Heimsókn frá Hrafnistu

Pétur Magnússon, nýr forstjóri Hrafnistu, og Guðmundur Hallvarðsson formaður sjómannadagsráðs heimsóttu Höfða í morgun.

Þeir kynntu sér starfsemi Höfða og skoðuðu heimilið í fylgd Guðjóns Guðmundssonar og Margrétar A.Guðmundsdóttur.

Þess má geta að Pétur er Akurnesingur, sonur hjónanna Svandísar Pétursdóttur kennara og Magnúsar Oddssonar fyrrverandi rafveitustjóra og bæjarstjóra.

Tónleikar Grundartangakórsins

Grundartangakórinn hélt tónleika í samkomusal Höfða í gær.

 

Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson og einsöngvarar þeir Smári Vífilsson, Bjarni Atlason og Guðlaugur Atlason. Þá söng Tindatríóið tvö lög, en tríóið er skipað þeim feðgum Atla Guðlaugssyni, Bjarna Atlasyni og Guðlaugi Atlasyni. Flosi Einarsson lék undir á píanó og Sigurbjörn Hlynsson lék á gítar.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri þakkaði kórnum fyrir góða skemmtun og gat þess að Grundartangakórinn hefði sungið á Höfða árlega s.l. 25 ár og undanfarin ár tvisvar á ári. Kórinn hefði því sýnt íbúum Höfða einstakan hlýhug og vináttu og verið mikill gleðigjafi í félagslífi heimilisins.

 

Í þakklætisskyni færði hann kórnum afsteypu af Grettistaki og bað Þorstein Ragnarsson að veita henni viðtöku, en Þorsteinn er eini kórfélaginn sem hefur sungið samfellt með kórnum þau 28 ár sem hann hefur starfað.

 

Þorsteinn þakkaði gjöfina og sagði að henni yrði fundinn góður staður á Grundartanga. Þá sagði hann alltaf jafn gaman að syngja á Höfða, góðar móttökur og þakklátir áheyrendur.

 

Söngur kórsins gerði að vanda mikla lukku, enda kórinn í miklu uppáhaldi hjá íbúum Höfða. Hylltu þeir kórinn með lófataki.

Helga ráðin hjúkrunarforstjóri

Sigurbjörg Halldórsdóttir lætur af störfum sem hjúkrunarforstjóri á Höfða vegna aldurs í sumar. Auglýst var eftir nýjum hjúkrunarforstjóra nýlega og bárust 5 umsóknir. Stjórn Höfða samþykkti samhljóða að ráða Helgu Atladóttur í starfið.

 

Helga lauk hjúkrunarnámi við Háskóla Íslands árið 2000. Hún stundar nú mastersnám í hjúkrunarstjórnun við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands samhliða starfi.

 

Helga hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi og í Þýskalandi síðan hún lauk hjúkrunarprófi. Frá apríl 2007 hefur hún starfað á Höfða.

Heilsuvika á Höfða

Nú stendur yfir heilsuvika á Höfða. S.l. fimmtudag og föstudag voru blóðtökur og mælingar á blóðþrýstingi og púlsi. Hátt í 90% starfsmanna Höfða mættu í þessar mælingar. Dagskrá heilsuvikunnar er annars þessi:

 

Mánudagur:Fyrirlestur kl. 16,00 um mataræði og næringu. Borghildur Sigurbergsdóttir næringarráðgjafi.

 

Þriðjudagur:Kynning á stafgöngu kl. 16,30. Katrín Harðardóttir íþrótta- og stafgöngukennari.

 

Miðvikudagur:Vatnsleikfimi og húllumhæ í Bjarnalaug kl. 18,30. Anna Lóa Geirsdóttir íþróttakennai.

 

Fimmtudagur:Kynning á stafgöngu kl. 16,30. Katrín Harðardóttir íþrótta- og stafgöngukennari.

Föstudagur:Gönguferð frá Höfða kl. 16,15 og heimsókn á kaffihúsið Skrúðgarðinn. Leiðsögn: Ásmundur Ólafsson.

 

Matseðill vikunnar er lagaður að þessu heilsuátaki.

 

Elísabet Ragnarsdóttir, Sigrún Jóhannesdóttir, Sigurbjörg Halldórsdóttir og Þóranna Kjartansdóttir undirbjuggu og stjórna heilsuvikunni í samráði við Reyni Þorsteinsson lækni sem hefur umsjón með öllum rannsóknum og mælingum.

Höfðagleði

Hin árlega Höfðagleði var haldin s.l. föstudagskvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hætt hafa vegna aldurs, læknar og stjórn Höfða, alls um 170 manns.

 

Margrét A.Guðmundsdóttir setti skemmtunina og stjórnaði henni. Boðið var upp á glæsilegt veisluhlaðborð sem Haukur bryti og hans fólk reiddi fram.

 

Jóhannes Kristjánsson eftirherma skemmti gestum af sinni alkunnu snilld við frábærar undirtektir. Þá söng Tinda tríóið nokkur lög, en tríóið samanstendur af þeim feðgum Atla Guðlaugssyni og sonum hans Bjarna og Guðlaugi. Gerði söngur þeirra mikla lukku.

 

Dregið var í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu glæsilega vinninga í boði Verslunar Einars Ólafssonar.

 

Að lokum var dansað til miðnættis við undirleik Jóns Heiðars Magnússonar, Geirs Guðlaugssonar og Sirrýjar Indriðadóttur.

