Guðni Ágústsson heimsækir Höfða

Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra heimsótti Höfða í dag og rabbaði við Höfðafólk í gamansömum tón í troðfullum Höfðasal. Var gerður góður rómur að spjalli Guðna sem fór á kostum að vanda.


Guðjón þakkaði Guðna komuna og þakkaði í leiðinni Höfðafólki fyrir ánægjuleg samskipti s.l. 8 ár, en hann hættir störfum á Höfða á morgun. Guðjón sagði að það hefðu verið forréttindi að starfa með íbúum og starfsfólki Höfða og bað Guð og gæfuna að fylgja þeim öllum. Guðjón kynnti eftirmann sinn, Kjartan Kjartansson, og óskaði honum velfarnaðar í starfi.


Þá ávarpaði Kjartan Kjartansson fólk og kynnti sig, en hann tekur við starfi framkvæmdastjóra 1.júní.  Sagði hann starfið leggjast vel í sig og að hann hlakkaði til að starfa með Höfðafólki.

Vel heppnaður vormarkaður

Myndasafn

S.l. laugardag var haldinn vormarkaður á Höfða. Þar var meðal annars í boði úrval af brauði, kleinum, kökum, sultum, kæfu, garðplöntum, fötum, bókum, smámunum o.fl. sem starfsmenn seldu til fjáröflunar fyrir væntanlega utanlandsferð.

Tveir íbúar, Ólöf Hjartardóttir og Sigmundur H.H.Hansen,  voru með stórskemmtilega sölubása þar sem boðið var upp á falleg gjafakort, skartgripi og útskurð, allt unnið af seljendum.

Þá var boðið upp á svæðanudd og vaxmeðferð á höndum.

Í samkomusalnum var voðið upp á kaffi og vöfflur og ávaxtasafa fyrir börnin. Þar var troðfullt allan opnunartímann, en mörg hundruð manns sóttu þennan vel heppnaða vormarkað.

Heimsókn frá Grund

Í dag heimsóttu Höfða 11 hjúkrunarfræðingar frá Grund dvalar- og hjúkrunarheimili í Reykjavík. Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri fræddi þær um starfsemi Höfða og sýndi þeim heimilið.

Sigurlín ráðin húsmóðir

Á fundi stjórnar Höfð í fyrradag var Sigurlín Gunnarsdóttir ráðin húsmóðir á Höfða.

17 umsækjendur voru um starfið.

Sigurlín sem er sjúkraliði á Höfða tekur við starfinu af Margréti A.Guðmundsdóttur 1.júlí n.k.

Óvenjuleg heimsókn

Í dag kom Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með tvo tveggja daga heimalninga frá Ásfelli í heimsókn á Höfða.

Þessi heimsókn vakti mikla ánægju, jafnt meðal íbúa og starfsmanna og ekki var annað að sjá en að ferfætlingunum liði vel á Höfða

Vormarkaður á Höfða

Laugardaginn 25.maí verður hinn sívinsæli vormarkaður á Höfða kl. 14,00-16,30. Þar munu starfsmenn bjóða upp á mikið úrval af sultum, kæfum, brauði, kleinum, garðplöntum, fötum o.fl.  Einnig verður boðið upp á svæðanudd.

Þá verða nokkrir íbúar með sölubása þar sem meðal annars verður boðið upp á falleg gjafakort, skartgripi og handavinnu, allt unnið af seljendum.
 

Nemendatónleikar

Í gær heimsótti Höfða hópur ungra nemenda Tónlistarskólans á Akranesi. Þetta voru nemar í fiðluleik, píanóleik og söng sem fluttu 17 tónlistaratriði. Með þeim voru kennarar þeirra Guðbjörg Leifsdóttir, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Steinunn Árnadóttir.

Mikil aðsókn var að þessum tónleikum og hafði Höfðafólk  mikla ánægju af tónlistarflutningi krakkanna.

Kjartan ráðinn framkvæmdastjóri

Á fundi stjórnar Höfða í gær var samþykkt að ráða Kjartan Kjartansson rekstrarfræðing í starf framkvæmdastjóra Höfða.

Kjartan sem er starfsmaður PricewaterhouseCoupers tekur væntanlega við starfinu um næstu mánaðmót.

Hjúkrunarfræðingar í heimsókn

19 hjúkrunarfræðingar komu í heimsókn á Höfða s.l. laugardag í fylgd hollsystur sinnar Ingibjargar Pálmadóttur. Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri tók á móti þeim, sýndi þeim heimilið og sagði frá starfsemi Höfða. Að heimsókninni lokinni héldu þær áfram í skemmtiferð sinni um Akranes.

Framkvæmdum lokið

Um síðustu helgi lauk framkvæmdum við endurnýjun gamla hjúkrunargangsins. Öllum tvíbýlum var breytt í einbýli og húsnæðið tekið í gegn hátt og lágt. Allir eru sammála um að mjög vel hafi til tekist; skemmtilegar íbúðir, fallegt og bjart samrými, góð vinnuaðstaða og frábært útsýni.


Verktaki var Alefli í Mosfellsbæ og hönnuður Magnús H.Ólafsson. Flutt var í íbúðirnar í byrjun þessarar viku. Þar með næst það langþráða takmark að allir íbúar Höfða búa í einbýli að undanskildum 5 hjónum.


Nú  er lokið þeim umfangsmiklu framkvæmdum sem staðið hafa yfir s.l. 3 ár. Þjónusturými voru stækkuð, eldhús stækkað og búið nýjum tækjum, ný hjúkrunarálma byggð og gamla hjúkrunardeildin endurnýjuð. Óhætt er að fullyrða að Höfði sé eitt allra glæsilegasta hjúkrunar- og dvalarheimili landsins eftir þessar framkvæmdir.