Gönguferðir

Í síðustu viku lagði bærinn malbikaðan gangstíg frá Höfða, annars vegar inn á Höfðagrund og hins vegar til að tengjast hinum skemmtilega gangstíg sem liggur meðfram Langasandi. Þessi stígur gerir mun fleirum kleyft að njóta útiveru og umhverfi við Langasand og víðar.

 

Mikil ánægja er með þessa framkvæmd og nú eru reglulegar gönguferðir á hverjum morgni kl. 11,15. Mikil þáttaka er í þessum gönguferðum.

Söngskemmtun Kórs Gerðubergs

 

 

Kór Gerðubergs hélt söngskemmtun á Höfða í dag. Unnur Eyfells og Árni Ísleifs léku undir á píanó og stjórnuðu jafnframt kórnum í veikindaforföllum Kára Friðrikssonar. Þá lék Þorgrímur Kristleifs á munnhörpu.

 

Íbúar Höfða troðfylltu samkomusalinn og þökkuðu þessum góðu gestum með kröftugu lófataki. Að lokum þáðu gestirnir veitingar í boði Höfða.

Aukin fjölbreytni í færniþjálfun

Í síðasta mánuðu fór Marianne Ellingsen starfmaður í færniþjálfun á námskeið í meðhöndlun á silfurleir.

 

Nú er starfsemin hafin og vekur mikla ánægju hjá þátttakendum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þar sem þær Anna Erlendsdóttir, Steinunn Hafliðadóttir og Rósa Sigurðardóttir fást við skartgripagerð.

Djáknavígsla

Í gær vígði biskup Íslands Ragnheiði Guðmundsdóttur djákna við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni. Sr. Eðvarð Ingólfsson var meðal vígsluvotta ásamt Þorbirni Hlyn Árnasyni prófasti.

 

Fjöldi starfsmanna Höfða var viðstaddur athöfnina, en að henni lokinni bauð Ragnheiður öllum heim þar sem hún bauð upp á glæsilegar veitingar. Þar var samankominn mikill fjöldi samstarfsmanna, vina, ættingja og sveitunga Ragnheiðar til að samfagna henni.

 

Ragnheiður verður síðan sett inn í embætti við guðsþjónustu á Höfða 11.mars n.k. og hefur störf sem djákni á Höfða í framhaldi af því.