Fyrsti fundur nýrrar stjórnar

Nýkjörin stjórn Höfða hélt sinn fyrsta fund í gær. Samkvæmt nýrri skipulagsskrá fyrir Höfða tilnefnir bæjarstjórn Akraness formann stjórnar og tvo aðra stjórnarmenn en Hvalfjarðarsveit einn stjórnarmann.

Formaður stjórnar er Benedikt Jónmundsson, aðrir fulltrúar tilnefndir af bæjarstjórn Akraness Karen Jónsdóttir og Rún Halldórsdóttir, fulltrúi Hvalfjarðarsveitar er Anton Ottesen.
Á þessum fyrsta fundi var Anton kosinn varaformaður og Karen ritari.

Sumarferð.

Í gær var hin árlega sumarferð Höfðafólks. Um 50 íbúar Höfða, dagvistarfólk og íbúar Höfðagrundarhúsa tóku þátt í ferðinni ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið austur fyrir fjall. Á Kambabrún kom Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra í bílinn og var leiðsögumaður austan fjalls. Ekið var um Selfoss, Stokkseyri, Eyrarbakka, Ölfus og Hveragerði og drukkið kaffi í hinu glæsilega veitingahúsi Hafið bláa við ósa Ölfusár. Leiðsögn Guðna var einstaklega fróðleg og skemmtileg.

Guðni og Margrét kona hans buðu síðan öllum hópnum upp á veitingar á sólpallinum við heimili sitt á Selfossi þar sem Margrét A.Guðmundsdóttir afhenti Margréti konu Guðna lítinn þakklætisvott fyrir höfðinglegar móttökur og Guðjón Guðmundsson afhenti Guðna áletraða afsteypu af Grettistaki í þakklætisskyni fyrir framlag hans til að gera þessa ferð ógleymanlega. Síðan var ekið heim um hina fögru Þingvallaleið og Mosfellsdal og komið að Höfða kl. 19,20

Veðrið lék við okkur, blæjalogn, sólarlaust og hlýtt. Almenn ánægja var með ferðina, sem tókst í alla staði mjög vel.

Góð gjöf

Í dag barst Höfða góð gjöf frá hjónunum Sigrúnu Halldórsdóttur og Hring Hjörleifssyni og börnum þeirra, vandað nuddtæki fyrir sjúkraþjálfunardeild.

Elísabet Ragnarsdóttir sjúkraþjálfari þakkaði þessa góðu gjöf og gat þess að þetta tæki kæmi til með að nýtast vel fyrir íbúa heimilisins.

Sjávarútvegsráðherra heimsækir Höfða.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra heimsótti Höfða í dag. Ráðherrann spjallaði við dagvistarfólkið, leit inn hjá mörgum íbúum hússins og heilsaði upp á starfsfólk. Einar hafði orð á því þegar hann kvaddi heimilisandinn væri góður og aðbúnaður allur til fyrirmyndar.

Kaffihúsakvöld.

Kaffihúsakvöld var á Höfða í gærkvöldi. Í boði voru kaffi, kökur og léttar veitingar. Gísli S.Einarsson bæjarstjóri sá um að halda uppi fjöri með harmonikkuleik, söng og sögum, Hallgrímur Árnason tók lagið með Gísla, Sigurbjörg Halldórsdóttir fór með ljóð og Eggert Sigurðsson sagði mergjaðar lífsreynslusögur.

Eins og jafnan áður var góð aðsókn að þessu kaffihúsakvöldi, setið á hverju borði í samkomusalnum og létt yfir fólki.

Síðasti fundur stjórnar Höfða

Síðasti fundur núverandi stjórnar Höfða var haldinn í gær. Ný stjórn verður kosin n.k. þriðjudag. Samkvæmt nýrri skipulagsskrá fyrir Dvalarheimilið Höfða fækkar stjórnarmönnum þá úr fimm í fjóra.

Mynd, talið frá vinstri: Inga Sigurðardóttir, Anton Ottesen, Hallveig Skúladóttir, Sigríður Gróa Kristjánsdóttir, Hjördís Guðmundsdóttir fulltrúi starfsmanna og Benedikt Jónmundsson.

Heimsókn frá Borgarspítala.

S.l. föstudag heimsóttu Höfða 19 starfsmenn B-deildar Borgarspítala. Heimsóknin var liður í fræðsludegi deildarinnnar. Sigurbjörg Halldórsdóttir hjúkrunarforstjóri tók á móti gestunum, sýndi þeim heimilið og sagði frá starfsemi Höfða.