Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Yngsta kynslóðin heimsækir Höfða

Börn úr leikskólanum Akraseli voru í hjólatúr og litu við á Höfða í leiðinni. Þau tóku lagið, prófuðu lyfturnar og skoðuðu það sem fyrir augu bar.

Það er alltaf upplífgandi þegar yngsta kynslóðið kemur í húsið.

Handavinnuleiðbeinendur í heimsókn

S.l. laugardag heimsóttu Höfða 42 konur úr Félagi handavinnuleiðbeinenda. Komu þær víða af landinu. Helga Jónsdóttir deildarstjóri dagdeildar tók á móti þeim og sagði frá starfseminni á Höfða og bauð þeim upp á kaffi og konfekt.

Aðstandendafundur

Í gær var haldinn fundur með aðstandendum íbúa á Höfða. Þar sagði Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri frá yfirstandandi og fyrirhuguðum framkvæmdum við endurbætur og stækkun Höfða, Reynir Þorsteinsson læknir ræddi um læknisþjónustu á Höfða og lífsskrá, Margrét A.Guðmundsdóttir forstöðukona lýsti félagsstarfi og afþreyingu á heimilinu og Elísabet Ragnarsdóttir sjúkraþjálfari sagði frá sjúkraþjálfun á Höfða. Frummælendum sátu síðan fyir svörum ásamt Helgu Atladóttur hjúkrunarforstjóra sem var fundarstjóri.

 

Fundurinn var mjög vel sóttur. Boðið var upp á kaffi og meðlæti að lokinni dagskrá.

Messa á æskulýðsdegi

 

Í gær var guðsþjónusta á Höfða á æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar. Af því tilefni sungu ungmennakórar Akraneskirkju undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar. Prestur var sr. Eðvarð Ingólfsson.

Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra í heimsókn

Í dag heimsótti stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra Höfða, þau Rannveig Guðmundsdóttir formaður, Unnar Stefánsson, Bernharður Guðmundsson, Dagmar Huld Matthíasdóttir og Helgi Hjálmsson. Með þeim í för voru Ólafur Gunnarsson öldrunarlæknir, Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar og Vilborg Ingólfsdóttir frá Félagsmálaráðuneytinu.

 

Benedikt Jónmundsson formaður stjórnar Höfða, Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri, Margrét A.Guðmundsdóttir húsmóðir og Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri tóku á móti gestunum og sýndu þeim heimilið. Guðjón kynnti þeim starfsemi Höfða og fyrirhugaðar framkvæmdir við stækkun þjónusturýma og lokaða deild fyrir heilabilaða.

 

Gestir og heimamenn ræddu ítarlega um stækkunarhugmyndir, en fyrir stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra liggur umsókn Höfða vegna næsta framkvæmdaáfanga.

Höfðagleði

Hin árlega Höfðagleði var haldin s.l. föstudagskvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs og stjórn Höfða, alls um 170 manns.

 

Boðið var upp á glæsilega þriggja rétta veislumáltíð sem Haukur kokkur og hans fólk í eldhúsinu reiddi fram.

 

Hinn landskunni Ómar Ragnarsson stjórnaði skemmtuninni að þessu sinni og fór á kostum. Hann flutti ótal skemmtiatriði og söng við undirleik Hauks Heiðar.

 

Sigurbjörn Skarphéðinsson söng gamanvísur og Höfðakórinn söng nokkur lög við undirleik Hauks Heiðar. Þá var dregið í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu glæsilega vinninga í boði Einars Ólafssonar kaupmanns.

 

Að lokum var dansað til miðnættis við undirleik Jóns Heiðars Magnússonar, Geirs Guðlaugssonar og Sirrýjar Indriðadóttur.

 

Höfðagleðin tókst vel að vanda og var almenn ánægja með veitingar, skemmtiatriði og músik.

Ljósmyndasýning

Í gær var opnuð á Höfða sýning á ljósmyndum Kristínar Gísladóttur. Myndirnar eru allar til sölu.

 

Fermingarfræðsla

Í dag heimsóttu Höfða 16 ungmenni úr Grundaskóla. Þau eiga að fermast í vor og óskuðu eftir að hitta íbúa Höfða og forvitnast um hvernig undirbúningi og fræðslu var háttað þegar þau voru fermd.

 

Fjórir íbúar Höfða, þau Björn Gústafsson, Gunnvör Björnsdóttir, Kjartan Guðmundsson og Stefán Bjarnason, hittu fjögur ungmenni hver og fræddu þau um hvernig staðið var að fermingu þeirra fyrir mörgum áratugum.

Unga fólkið var í fylgd kennara síns, Hjördísar Grímarsdóttur. Allir sem tóku þátt í þessu spjalli höfðu af því mikla ánægju.

 

Sigríður 100 ára

Sigríður Guðmundsdóttir, sem jafnan er kennd við Hvítanes, á 100 ára afmæli í dag. Sigríður hefur búið á Höfða frá 27.maí 2006 og unir hag sínum vel. Hún mætir á hverjum morgni inn á dagdeild þar sem hún les blöðin og fæst við hannyrðir. Hún mætir reglulega í spilavistina og hefur til skamms tíma fylgst með fótbolta í sjónvarpinu, en margir afkomendur hennar eru landskunnir knattspyrnumenn.

 

Afkomendur Sigríðar halda henni veislu í samkomusal Höfða kl. 16-18 í dag. Íbúar og starfsmenn Höfða senda henni hjartanlegar hamingjuóskir.

 

Á myndinni er Sigríður í stólnum hjá Guðnýju hárgreiðslukonu að morgni afmælisdags.