Kæru aðstandendur
Mörg heimili eru að fá fyrirspurnir frá ættingjum varðandi það að taka íbúa hjúkrunarheimila út af heimilinu yfir páska í matarboð eða í heimsóknir til ættingja. Almennt hafa stjórnendur heimila verið hvattir til að hafna slíkum beiðnum og er bent á upplýsingafund Almannavarna frá því á mánudaginn þar sem Anna Birna hjúkrunarforstjóri Sóltúns fór yfir stöðuna og síðustu mínúturnar á fundi Almannavarna og sóttvarnalæknis í gær. Eins og fram kom á þessum fundum erum við að nálgast hápunkt faraldursins og nauðsynlegt að allt samfélagið virði þessar takmarkanir og allir séu samtaka í því að vernda þennan áhættuhóp sem býr innan heimilisins. Á hjúkrunarheimilum býr viðkvæmasti hópurinn og ljóst að ef upp kemur sýking þá er það dauðans alvara.
Eins og Víðir tók fram á fundinum í gær þá vilja almannavarnir og sóttvarnarlæknir að heimsóknarbannið gangi í báðar áttir. Þannig að ef íbúi hjúkrunarheimilis fer sjálfur eða er tekinn af ættingjum út af hjúkrunarheimilinu, getur heimilið hafnað því að hleypa honum aftur inn. Mun þá væntanlega þurfa að skoða að útskrifa íbúann. Ef til þessa kemur mun verða farið yfir málið í samstarfshóp á vegum sóttvarnarlæknis.
Í ljósi þessara upplýsinga og þessarar grafalvarlegu stöðu í þjóðfélaginu eru það eindregin tilmæli frá okkur að ættingjar taki ekki aðstandanda sinn af Höfða heim til sín í heimsókn eða í bíltúr meðan á samkomubanninu stendur. Íbúar eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins verða að virða 2ja metra regluna og ferðast innanhúss eins og við hin og hlýða Víði. Þetta er gert af umhyggju og til að gæta fyllstu varúðar gagnvart skjólstæðingum okkar.
Við höfum fengið nokkrar athugasemdir varðandi starfsfólk okkar sem kemur inn á heimilið og fer heim að vakt lokinni. Það er algjörlega ljóst að við getum ekki veitt þjónustu inn á heimilinu nema hafa starfsfólk. Hér hefur starfsfólk tekið hlutverk sitt mjög alvarlega og dregið sig í hlé eins og kostur er utan vinnutíma til að vernda skjólstæðinga sína hér á heimilinu.
Við biðlum til aðstandenda að virða þessi tilmæli og bjóða ekki íbúum Höfða heim um páskana
Með vinsemd og virðingu
Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri
Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir hjúkrunarforstjóri