Nýtt hjúkrunarskráningarkerfi.

Hjúkrunarforstjóri fór þess á leit við Jóhönnu Fjólu Jóhannesdóttur að hún leiðbeindi okkur við að koma af stað upplýsingasöfnun- og skráningu hjúkrunar hér á Höfða. Skráning hjúkrunar er nauðsynleg til að gera hjúkrunina markvissari og skilvirkari. Einnig er skráning hjúkrunar nauðsynleg til að fylgja eftir og meta árangur af hjúkrunarmeðferð.

 

Jóhanna Fjóla hefur útbúið eyðublöð fyrir upplýsingasöfnun hjúkrunar staðfærða fyrir Höfða. Einnig færði hún okkur að gjöf skráningarkerfi með hjúkrunargreiningum, sem hún hefur unnið fyrir SHA. Þetta er sama skráningarkerfi og er notað á E-deild SHA og á hjúkrunarheimilum víða um land og hefur reynst vel.

 

Höfði þakkar SHA rausnarlega gjöf og Jóhönnu Fjólu fyrir aðstoðina.

Starfsmenn kvaddir.

Í dag kvöddu íbúar og starfsmenn tvær heiðurskonur sem létu af störfum á Höfða á síðasta ári eftir langan og farsælar starfsferil, þær Elsu Guðmundsdóttur sem starfaði rúmlega 13 ár í eldhúsi Höfða og Áslaugu Hjartardóttur sem var hárgreiðslumeistari heimilisins í 22 ár.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri ávarpaði þær stöllur, þakkaði störf þeirra og rakti farsælan starfsferil, en báðar voru þær vinsælar og vel látnar af íbúum og samstarfsmönnum á Höfða.Guðjón óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þær mættu njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.

 

Sigríður Gróa Kristjánsdóttir, formaður stjórnar Höfða, afhenti þeim afsteypu af Grettistaki með áletrun þar sem þeim eru þökkuð góð störf. Hún þakkaði störf þeirra og óskaði þeim velfarnaðar.

 

Þær Elsa og Áslaug þökkuðu íbúum og starfsfólki ánægjuleg samskipti og óskuðu Höfða og þeim sem þar búa og starfa farsældar á ókomnum árum.

Nýr hárgreiðslumeistari.

Í gær tók nýr hárgreiðslumeistari, Guðný Aðalgeirsdóttir, við rekstri hárgreiðslustofunnar á Höfða, en Áslaug Hjartardóttir hætti störfum á Þorláksmessu eftir 22ja ára farsælt starf. Guðný er boðin velkomin á Höfða. Hún er reyndur hárgreiðslumeistari og er fengur að fá hana hingað til starfa. Guðný leigir aðstöðuna og lýkur þar með rekstri Höfða á hárgreiðslustofu, en þjónustan er áfram tryggð, enda góð hárgreiðslustofa nauðsynlegur þáttur í starfsemi Höfða.

Góðir gestir.

Í gær heimsóttu Höfða þeir Magnús Stefánsson alþingismaður NV-kjördæmis og Guðmundur Páll Jónsson bæjarstjóri. Þeir félagar fengu sér kaffisopa með íbúum og starfsfólki og litu við í dagvistinni þar sem Sigríður Beinteinsdóttir frá Hávarðsstöðum færði þeim ljóðabók með ljóðum hennar og 7 systkina hennar.

Jólaball.

Í dag var haldið árlegt jólaball á Höfða. Geysigóð mæting var á ballið, meiri en nokkru sinni áður. Hinn óviðjafnanlegi Gísli S.Einarsson stjórnaði dansi, söng og leikjum og hélt uppi miklu stuði.

 

Jólasveinarnir Gluggagægir og Kertasníkir komu í heimsókn, sungu, spjölluðu við börnin og gáfu þeim góðgæti.

Fjölmargir íbúar Höfða komu á ballið og glöddust með ungviðinu.

Jólaguðsþjónusta.

Sr. Eðvarð Ingólfsson messaði á Höfða á annan jóladag. Kirkjukór Akraness söng undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar. Mikil hátíðarstemning ríkti meðal íbúa Höfða sem fjölmenntu til þessarar jólaguðsþjónustu

Jólasöngur.

Í dag sungu Söngsystur, þær Auður Árnadóttir, Friðrika Bjarnadóttir, Hulda Óskarsdóttir og Sigríður Ketilsdóttir, jólasöngva og fleiri falleg lög við
gítarundirleik. Íbúar Höfða troðfylltu samkomusal heimilisins, tóku vel undir sönginn og þökkuðu þessum heiðurskonum með kröftugu lófataki.

 

Gjöf frá nemendum Grundaskóla.

Í morgun komu 4 nemendur Grundaskóla og færðu Höfða að gjöf handunninn vasa, gerðan af nemendum skólans. Þess má geta að nemendur Grundaskóla hafa heimsótt Höfða fyrir hver jól í fjölda ára og fært heimilinu fallega hluti gerða af nemendum. Þessar góðu gjafir prýða Höfða.

Höfði færir nemendum Grundaskóla kærar þakkir fyrir þessar góðu gjafir og þann hlýhug sem þeim fylgja.

Laufabrauðsgerð.

Í dag mættu nokkrir íbúar Höfða í laufabrauðsgerð. Greinilegt var að konurnar kunnu vel til verka, enda þaulvanar laufabrauðsgerð um áratugaskeið. Undir röggsamri stjórn Öddu húsmóður á Höfða gekk verkið eins og í lygasögu.

Opið hús.

Síðasta opna hús ársins var á Höfða í dag, en opið hús hefur verið á 2ja vikna fresti í vetur. Að vanda var mikið spilað, bæði bridge og vist. Þá var boðið upp á girnilegt kaffiborð með rjómatertum og hangikjötsskonsum. Björgvin Valdimarsson kynnti nýútkominn geisladisk með lögum sínum og fékk góðar undirtektir. Aðsókn var mjög góð. Hulda Óskarsdóttir og Jóna Kr.Ólafsdóttir kvöddu gesti, en þetta var í síðasta sinn sem þær stjórna opnu húsi, en þær hafa stjórnað því með glæsibrag í fjölda ára.