Undanfarna fimmtudaga hefur Elísabet Karlsdóttir komið með gítarinn sinn á Höfða og sungið með heimilis- og dagdeildarfólki gömlu góðu lögin sem allir kunna. Góð aðsókn hefur verið að þessum söngstundum.
Stórsöngvarinn Kristján Jóhannsson hélt tónleika í Höfðasal á laugardaginn. Meðleikari var Guðbjörg Sigurjónsdóttir. Kristján söng íslensk, skandinavísk og ítölsk lög.
Höfðasalur var troðfullur og um 100 áheyrendur skemmtu sér konunglega. Kristján endaði tónleikana með því að syngja Hamraborgina og risu áheyrendur úr sætum og þökkuðu kröftuglega fyrir þessa frábæru söngskemmtun.
Í dag kvaddi Höfðafólk starfsmenn sem látið hafa af störfum á Höfða á árinu eftir langan og farsælan starfsferil, þau Baldur Magnússon sem starfaði við akstur og umsjón fasteigna í 17 ár, Erlu Óskarsdóttur sem starfaði við aðhlynningu í 7 ár og Sólveigu Kristinsdóttir sem var hjúkrunarforstjóri í 3 ár og deildarstjóri hjúkrunardeildar í 12 ár. Fjórði starfsmaðurinn sem lét af störfum á árinu, Sonja Hansen, var ekki viðstödd en hún starfaði á Höfða í 25 ár.
Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri þakkaði störf fjórmenninganna og rakti farsælan starfsferil þeirra. Guðjón óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þau mættu njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.
S.l. föstudag tók Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra fyrstu skóflustunguna að nýrri hjúkrunarálmu sem kemur norður úr elsta hluta Höfða. Áður hafði Kristján Sveinsson formaður stjórnar Höfða ávarpað viðstadda og lýst aðdraganda þessarar framkvæmdar. Með tilkomu þessarar álmu verða fjölbýli úr sögunni á Höfða að undanskildum hjóníbúðum.
Í för með ráðherra var starfslið Velferðarráðuneytisins ásamt mökum, alls um 100 manns. Viðstaddir þessa athöfn voru einnig fulltrúar Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar, stjórnarmenn í Höfða, fulltrúar verktaka, arkitekt, eftirlitsmenn o.fl.
Að athöfn lokinni var boðið upp á veitingar í Höfðasal. Þar kynntu Guðjón Guðmundsson og Margrét A.Guðmundsdóttir starfsemi Höfða og ráðherra þakkaði góðar móttökur.
Í gær var haldinn fundur með aðstandendum þeirra sem búa á Höfða. Á fundinum kynnti Guðjón Guðmundsson nýafstaðnar og væntanlegar framkvæmdir við Höfða, Ragnheiður Guðmundsdóttir kynnti starf djákna, Helga Jónsdóttir starfsemi dagdeildar, Haukur S.Ingibjargarson starfsemi mötuneytis og Bylgja Kristófersdóttir starfsemi hjúkrunardeildar. Fundarstjóri var Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri.
Að loknum þessum kynningum voru svo umræður og fyrirspurnir. Þá fór fram skrifleg könnun meðal fundarmanna um hvað þeim fyndist um þjónustuna á Höfða og kom fram almenn ánægja með hana. Einnig var beðið um ábendingar varðandi aðstöðu og þjónustu og komu fram ýmsar ágætar hugmyndir.
Á fundi með aðstandendum í gær var stofnað aðstandafélag. Í stjórn félagsins voru kosnar Elín Hanna Kjartansdóttir, Guðrún Elsa Gunnarsdóttir og Soffía Magnúsdóttir.
Í fyrradag komu 56 starfsmenn Höfða heim úr 5 daga fræðslu- og skemmtiferð til Þýskalands. Gist var í bænum Oberkirch í Svartaskógi. Á föstudag heimsótti hópurinn hjúkrunarheimilið Das Katharinenstift í Freiborg, en á heimilinu eru 129 íbúar. Stjórnendur heimilisins tóku mjög vel á móti hópnum, kynntu starfsemi heimilisins, sýndi aðstöðuna, svöruðu fjölmörgum fyrirspurnum og buðu að lokum upp á kartöflusúpu sem virðist vera mjög vinsæl á þessum slóðum. Þessi heimsókn var mjög gagnleg og fróðlegt að sjá hvernig að málum er staðið í öðrum löndum.
Á laugardag var farið í skoðunarferðar til Strasbourg í Frakklandi þar sem gengið var um gamla borgarhlutann og farið í siglingu á ánni Ill. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður og margt til gamans gert. Á sunnudag var svo ekið um vínræktarhéruðin í Alsace og komið við í tveimur fallegum smábæjum. Á heimleiðinni varð það óhapp að kviknaði í rútunni og varð hópurinn að yfirgefa hana og bíða í 2 tíma eftir annari rútu. Tóku því allir með bros á vör og göntuðust með að Höfðafólk og rútur ættu ekki samleið, en í síðustu utanlandsferð lenti hópurinn í svipaðri töf þegar rúta ók inn í skriðu á Kjalarnesi í upphafi ferðar.
Á mánudag var svo haldið heim á leið og lent í Keflavík síðdegis. Voru allir sammála um að ferðin hefði verið frábær í alla staði. Sigurbjörg Ragnarsdóttir og Unnur Guðmundsdóttir sáu um undirbúning og skipulagningu ferðarinnar. Guðrún Björnsdóttir og Hildur Bernódusdóttir stjórnuðu fjáröflun sem starfsmenn tóku þátt í af miklum krafti mánuðum saman. Farið var með Bændaferðum sem lögðu til fararstjóra, Þórhall Vilhjálmsson.
Veðrið var einstaklega gott í þessari frábæru ferð, 20-30 stiga hiti og sól.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra heimsótti Höfða í morgun. Ráðherra skoðaði nýtt þjónustrými heimilisins, en framkvæmdum við það lauk í sumar. Hann átti síðan fund með forráðamönnum heimilisins þar sem rætt var um starfsemi Höfða og helstu áherslur Höfðafólks varðandi reksturinn.
Guðbjartur heilsaði síðan upp á starfsfólk og íbúa heimilisins.