Sumarferð.

Í gær var hin árlega sumarferð Höfðafólks. Um 50 íbúar Höfða, dagvistarfólk og íbúar Höfðagrundarhúsa tóku þátt í ferðinni ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið austur fyrir fjall. Á Kambabrún kom Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra í bílinn og var leiðsögumaður austan fjalls. Ekið var um Selfoss, Stokkseyri, Eyrarbakka, Ölfus og Hveragerði og drukkið kaffi í hinu glæsilega veitingahúsi Hafið bláa við ósa Ölfusár. Leiðsögn Guðna var einstaklega fróðleg og skemmtileg.

Guðni og Margrét kona hans buðu síðan öllum hópnum upp á veitingar á sólpallinum við heimili sitt á Selfossi þar sem Margrét A.Guðmundsdóttir afhenti Margréti konu Guðna lítinn þakklætisvott fyrir höfðinglegar móttökur og Guðjón Guðmundsson afhenti Guðna áletraða afsteypu af Grettistaki í þakklætisskyni fyrir framlag hans til að gera þessa ferð ógleymanlega. Síðan var ekið heim um hina fögru Þingvallaleið og Mosfellsdal og komið að Höfða kl. 19,20

Veðrið lék við okkur, blæjalogn, sólarlaust og hlýtt. Almenn ánægja var með ferðina, sem tókst í alla staði mjög vel.