Aðalfundur Höfða 2011

 

 

Aðalfundur Höfða var haldinn í gær. Kristján Sveinsson formaður flutti skýrslu stjórnar og Jóhann Þórðarson endurskoðandi fór yfir ársreikning 2010. Rekstrarafkoma var góð og fjárhagur Höfða traustur.

 

Árni Múli Jónasson bæjarstjóri og Ása Helgadóttir sveitarstjórnarmaður í Hvalfjarðarsveit fluttu ávörp og lýstu ánægju með starfsemi Höfða. Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri gerði grein fyrir stöðu framkvæmda og nokkrum þáttum í rekstri Höfða.

 

Fundarstjóri var Kjartan Kjartansson og fundarritari Margrét Magnúsdóttir.

Vinnuskólinn aðstoðar við gönguferðir

 

 

Eftir að sumarið kom hefur verið mikil þátttaka í gönguferðum um hið fagra umhverfi Höfða og niður með Langasandi.

 

Eins og undanfarin sumur var leitað til vinnuskólans og óskað eftir aðstoð þaðan og tók Einar Skúlason forstöðumaður skólans þeirra málaleitan ljúflega og útvegaði 4 stúlkur sem mæta á hverjum morgni og aðstoða við göngutúrana.

 

Mikil ánægja er með þátttöku þessara góðu stúlkna sem án efa hafa gott af að kynnast elstu kynslóðinni.

Söngskemmtun

Í dag hélt Stefán Helgi Stefánsson söngskemmtun í Höfðasal. Hann söng góðu gömlu lögin sem allir kunna og tóku íbúar undir í nokkrum laganna.

 

Þessi söngskemmtun var í boði Oddfellowreglunnar á Akranesi, en Stefán Helgi mun syngja þrisvar í þeirra boði á Höfða og dvalarheimilinu í Borgarnesi á næstu mánuðum.

 

Margrét A.Guðmundsdóttir þakkaði Stefáni Helga frábæran söng og Oddfellowreglunni þetta góða boð.

Hjólað í vinnuna

27 starfsmenn Höfða tóku þátt í átaki ÍSÍ hjólað í vinnuna. Keppendum var skipt í 3 lið og hjólaði sigurliðið samtals 448 km. en liðið skipuðu Ásta Arngrímsdóttir, Birna Júlíusdóttir, Fanney Reynisdóttir, Guðmundína Hallgrímsdóttir, Guðný Aðalgeirsdóttir, Guðrún Björnsdóttir, Hildur Bernódusdóttir, Inga Lilja Guðjónsdóttir og Unnur Guðmundsdóttir.

 

Lið Höfða lenti í 29.sæti af 90 í hópi fyrirtækja með 70-140 starfsmenn.

Kór eldri borgara syngur á Höfða

 

Í gær hélt Hljómur, kór eldri borgara, söngskemmtun í Höfðasal. Stjórnandi kórsins er Katrín Valdís Hjartardóttir og meðleikari Sveinn Arnar Sæmundsson.

 

Mikil aðsókn var að þessari söngskemmtun og undirtektir góðar.

Starfsaldursviðurkenningar

 

 

Í dag fengu eftirtaldir 10 starfsmenn Höfða starfsaldursviðurkenningar:

 

Fyrir 5 ára starf: Jóhanna Gylfadóttir og Ólöf Elfa Smáradóttir.

 

Fyrir 10 ára starf: Guðmunda Maríasdóttir, Guðbjörg Halldórsdóttir, Hildur Bernódusdóttir, Maggi G.Ingólfsson, María Kristinsdóttir og Sigrún Valgarðsdóttir.

 

Fyrir 15 ára starf: Gréta Jóhannesdóttir og Sólveig Kristinsdóttir.

 

Framkvæmdastjóri sagði að starfsfólkið væri helsti styrkleiki Höfða og að stjórn Höfða vildi með þessum viðurkenningum þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins.

 

Á myndina vantar Guðmundu og Maríu sem eru í sumarleyfi.

Skemmtileg heimsókn

 

 

Á Vordögum í Grundaskóla komu nemendur á ýmsum aldri í heimsókn og spiluðu við íbúa Höfða öllum til mikillar ánægju.

Vel heppnaður vormarkaður

Í gær var haldinn vormarkaður á Höfða. Þar var meðal annars í boði úrval af sultum, kæfu, brauði, kleinum, garðplöntum, fötum og fleiru sem starfsmenn seldu til fjáröflunar fyrir væntanlega Þýskalandsferð.

 

Nokkrir íbúar vor með stórskemmtilega sölubása þar sem meðal annars var boðið upp á falleg gjafakort, veiðiflugur, skartgripi og handunna steina, allt unnið af seljendum.

 

Spákona var á staðnum og var biðröð hjá henni allan opnunartímann. Einnig var boðið upp á orkujöfnun og margt fleira.  Elísabet sjúkraþjálfari var með málverkasýningu og seldi hátt í 30 myndir.

 

Í nýja matsalnum var boðið upp á kaffi og vöfflur og djús fyrir börnin. Þar var troðfullt allan tímann, en mörg hundruð manns sóttu þennan vel heppnaða vormarkað.

 

 

 

 

 

 

 

Vormarkaður Höfða

Sunnudaginn 22.maí ætla íbúar og starfsfólk Höfða að halda vormarkað mill kl. 14 og 17.

Margt verður í boði:

Flóamarkaður þar sem hægt verður að gera góð kaup.Sölubásar með ýmiskonar góðgæti, bakstri og handverki

Garðplöntusala, myndlistarsýning, OPJ orkupunktajöfnun o.fl.

Kaffihúsastemming, þar sem hægt verður að kaupa kaffi og vöfflur.

Ath. Ekki er tekið á móti greiðslukortum !