Vel heppnuð árshátíð

Árshátíð starfsmanna Höfða var haldin að Miðgarði s.l. laugardagskvöld. Mæting var góð og kvöldið vel heppnað, enda skemmtunin vel undirbúin af árshátíðarnefndinni sem var skipuð þeim Maríu Kristinsdóttur, Pálínu Sigmundsdóttur og Vilborgu Ingu Guðjónsdóttur. Boðið var upp á þríréttaða máltíð sem gerði mikla lukku. Forréttur og aðalréttur voru frá Galító en árshátíðarnefndin útbjó sjálf eftirréttinn.

 

Veislustjóri var Unnur Halldórsdóttir sem fór á kostum í gamanmálum og kveðskap. Höfðakórinn söng nokkur lög við góðar undirtektir og flutt voru ýmis heimatilbúin skemmtiatriði. Þá var dregið um fjölda góðra vinninga í happdrætti. Hljómsveitin Hafrót lék fyrir dansi og var dansgólfið troðfullt til klukkan 2 en þá lauk árshátíðinni.

 

Árshátíðin tókst í alla staði mjög vel og var almenn ánægja meðal þátttakenda. Í næstu árshátíðarnefnd voru skipaðar þær Guðný Sigurðardóttir, Guðrún Ísleifsdóttir og Sigrún Jóhannesdóttir.