. Grundartangakórinn er alltaf jafn vinsæll hjá íbúum Höfða sem njóta þess að hlýða á þennan ágæta karlakór.

 

Á miðvikudag kom svo kór Orkuveitu Reykjavíkur söng nokkur lög við góðar undirtektir.

Öllum þeim fjölmörgu listamönnum sem hafa heimsótt Höfða á árinu eru færðar bestu þakkir.

 

 

Skemmtanir

Margir góðir gestir hafa heimsótt Höfða að undanförnu og skemmt íbúum heimilisins. Í síðustu viku komu tvær stúlkur úr tónlistarskólanum og léku nokkur jólalög í matsalnum á kaffitíma. Þær heita Kim Klara sem spilaði á fiðlu og Sóley Hafsteinsdóttir á flautu. Góður rómur var gerður að flutningi þeirra.

 

Á miðvikudag kom Óskar Pétursson, Álftagerðisbróðir, og kynnti nýjan geisladisk sinn. Óskar söng nokkur lög og sagði gamansögur við góðar undirtektir íbúa Höfða sem troðfylltu samkomusalinn.

 

Á föstudag komu svo Davíð Ólafsson bassi og Stefán Helgi Stefánsson tenór og sungu jólalög og önnur lög við mikla hrifningu Höfðafólks sem hyllti þá vel og lengi að skemmtun lokinni. Þess má geta að Davíð er náfrændi Jónínu Finsen íbúa á Höfða og á meðfylgjandi myndi heilsar hann upp á frænku sína.

 

Von er á fleiri góðum gestum í þessari viku.