Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Vel heppnuð árshátíð

Árshátíð starfsmanna Höfða var haldin að Miðgarði s.l. laugardagskvöld. Mæting var góð og kvöldið vel heppnað, enda skemmtunin vel undirbúin af árshátíðarnefndinni sem var skipuð þeim Maríu Kristinsdóttur, Pálínu Sigmundsdóttur og Vilborgu Ingu Guðjónsdóttur. Boðið var upp á þríréttaða máltíð sem gerði mikla lukku. Forréttur og aðalréttur voru frá Galító en árshátíðarnefndin útbjó sjálf eftirréttinn.

 

Veislustjóri var Unnur Halldórsdóttir sem fór á kostum í gamanmálum og kveðskap. Höfðakórinn söng nokkur lög við góðar undirtektir og flutt voru ýmis heimatilbúin skemmtiatriði. Þá var dregið um fjölda góðra vinninga í happdrætti. Hljómsveitin Hafrót lék fyrir dansi og var dansgólfið troðfullt til klukkan 2 en þá lauk árshátíðinni.

 

Árshátíðin tókst í alla staði mjög vel og var almenn ánægja meðal þátttakenda. Í næstu árshátíðarnefnd voru skipaðar þær Guðný Sigurðardóttir, Guðrún Ísleifsdóttir og Sigrún Jóhannesdóttir.

Helga styrkt

Í fyrradag voru veittir fjórir styrkir úr Rannsóknarsjóði Öldrunarráðs Íslands, en sjóðurinn styrkir áhugaverðar rannsóknir í öldrunarmálum.

 

Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri á Höfða hlaut 300 þúsund króna styrk vegna rannsóknar sinnar á heilsufari og færni aldraðra með einkenni heilabilunar á hjúkrunardeildum á Íslandi og gæðum þeirrar hjúkrunar sem þeir njóta. Um er að ræða meistaraverkefni Helgu en hún stundar meistaranám í hjúkrunarstjórnun við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

 

Harmonikkuball

Vegna framkvæmda við stækkun þjónusturýma er samkomusalur Höfða lokaður og verður því að halda samkomur á ganginum framan við salinn.

 

Í dag lék Jón Heiðar Magnússon á harmonikku gömlu góðu danslögin við góðar undirtektir Höfðafólks og tóku margir snúning við ljúfa tóna nikkunnar.

Samkoma vegna kvennafrídags

Í dag komu íbúar og starfsmenn saman kl. 14,25 í tilefni kvennafrídagsins og sungu og lásu ljóð. Mæting var mjög góð og mikil stemning í hópnum.

 

 

Gjöf Arion banka

Arion banki hefur fært Höfða að gjöf 20 innrammaðar myndir, teikningar sr. Jóns M.Guðjónssonar af bæjum í nærsveitum Akraness, en þessar myndir hafa prýtt útibú bankans á Akranesi sem nú hefur verið lokað.

 

Myndirnar verða settar upp í nýja matsalnum sem verður tilbúinn til notkunar á fyrri hluta næsta árs.

Ragnar Bjarnason skemmtir á Höfða

Í gær heimsótti hinn sívinsæli Raggi Bjarna Höfða og söng gömlu góðu lögin og fór með gamanmál. Íbúar og dagdeildarfólk tóku undir sönginn og skemmtu sér konunglega. Ása Ólafsdóttir tók tvö lög með Ragga, en hún var dægurlagasöngkona á yngri árum.

 

Bæjarstjóri heimsækir Höfða

Árni Múli Jónasson, nýráðinn bæjarstjóri á Akranesi, heimsótti Höfða í dag. Hann skoðaði heimilið ítarlega, ræddi við starfsmenn og íbúa og fundaði síðan með stjórnendum Höfða þar sem farið var yfir helstu áherslur í starfsemi og rekstri heimilisins. Í för með bæjarstjóra var Tómas Guðmundsson verkefnastjóri bæjarins.

 

 

Ráðherra velferðarmála í heimsókn

Guðbjartur Hannesson ráðherra velferðarmála heimsótti Höfða í morgun og fundaði með Kristjáni Sveinssyni formanni stjórnar Höfða, Guðjóni Guðmundssyni framkvæmdastjóra og Helgu Atladóttur hjúkrunarforstjóra. Fundinn sátu einnig Árni Múli Jónasson bæjarstjóri og Guðmundur Páll Jónsson formaður bæjarráðs.

 

Forsvarsmenn Höfða kynntu ýmis hagsmunamál Höfða; yfirstandandi og fyrirhugaðar framkvæmdir, íbúafjölda, starfsmannahald o.fl.

 

 

Að fundi loknum heilsaði ráðherra upp á íbúa Höfða.

 

Góðar gjafir

Kiwanisklúbburinn Þyrill á 40 ára afmæli um þessar mundir. Í tilefni af því færði klúbburinn nokkrum aðilum gjafir í samkvæmi á sjúkrahúsinu í gærkvöldi. Halldór Fr. Jónsson formaður Þyrils færði þar Höfða 3 góðar gjafir; sjúkrarúm sem hægt er að hækka og lækka, 3 vinnuborð fyrir dagdeild og þrekhjól fyrir sjúkraþjálfun. Heildarverðmæti þessara gjafa er kr. 1.135.000.

 

Guðjón Guðmundsson þakkaði klúbbfélögum fyrir þessar góðu gjafir og minnti á að Kiwanisklúbburinn Þyrill hefði allt frá því Höfði hóf starfsemi fyrir 32 árum fært heimilinu hverja stórgjöfina á fætur annari sem hefðu nýst vel.

 

Aðrir sem fengu gjafir frá Þyrli í tilefni afmælisins eru Sjúkrahús Akraness, Þjótur íþróttafélag fatlaðra og Dropinn félag sykursjúkra barna.

Viðbygging rís

Framkvæmdir við stækkun þjónusturýma Höfða hafa staðið yfir undanfarnar vikur. Í morgun voru fyrstu einingarnar reistar við eldhúsið og í næstu viku verða svo reistar einingar við þjónusturýmin í Suðurhlið hússins.

 

Verktaki er Sjammi ehf. og byggingastjóri Sigurjón Skúlason. Veðrið hefur leikið við þá sem vinna við stækkunina, einmuna blíða alla daga og verður vonandi svo áfram.