Tónleikar

Í gær héldu feðginin Ingibjörg Aldís, sópransöngkona og Ólafur B.Ólafsson tónleika á Höfða. Ingibjörg Aldís söng innlend og erlend lög við undirleik föður síns og Ólafur lék einnig á harmonikku og stjórnaði hópsöng.

 

Samkomusalurinn var fullur út úr dyrum og íbúar Höfða skemmtu sér konunglega, enda fóru þau feðginin á kostum í flutningi sínum.

 

Ólafur minntist þess að þau feðginin hefðu áður skemmt á Höfða og liðið hér afskaplega vel. Í tilefni af því hefði hann sett saman svohljóðandi Höfðabrag:

 

Á dvalarheimilinu Höfða

glaðar hef ég sálir séð.

Menn og svannar syngja með.

Þakklátur ég staðinn kveð.

Svona var það líka síðast

saman hér við mættum mörg.

Vorum við þá ekki örg

Ólafur og Ingibjörg.

Starfsfólkið á þakkir skilið

stendur gjarnan heiðursvörð,

er heim við sækjum Höfðahjörð

hina bestu hér á jörð.

 

Guðjón framkvæmdastjóri þakkaði þeim feðginum komuna og frábæra skemmtun og bað þau að koma sem fyrst aftur.