 

Góð stemning var á Höfðagleðinni og almenn ánægja með veitingar, skemmtiatriði og músik. Höfðagleðin tókst því í alla staði mjög vel.

Afmælisrit

Í tilefni af 30 ára afmæli Höfða kom í dag út 24 síðna afmælisrit. Í blaðinu er fjöldi viðtala við íbúa, starfsmenn og lækni auk upplýsinga um starfsemi heimilisins. Þá er mikill fjöldi mynda af íbúum og starsmönnum í leik og starfi.

 

Jóhanna Harðardóttir blaðamaður tók öll viðtöl og annaðist uppsetningu og frágang blaðsins.

 

Blaðið verður sent á öll heimili og fyrirtæki á starfssvæði Höfða.

Afmælishátíð

2.febrúar voru 30 ár liðin síðan fyrstu íbúarnir fluttu inn á Höfða. Í tilefni af því var haldin afmælishátíð s.l. föstudag. Þar mættu íbúar, starfsmenn og nokkrir gestir og þáðu góðar veitingar sem starfsmenn mötuneytis reiddu fram.

 

Benedikt Jónmundsson formaður stjórnar Höfða setti hátíðina með stuttu ávarpi og fól Margréti A.Guðmundsdóttur stjórn samkomunnar.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri rifjaði upp aðdragandann að byggingu Höfða og uppbyggingu heimilisins s.l. 30 ár. Hann gat þess að Emilía Petrea Árnadóttir væri eini fasti starfsmaður Höfða frá upphafi og að Reynir Þorsteinsson hefði verið læknir Höfða þessi 30 ár. Voru þeim færð blóm í þakklætisskyni og viðstaddir þökkuðu þeim þeirra góðu störf með lófataki.

 

Emilía Petrea Árnadóttir flutti síðan kröftugt hvatningarávarp. Að því loknu lék Þjóðlagasveit Tónlistarskóla Akraness nokkur lög við góðar undirtektir.

 

Þá flutti Gísli S.Einarsson bæjarstjóri ávarp og færði Höfða að gjöf rausnarlega peningagjöf frá Akraneskaupstað. Einar Örn Thorlacius sveitarstjóri í Hvalfjarðarsveit tók næstur til máls og færði kveðjur og hamingjuóskir úr sinni sveit ásamt veglegri blómaskreytingu.

 

Hanna Þóra Guðbrandsdóttir söng nokkur lög við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar. Söngurinn vakti mikla hrifningu og var hún klöppuð upp.

 

Þá voru afhent verðlaun fyrir Boccia mótið sem lauk í síðustu viku. Þrjár efstu sveitirnar fengu verðlaun og allir þátttakendur viðurkenningarskjöl.

 

Að lokum flutti Skarphéðinn Árnason íbúi á Höfða ávarp og rifjaði upp að þegar hann flutti til Akraness um miðja síðustu öld hafi það verið draumur margra Skagamanna að eignast heimili á borð við Höfða.

 

Guðjón þakkaði svo fólki komuna og sleit þessari afmælishátíð.

Bocciamót

3ja daga árlegu Boccia móti Höfða lauk í morgun, en verðlaun verða afhent á afmælisthátíð Höfða á morgun. Keppnin var gríðarlega jöfn og spennandi. 10 3ja manna lið tóku þátt í mótinu. Liðunum var skipt í 4 riðla og komst sigurlið hvers riðils í úrslit.

 

Liðin voru þannig skipuð:

 

FOLAR: Valgerður Einarsdóttir, Helga Árnadóttir og Kristján Pálsson.

 

FÁLKAR: Steinunn Hafliðadóttir, Guðbjörg Pétursdóttir og Guðný Þorvaldsdóttir.

 

RÚSÍNUR: Bjarni Guðmundsson, Magnús Guðmundsson og Aðalheiður Arnfinnsdóttir.

 

NAGLAR: Sigurjón Jónsson, Svava Gunnarsdóttir og Gunnar Guðjónsson.

 

HETJUR: Bára Pálsdóttir, Grétar Jónsson og Þuríður Jónsdóttir.

 

ÚLFAR: Sigurður Halldórsson, Lilja Pétursdóttir og Vigfús Sigurðsson.

 

MÁNAR: Guðrún Adolfsdóttir, Guðbjartur Andrésson og Lúðvík Björnsson.

 

HRÚTAR: Lára Arnfinnsdóttir, Rakel Jónsdóttir og Tómas Sigurðsson.

 

STRÁIN: Einar Þóroddsson, Bjarney Hagalínsdóttir og Skarphéðinn Árnason.

 

ERNIR: Björn Gústafsson, Eygló Halldórsdóttir og Jón Einarsson.

 

Úrslitaleikurinn um 3.sætið var milli HRÚTA og FOLA. Leikurinn var hnífjafn og þurfti bráðabana til að fá úrslit og unnu HRÚTAR.

 

Til úrslita um 1.sætið léku NAGLAR og ÚLFAR. Leikurinn var í járnum fram undir leikslok, en svo fór að ÚLFAR sigruðu og NAGLAR lentu í 2.sæti.

 

Edda Guðmundsdóttir og Margrét A.Guðmundsdóttir voru dómarar og stjórnuðu mótinu af mikilli röggsemi og á léttum nótum. Mikill fjöldi áhorfenda var á öllum leikjunum.