Vel heppnuð árshátíð

Árshátíð starfsmanna Höfða var haldin að Miðgarði s.l. laugardagskvöld. Mæting var mjög góð og kvöldið vel heppnað, enda skemmtunin vel undirbúin af árshátíðarnefnd sem hafði m.a. gert kvikmynd af starfsmönnum í léttum dúr, en nefndina skipuðu Ingibjörg Ólafsdóttir, Maggi G.Ingólfsson og Nanna Sigurðardóttir.

Veislustjóri var Halldór Jónsson blaðamaður á Skessuhorni sem fór á kostum. Hljómsveit Friðjóns Jóhannssonar lék fyrir dansi og hélt uppi stanslausu fjöri fram á fjórða tímann.

Árshátíðin tókst í alla staði mjög vel og var almenn ánægja meðal þátttakenda sem hylltu árshátíðarnefndina fyrir góð störf. Þrír starfsmenn, Bjarni Þ.Ólafsson, Sigurbjörg Ragnarsdóttir og Hjördís Guðmundsdóttir, fengu viðurkenninguna “árshátíðartak”, litla styttu í stíl við “Grettistakið” sem er tákn Höfða. Viðurkenningunni fylgdi sú kvöð að viðkomandi skipa næstu árshátíðarnefnd.