Laust starf iðjuþjálfa

Höfði auglýsir eftir iðjuþjálfa. Upplýsingar um starfið veitir Ingibjörg Ólafsdóttir iðjuþjálfi í síma 433 4300, netfang: idjuthjalfi@dvalarheimili.is

 

Umsóknareyðublöð á skrifstofu og hér á heimasíðunni
(heimilið-starfsmenn-umsóknareyðublað)

 

Umsóknir um starfið ásamt upplýsingum um menntun og fyrri störf berist fyrir 15.október n.k.

Sláturgerð

Í gær og í dag hafa íbúar Höfða staðið í sláturgerð með aðstoð nokkurra starfsmanna. Tekin voru 120 slátur. Mikiill kraftur var í fólki við sláturgerðina og handtökin fagmannleg, enda hafa flestir þeir sem að sláturgerðinni stóðu tekið slátur á hverju hausti í áratugi.

 

Létt var yfir fólki við sláturgerðina og augljóst að allir höfðu gaman af þessu verkefni. Fyrsta sláturmáltíðin verður framreidd á morgun, en slátrið er mjög vinsæll matur hjá íbúum og starfsfólki Höfða.

 

Yfirblandari í sláturgerðinni var Svandís Stefánsdóttir.

 

Vel heppnuð Þýskalandsferð

 

Í gær komu 57 starfsmenn Höfða heim úr 5 daga fræðslu- og skemmtiferð til Þýskalands. Ferðin byrjaði ekki vel því rútan sem flutti okkur suður á flugvöll ók inn í skriðu á Kjalarnesi með þeim afleiðingum að þrjár konur meiddust nokkuð. Ein þeirra var flutt á slysavarðstofu og var ekki ferðafær. Hún varð því eftir heima sem öllum þótti mjög leitt.

 

Eftir þetta óhapp gekk ferðin eins og í sögu. Veðrið í Þýskalandi var frábært, 20-25 stiga hiti alla dagana. Ferðin var mjög vel skipulögð og eitthvað um að vera frá morgni til kvölds. Á föstudaginn var heimsótt dvalar- og hjúkrunarheimilið St.Barbara í Koblens, en þar eru álíka margir íbúar og á Höfða. Stjórnendur St.Barbara tóku mjög vel á móti Höfðafólki, kynntu starfsemi heimilisins, sýndu aðstöðuna og buðu loks upp á mat. Þetta er stórglæsileg stofnun og var heimsóknin þangað mjög fróðleg og skemmtileg.

 

Á laugardal og sunnudag var síðan ekið um Móseldal og Rínardal og stoppað í borgum og bæjum á svæðinu, en þarna er afskaplega fallegt og vinalegt umhverfi. Farið var með Bændaferðum sem lögðu til fararstjóra, Ingu Ragnarsdóttur, sem stóð sig frábærlega og féll vel inn í hópinn. Sigurbjörg Ragnarsdóttir sá um undirbúning og skipulagningu ferðarinnar fyrir starfsmannafélagið og fjölmargir starfsmenn komu að fjáröflun og undirbúningi. Eiga þau öll þakkir skildar fyrir sitt framlag til þessarar stórskemmtilegu ferðar.

Aðalfundur Höfða

Fyrsti aðalfundur Höfða var haldinn í gær, en samkvæmt nýrri skipulagsskrá skal halda aðalfund árlega.

 

Benedikt Jónmundsson formaður stjórnar Höfða flutti ítarlega skýrslu stjórnar og Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri gerði grein fyrir ársreikningi.

 

Einar Thorlacius sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar og Gísli S.Einarsson bæjarstjóri á Akranesi tóku til máls á fundinum og kom fram í máli þeirra ánægja með starfsemi Höfða.

 

Fundarstjóri var Anton Ottesen og fundarritari Karen Jónsdóttir.

Þjónustukönnun

Í sumar framkvæmdi Landlæknisembættið þjónustukönnun á hjúkrunarheimilum og hjúkrunardeildum landsins. Það voru íbúar og nánustu aðstandendur spurðir um hvað þeim fyndist um hina ýmsu þætti þjónustunnar á viðkomandi stofnun. Hér á Höfða var góð þátttaka góð í þessari könnun, bæði meðal íbúa og aðstandenda.

 

Í gær heimsótti landlæknir Höfða ásamt samstarfsmönnum sínum. Þar var kynnt niðurstaða þjónustukönnunarinnar varðandi Höfða sem er mjög uppörvandi fyrir starfsmenn og stjórn Höfða, en heildarniðurstaða er:
Almenn ánægja með þjónustuna.

Tónleikar

Þrjár stúlkur sem unnu við afleysingar á Höfða í sumar héldu tónleika í samkomusalnum í dag, en þær hafa allar verið í tónlistarnámi undanfarin ár. Oddný Björgvinsdóttir lék á harmonikku, Kristín Sigurjónsdóttir á fiðlu og Rut Berg Guðmundsdóttir á þverflautu.

Íbúar Höfða fylltu samkomusalinn og þökkuðu þessum ungu listakonum með kröftugu lófataki.

Að tónleikunum loknum fóru stúlkurnar inn á hjúkrunardeild og léku nokkur lög fyrir þá sem þar dvelja.

Vinabæjarheimsókn

Bæjarstjórnin í Quagortog, vinabæ Akraness í Grænlandi, ásamt föruneyti heimsótti Höfða í gær. Með þeim í för var Magnús Oddsson fyrrverandi bæjarstjóri sem var leiðsögumaður þeirra í Íslandsförinni.

Góð kartöfluuppskera

Í vor setti Baldur Magnússon nokkrar kartöflur niður í fína blómareit sjúkraþjálfaranna. Sigurður Halldórsson hefur séð um að vökva kartöflugrösin og halda þeim í standi í sumar.

 

Í gær var svo tekið upp og var uppskeran tólfföld. Nýju kartöflurnar voru bornar fram í mötuneytinu í gær og smökkuðust vel. Sérstaklega þótti þeim Baldri og Sigurði þær góðar.

Nýr matreiðslumaður

Bjarni Þór Ólafsson sem verið hefur matreiðslumaður á Höfða s.l. 6 ár hefur nú látið af störfum og hafið eigin rekstur. Íbúar og starfsmenn Höfða þakka Bjarna fyrir góðan mat og frábæra viðkynningu og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

 

Auglýst var eftir nýjum matsveini og bárust 6 umsóknir. Stjórn Höfða ákvað á fundi sínum í gær að ráða Hauk Sigurð Gunndórsson í starfið. Hann mun koma til starfa á næstunni, en hann hefur s.l. 3 ár starfað við matreiðslu á hjúkrunarheimilinu Eir.

Reyfi 2007

Í gær tók Höfði þátt í norrænu menningarhátíðinni Reyfi 2007 í Norræna húsinu, en auk fjölbreyttra listkynninga var markaður þar sem seldar voru íslenskar heilsu- og náttúruvörur. Var Höfða boðið að kynna þar og selja grjónapokana sem hér hafa verið framleiddir um langt árabil og fyrir löngu sannað ágæti sitt.

 

Emilía Petrea Árnadóttir sá um Höfðabásinn þar sem mikill fjöldi sýningargesta leit við til að fræðast um grjónapokana, starfsemi Höfða og almennt um Akranes.