Gjöf Arion banka

Arion banki hefur fært Höfða að gjöf 20 innrammaðar myndir, teikningar sr. Jóns M.Guðjónssonar af bæjum í nærsveitum Akraness, en þessar myndir hafa prýtt útibú bankans á Akranesi sem nú hefur verið lokað.

 

Myndirnar verða settar upp í nýja matsalnum sem verður tilbúinn til notkunar á fyrri hluta næsta árs.

Ragnar Bjarnason skemmtir á Höfða

Í gær heimsótti hinn sívinsæli Raggi Bjarna Höfða og söng gömlu góðu lögin og fór með gamanmál. Íbúar og dagdeildarfólk tóku undir sönginn og skemmtu sér konunglega. Ása Ólafsdóttir tók tvö lög með Ragga, en hún var dægurlagasöngkona á yngri árum.

 

Bæjarstjóri heimsækir Höfða

Árni Múli Jónasson, nýráðinn bæjarstjóri á Akranesi, heimsótti Höfða í dag. Hann skoðaði heimilið ítarlega, ræddi við starfsmenn og íbúa og fundaði síðan með stjórnendum Höfða þar sem farið var yfir helstu áherslur í starfsemi og rekstri heimilisins. Í för með bæjarstjóra var Tómas Guðmundsson verkefnastjóri bæjarins.

 

 

Ráðherra velferðarmála í heimsókn

Guðbjartur Hannesson ráðherra velferðarmála heimsótti Höfða í morgun og fundaði með Kristjáni Sveinssyni formanni stjórnar Höfða, Guðjóni Guðmundssyni framkvæmdastjóra og Helgu Atladóttur hjúkrunarforstjóra. Fundinn sátu einnig Árni Múli Jónasson bæjarstjóri og Guðmundur Páll Jónsson formaður bæjarráðs.

 

Forsvarsmenn Höfða kynntu ýmis hagsmunamál Höfða; yfirstandandi og fyrirhugaðar framkvæmdir, íbúafjölda, starfsmannahald o.fl.

 

 

Að fundi loknum heilsaði ráðherra upp á íbúa Höfða.

 

Góðar gjafir

Kiwanisklúbburinn Þyrill á 40 ára afmæli um þessar mundir. Í tilefni af því færði klúbburinn nokkrum aðilum gjafir í samkvæmi á sjúkrahúsinu í gærkvöldi. Halldór Fr. Jónsson formaður Þyrils færði þar Höfða 3 góðar gjafir; sjúkrarúm sem hægt er að hækka og lækka, 3 vinnuborð fyrir dagdeild og þrekhjól fyrir sjúkraþjálfun. Heildarverðmæti þessara gjafa er kr. 1.135.000.

 

Guðjón Guðmundsson þakkaði klúbbfélögum fyrir þessar góðu gjafir og minnti á að Kiwanisklúbburinn Þyrill hefði allt frá því Höfði hóf starfsemi fyrir 32 árum fært heimilinu hverja stórgjöfina á fætur annari sem hefðu nýst vel.

 

Aðrir sem fengu gjafir frá Þyrli í tilefni afmælisins eru Sjúkrahús Akraness, Þjótur íþróttafélag fatlaðra og Dropinn félag sykursjúkra barna.

Viðbygging rís

Framkvæmdir við stækkun þjónusturýma Höfða hafa staðið yfir undanfarnar vikur. Í morgun voru fyrstu einingarnar reistar við eldhúsið og í næstu viku verða svo reistar einingar við þjónusturýmin í Suðurhlið hússins.

 

Verktaki er Sjammi ehf. og byggingastjóri Sigurjón Skúlason. Veðrið hefur leikið við þá sem vinna við stækkunina, einmuna blíða alla daga og verður vonandi svo áfram.

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Höfða var haldinn í gær. Stjórnina skipa Kristján Sveinsson formaður, Kjartan Kjartansson varaformaður og Guðrún M.Jónsdóttir tilnefnd af bæjarstjórn Akraness og Margrét Magnúsdóttir tilnefnd af sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar. Varamenn eru Helgi Daníelsson, Valdimar Þorvaldsson, Rún Halldórsdóttir og Dóra Líndal Hjartardóttir. Áheyrnarfulltrúi starfsmanna er Hjördís Guðmundsdóttir.

