Góðar gjafir

Kiwanisklúbburinn Þyrill á 40 ára afmæli um þessar mundir. Í tilefni af því færði klúbburinn nokkrum aðilum gjafir í samkvæmi á sjúkrahúsinu í gærkvöldi. Halldór Fr. Jónsson formaður Þyrils færði þar Höfða 3 góðar gjafir; sjúkrarúm sem hægt er að hækka og lækka, 3 vinnuborð fyrir dagdeild og þrekhjól fyrir sjúkraþjálfun. Heildarverðmæti þessara gjafa er kr. 1.135.000.

 

Guðjón Guðmundsson þakkaði klúbbfélögum fyrir þessar góðu gjafir og minnti á að Kiwanisklúbburinn Þyrill hefði allt frá því Höfði hóf starfsemi fyrir 32 árum fært heimilinu hverja stórgjöfina á fætur annari sem hefðu nýst vel.

 

Aðrir sem fengu gjafir frá Þyrli í tilefni afmælisins eru Sjúkrahús Akraness, Þjótur íþróttafélag fatlaðra og Dropinn félag sykursjúkra barna.