Ásmundur kvaddur.

Stjórn Höfða bauð íbúum og starfsmönnum til samsætis s.l. föstudag til heiðurs Ásmundi Ólafssyni fyrrv.framkvæmdastjóra Höfða og Jónínu Ingólfsdóttur konu hans. Sigríður Gróa Kristjánsdóttir formaður stjórnar Höfða ávarpaði Ásmund og þakkaði honum vel unnin og farsæl störf í 24 ár. Þá færði hún honum að gjöf frá Höfða málverk af Innsta-Vogi, en fjölskylda Ásmundar átti Innsta-Vog í áratugi.

 

Þá færði Ásmundur Höfða að gjöf mynd af móður sinni, Ólínu Ásu Þórðardóttur og Svövu Finsen á unglingsárum en Ólína Ása er elsti íbúi Höfða, tæplega 98 ára gömul.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Höfða þakkaði Ásmundi fyrir lipurð við framkv.stjóraskipti og hve góðu búi hann skilar.

 

Nokkrir íbúar Höfða tóku til máls og þökkuðu Ásmundi góð kynni, þau voru Elín Frímannsdóttir, Eggert B.Sigurðsson, Skúli Þórðarson og Stefán Bjarnason.

 

Þá var flutt ávarp frá Valgarði L.Jónssyni. Flutt var tónlistaratriði undir stjórn Patrycju B.S.Mochola tónlistarkennara, sem starfaði á Höfða í sumar. Boðið var upp á góðar veitingar sem Bjarni Þór Ólafsson bryti og hans fólk hafði útbúið af alkunnri snilld.

 

Í þessu kveðjuhófi kom glöggt fram sá mikli hlýhugur sem fólkið á Höfða ber til Ásmundar Ólafssonar.

Sjúkravinir Höfða.

Sjúkravinir Höfða byrjuðu síðastliðið fimmtudagskvöld að spila með íbúum Höfða og sáu um veitingar. Áframhald verður á því seinasta fimmtudag í hverjum mánuði. Íbúar og starfsfólk Höfða þakkar góðar gjörðir.

Nýir íbúar.

Þrír nýir íbúar fluttu á Höfða um síðustu helgi; hjónin Hallveig Eiríksdóttir og Sveinn Jónsson í íbúð 214 og Sigrún Halldórsdóttir í íbúð 265.

 

Þau eru boðin velkomin á Höfða.

Opið hús.

Fyrsta “Opna hús” vetrarins var á Höfða í dag. Aðsókn var sæmileg og spilað á 9 borðum. Næst verður “Opið hús” þriðjudaginn 4.október og síðan fyrsta og þriðja þriðjudag í hverjum mánuði.

Umhverfisverðlaun afhent.

Skipulags- og umhverfisnefnd bæjarins efndi til móttöku á Kirkjuhvoli í dag. Þar voru afhentar viðurkenningarfyrir snyrtilegar og vel hirtar lóðir á Akranesi 2005.

Í flokki fyrirtækja/stofnana hlaut Höfði þessa viðurkenningu, fagran skjöld og blómvönd. Sigríður Gróa Kristjánsdóttir formaður stjórnar Höfða og Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri veittu viðurkenningunni móttöku.

Mikill áhugi á boccia.

Nýlega hófust æfingar í boccia á Höfða. Mikill áhugi er fyrir íþróttinni og allt að 40 íbúar Höfða mæta reglulega í boccia tíma. Ingibjörg Ólafsdóttir iðjuþjálfi stjórnar æfingunum ásamt aðstoðarmanni sínum Maríu Ásmundsdóttur.

Heimsókn úr ráðuneyti.

Oddný Vestmann starfsmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins heimsótti Höfða 15.september og kynnti sér starfsemina. Sigurbjörg Ragnarsdóttir tók á móti Oddnýju, en þær eiga mikil og góð samskipti vegna vistunarmála.

Heimsending á mat.

Undanfarin ár hefur Höfði útbúið matarbakka fyrir eldri borgara á starfssvæði heimilisins. Mikil ánægja er með þessa þjónustu og í hverjum mánuði eru sendir út milli sjö og átta hundruð bakkar. Fjölskyldusvið Akraneskaupstaðar annast heimakstur og innheimtu matarins. Sólveig Reynisdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs og Sigrún Gísladóttir öldrunarfulltrúi heimsóttu Höfða 15.september til að ræða ýmis samskiptamál, en samskipti Höfða og bæjarins eru margþætt og samstarfið í alla staði ágætt. Þær létu í ljós mikla ánægju með samskiptin við Bjarna Þór Ólafsson bryta og starfslið hans, bæði gæði matarins og frábæra þjónustu.

Samið við bókasafnið.

Þann 14.september undirrituðu Halldóra Jónsdóttir bæjarbókavörður og Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Höfða samning um bókasafnsþjónustu á Höfða, en bókasafni heimilisins var nýlega lokað og húsnæði þess tekið undir iðjuþjálfun. Samkvæmt samningnum mun starfsfólk bókasafnsins annast þjónustu við íbúa Höfða annan hvern miðvikudag. Reynist þörf fyrir aukna þjónustu verður um það samið sérstaklega.