 

Aðal- og varamenn mættu á þennan fyrsta fund þar sem framkvæmdastjóri og hjúkrunarforstjóri kynntu starfsemi Höfða og stöðu mála. Síðan var farin skoðunarferð um heimilið.

Írskir dagar

Í dag hófust Írskir dagar á Akranesi og stendur hátíðin í 3 daga. Íbúar Höfða og dagdeildarfólk héldu upp á þetta með samkomu um miðjan daginn. Boðið var upp á léttar veitingar, Adda las upp gamlar fréttir frá Oddi og ljóð eftir Kjartan Guðmundsson. 4 stúlkur úr þjóðlagasveitinni léku Írsk lög á fiðlu, en þær starfa allar á Höfða í sumar. Þetta eru þær Kristín Sigurjónsdóttir, Gunnþórunn Valsdóttir, Harpa Gylfadóttir og Kristín Ragnarsdóttir. Að lokum tóku svo allir lagið og sungu nokkur gömul og góð lög.

 

Vegna framkvæmda við Höfða er samkomusalurinn lokaður og var samkoman því á gangi 1.hæðar og var mjög vel sótt. Sannaðist þar hið fornkveðna að þröngt mega sáttir sitja.

 

 

Sumarferð

 

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin í gær. Hátt í 50 manns, íbúar Höfða og dagdeildarfólk, tóku þátt í ferðinni ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og farið um Melasveit upp Norðurárdal að Bifröst og þaðan um Stafholtstungur að Deildartunguhver og síðan að Reykholti þar sem boðið var upp á kaffihlaðborð í hótelinu. Eftir kaffi var síðan ekið um Skorradal yfir Geldingadraga og yfir í Hvalfjörð þar sem Hvalstöðin var skoðuð. Kristján Loftsson forstjóri Hvals lýsti starfsemi fyrirtækisins, en fyrsti hvalurinn á þessari vertíð var væntanlegur hálftíma seinna. Síðan var haldið heim á leið og komið að Höfða kl. 18,30.

 

Ferðaveður var frábært, logn, sólarlaust og 17-19 stiga hiti. Fararkosturinn var sérútbúin hjólastólarúta frá Sæmundi. Leiðsögumaður var Björn Ingi Finsen og var leiðsögn hans einstaklega fróðleg og skemmtileg.

 

Ferðalangarnir voru ánægðir með þessa ferð sem tókst í alla staði mjög vel.

 

 

 

 

Síðasti fundur stjórnar

 

Síðasti fundur stjórnar Dvalarheimilisins Höfða á þessu kjörtímabili var haldinn í gær, en umboð stjórnarinnar rennur út á morgun og ný stjórn verður kosin 15.júní n.k. Anton Ottesen, sem setið hefur í stjórn frá 1982 og áður sem varamaður frá því heimilið tók til starfa 1978, tilkynnti að hann hyrfi nú úr stjórn og var honum þakkað langt og farsælt starf í stjórn Höfða. Anton rifjaði í stuttu máli upp ýmis mál sem upp hafa komið og kvað oft hafa verið erfiðleika í rekstrinum og því ánægjulegt að kveðja núna þegar staða Höfða væri jafn góð og raun ber vitni. Framkvæmdastjóri þakkaði fráfarandi stjórn fyrir ánægjulegt samstarf og Benedikt Jónmundsson formaður þakkaði meðstjórnarmönnum og starfsfólki fyrir vel unnin störf, en hann hefur setið í stjórninni s.l. 12 ár.

 

Á fundinum var lagt fram bréf félags- og tryggingamálaráðherra þar sem hann tilkynnir að hann hafi að fenginni tillögu Framkvæmdasjóðs aldraðra ákveðið að veita Höfða styrk að fjárhæð 113,350 millj.kr. vegna byggingar tíu hjúkrunarrýma til að fækka fjölbýlum á heimilinu. Stjórn Höfða fagnaði afgreiðslu ráðherra.