Framkvæmdum lokið

Um síðustu helgi lauk framkvæmdum við endurnýjun gamla hjúkrunargangsins. Öllum tvíbýlum var breytt í einbýli og húsnæðið tekið í gegn hátt og lágt. Allir eru sammála um að mjög vel hafi til tekist; skemmtilegar íbúðir, fallegt og bjart samrými, góð vinnuaðstaða og frábært útsýni.


Verktaki var Alefli í Mosfellsbæ og hönnuður Magnús H.Ólafsson. Flutt var í íbúðirnar í byrjun þessarar viku. Þar með næst það langþráða takmark að allir íbúar Höfða búa í einbýli að undanskildum 5 hjónum.


Nú  er lokið þeim umfangsmiklu framkvæmdum sem staðið hafa yfir s.l. 3 ár. Þjónusturými voru stækkuð, eldhús stækkað og búið nýjum tækjum, ný hjúkrunarálma byggð og gamla hjúkrunardeildin endurnýjuð. Óhætt er að fullyrða að Höfði sé eitt allra glæsilegasta hjúkrunar- og dvalarheimili landsins eftir þessar framkvæmdir.