Óskum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Þökkum ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða.
Íbúar og starfsfólk Höfða.
Í gærkvöldi buðu starfsmenn íbúum til samverustundar í aðdraganda jóla. Annarsvegar var samverustund á Innri-Hólmi fyrir íbúa Innri- og Ytri Hólms og hinsvegar á Leyni fyrir íbúa Leynis og Jaðars. Starfsmennirnir komu með margskonar góðgæti að heiman og buðu íbúunum. Mikil ánægja var með þessa notalegu kvöldstund og þetta skemmtilega framtak starfsmannanna.
Grundartangakórinn hélt sína árlegu jólatónleika á Höfða í gær. Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson og einsöngvarar Bjarni Atlason, Guðlaugur Atlason og Smári Vífilsson. Undirleik annaðist Flosi Einarsson.
Tónleikarnir voru vel sóttir og góður rómur gerður að þeim.
Síðastliðinn föstudag var hið árlega jólahlaðborð Höfða haldið og komu fjölmargir aðstandendur og borðuðu með sínu fólki. Helgin endaði svo með aðventustund á sunnudag sem var í umsjón Séra Eðvarðs Ingólfssonar og Séra Þráins Haraldssonar. Allir þessir viðburðir voru vel sóttir og almenn ánægja með þá.
Starfsmenn og íbúar Höfða halda markað og vöfflukaffi laugardaginn 21. nóvember í Höfðasal frá kl. 14.00 til 16.00.
Allir velkomnir.
Í gærkvöldi, á kvöldvöku sem haldin var af starfsmönnum fyrir íbúa Höfða, voru afhentar árlegar starfsaldursviðurkenningar. Að þessu sinni fengu eftirtaldir 8 starfsmenn viðurkenningu:
Fyrir 5 ára starf: Birna Júlíusdóttir.
Fyrir 15 ára starf: Ingibjörg Rósa Aðalsteinsdóttir og Margrét Rögnvaldsdóttir.
Fyrir 25 ára starf: Sigurbjörg Ragnarsdóttir, Hjördís Guðmundsdóttir, Jóna Björk Guðmundsdóttir og Guðmundína Hallgrímsdóttir.
Fyrir 35 ára starf: Unnur Guðmundsdóttir.
Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri sagði að með þessum viðurkenningum vildi stjórn Höfða þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins. Kjartan sagði að starfsfólkið væri helsti styrkleiki Höfða og minnti á mikilvægi stöðugs vinnuafls.
Við sama tækifæri kvaddi Höfðafólk Svandísi Stefánsdóttur sem lét af störfum á Höfða á árinu eftir farsælan starfsferil, Svandís hóf störf í eldhúsi Höfða í nóvember 1992 og hafði því starfað á Höfða í rúmlega 23 ár.
Kjartan afhenti Svandísi blómvönd og litla gjöf frá Höfða um leið og hann þakkaði henni fyrir störf sín fyrir Höfða og óskaði henni góðs gengis á ókomnum árum og að hún mætti njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.
Hin árlega kvöldvaka þar sem starfsmenn Höfða bjóða íbúum upp á skemmtiatriði og veitingar var haldin í gærkvöldi. Borð svignuðu undan girnilegum kræsingum sem starfsmenn komu með að heiman og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá.
Fyrst söng Daníel Breki og spilaði á gítar, Arnar Snær flutti ljóð, vinkonurnar Rakel Rún og María Dís fluttu tvö lög og að lokum söng Símon Orri tvö lög við undirleik Höllu Margrétar.
Auk þess leiddi Símon Orri afmælissöng en allir sungu fyrir afmælisbarnið og heiðursborgara Akraness Ríkharð Jónsson sem varð 86 ára í gær.
Mikil ánægja var með þessa kvöldvöku sem heppnaðist mjög vel. Skemmtinefndina skipuðu þau Kjartan Kjartansson, Pálína Sigmundsdóttir, Birna Júlíusdóttir, Aðalbjörg Alfreðsdóttir og María G. Kristinsdóttir.
Í tengslum við Vökudaga á Akranesi voru tvær sýningar opnaðar á Höfða fyrir helgi.
Fyrst ber að nefna sýninguna „Það sem augað mitt sér“ sem er ljósmyndasýning 5 ára barna í leikskólanum Garðaseli.
Á föstudaginn var opnuð samsýning Ásgeirs Samúelssonar sem sýnir útskurð og myndlistarkvennanna Jóhönnu Vestmann og Nínu Áslaugar Stefánsdóttur.
Við opnunina spilaði Þjóðlagasveit Tónlistaskóla Akraness undir stjórn Ragnars Skúlasonar.
Sýningarnar verða opnar meðan á Vökudögum stendur.
Föstudaginn 30. október kl. 17.00 verða Vökudagar settir á Höfða.
Ásgeir Samúelsson sýnir útskurð, börn af leikskólanum Garðasel verða með ljósmyndasýningu og myndlistarkonurnar Jóhanna Vestmann og Nína Áslaug Stefánsdóttir sýna m.a. olíu- og vatnslitamyndir.
Við opnunina mun Þjóðlagasveit Tónlistaskólans á Akranesi spila og boðið verður upp á léttar veitingar.
Allir velkomnir.
Líf og fjör hefur verið á öllum deildum Höfða í vikunni og allir keppst við að skreyta sína deild. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum hefur ríkt mikil hugmyndaauðgi og hart barist um bestu skreytinguna.
Eftir hádegi í dag kom sérstök dómnefnd í heimsókn og tók út skreytingarnar. Dómnefndina skipa Kirstín Benediktsdóttir blómaskreytir, Jón Þórir Guðmundsson garðyrkjufræðingur og Ólöf Una Ólafsdóttir hársnyrtir. Úrslit og verðlaun verða svo kynnt og afhent á árshátíð starfsmanna á laugardagskvöld.
Gangurinn minn
Gulli skrýddur er gangurinn minn
sem gleður augað og hressir sinni
ánægju og gleði ég aftur finn
sem eflaust geymist lengi í minni.
Kjartan H. Guðmundsson
Íbúi á Jaðri