Söngskemmtun Kórs Gerðubergs

 

 

Kór Gerðubergs hélt söngskemmtun á Höfða í dag. Unnur Eyfells og Árni Ísleifs léku undir á píanó og stjórnuðu jafnframt kórnum í veikindaforföllum Kára Friðrikssonar. Þá lék Þorgrímur Kristleifs á munnhörpu.

 

Íbúar Höfða troðfylltu samkomusalinn og þökkuðu þessum góðu gestum með kröftugu lófataki. Að lokum þáðu gestirnir veitingar í boði Höfða.

Aukin fjölbreytni í færniþjálfun

Í síðasta mánuðu fór Marianne Ellingsen starfmaður í færniþjálfun á námskeið í meðhöndlun á silfurleir.

 

Nú er starfsemin hafin og vekur mikla ánægju hjá þátttakendum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þar sem þær Anna Erlendsdóttir, Steinunn Hafliðadóttir og Rósa Sigurðardóttir fást við skartgripagerð.

Djáknavígsla

Í gær vígði biskup Íslands Ragnheiði Guðmundsdóttur djákna við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni. Sr. Eðvarð Ingólfsson var meðal vígsluvotta ásamt Þorbirni Hlyn Árnasyni prófasti.

 

Fjöldi starfsmanna Höfða var viðstaddur athöfnina, en að henni lokinni bauð Ragnheiður öllum heim þar sem hún bauð upp á glæsilegar veitingar. Þar var samankominn mikill fjöldi samstarfsmanna, vina, ættingja og sveitunga Ragnheiðar til að samfagna henni.

 

Ragnheiður verður síðan sett inn í embætti við guðsþjónustu á Höfða 11.mars n.k. og hefur störf sem djákni á Höfða í framhaldi af því.

Höfðagleði 2007

Hin árlega Höfðagleði var haldin í kvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn, læknar og stjórn Höfða, alls 170 manns. Margrét A.Guðmundsdóttir setti skemmtunina og stjórnaði henni. Borin var fram þríréttuð veislumáltíð sem samanstóð af sjávarréttasúpu, lambafille og desert. Var almenn ánægja með þennan frábæra mat sem Bjarni bryti og hans fólk reiddi fram.

 

Undir borðum stjórnaði Hallgrímur Árnason fjöldasöng, dregið var í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu glæsilega vinninga í boði Einars Ólafssonar kaupmanns.

 

Guðjón Guðmundsson og Margrét A.Guðmundsdóttir fóru með gamanmál, leynigestur kom fram og spurðu Sigurður Halldórsson og Sjöfn Jóhannesdóttir hann spjörunum úr og fundu að lokum út hver hann var ; Ásmundur Ólafsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Höfða. Sigursteinn Hákonarson söng nokkur lög við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar og endaði að sjálfsögðu á Angeliu eftir kröftugt uppklapp. Ásmundur Ólafsson rifjaði upp ferð starfsmanna til Edinborgar og fór með þjóðsöng Kolbeinseyjar sem Höfðafólk hafði sungið fyrir Skotana. Elton John kom í heimsókn, leikinn af Elísabetu Ragnarsdóttur, með aðstoð nýútskrifaðra lífvarða úr lífvarðaskóla ríkisins, Baldurs Magnússonar og Magga G.Ingólfssonar.

 

Að lokum var dansað til miðnættis við undirleik, Jóns Heiðars Magnússonar, Geirs Guðlaugssonar og Sirrýjar Indriðadóttur.

 

Mikil ánægja var með veitingar, skemmtiatriði og músík og tókst Höfðagleðin því í alla staði mjög vel.