Ásmundur kvaddur.

Stjórn Höfða bauð íbúum og starfsmönnum til samsætis s.l. föstudag til heiðurs Ásmundi Ólafssyni fyrrv.framkvæmdastjóra Höfða og Jónínu Ingólfsdóttur konu hans. Sigríður Gróa Kristjánsdóttir formaður stjórnar Höfða ávarpaði Ásmund og þakkaði honum vel unnin og farsæl störf í 24 ár. Þá færði hún honum að gjöf frá Höfða málverk af Innsta-Vogi, en fjölskylda Ásmundar átti Innsta-Vog í áratugi.

 

Þá færði Ásmundur Höfða að gjöf mynd af móður sinni, Ólínu Ásu Þórðardóttur og Svövu Finsen á unglingsárum en Ólína Ása er elsti íbúi Höfða, tæplega 98 ára gömul.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Höfða þakkaði Ásmundi fyrir lipurð við framkv.stjóraskipti og hve góðu búi hann skilar.

 

Nokkrir íbúar Höfða tóku til máls og þökkuðu Ásmundi góð kynni, þau voru Elín Frímannsdóttir, Eggert B.Sigurðsson, Skúli Þórðarson og Stefán Bjarnason.

 

Þá var flutt ávarp frá Valgarði L.Jónssyni. Flutt var tónlistaratriði undir stjórn Patrycju B.S.Mochola tónlistarkennara, sem starfaði á Höfða í sumar. Boðið var upp á góðar veitingar sem Bjarni Þór Ólafsson bryti og hans fólk hafði útbúið af alkunnri snilld.

 

Í þessu kveðjuhófi kom glöggt fram sá mikli hlýhugur sem fólkið á Höfða ber til Ásmundar Ólafssonar.