Álftagerðisbræður á Höfða

 Ljósmyndari: Guðmundur Bjarki Halldórsson.

Síðastliðinn laugardag héldu hinir landskunnu Álftagerðisbræður söngskemmtun á Höfða. Undirleikari var Stefán R.Gíslason. Einn bræðranna, Óskar, var veikur og söng Sveinn Arnar Sæmundsson í hans stað.

 

Íbúar Höfða og nágrannar á Höfðagrund troðfylltu Höfðasalinn og skemmtu sér vel. Var flytjendum þakkað með kröftugu lófataki fyrir þessa frábæru skemmtun.

Leikskólabörn í heimsókn

Í morgun heimsóttu um 40 börn af Leikskólanum Vallarseli Höfða. Börnin sungu nokkur lög og var aðdáunarvert hvað vel þau kunnu texta laganna.

 

Höfðafólk fjölmennti til að hlusta á börnin og hafði gaman af.

 

Eftir sönginn þáðu börnin djús og smákökur áður en þau héldu aftur í leikskólann.

Bocciamót 2012

Nýlokið er hinu árlega Boccia móti Höfða. Að þessu sinni tóku 7 sveitir þátt og var hörð keppni um 1.sætið. Sveitin Ernir sigraði með 27 stig, en sveitina skipuðu Björn Gústafsson, Tómas Sigurðsson og Guðrún Kjartansdóttir. Í öðru til þriðja sæti með 25 stig urður sveitirnar Folar, skipuð Kristjáni Pálssyni, Auði Elíasdóttur og Guðrúnu Jónsdóttur, og sveitin Rúsínur, skipuð Kjartani Guðmundssyni, Ragnari Leóssyni og Lúðvík Björnssyni.

 

Verðlaunaafhending fór fram í mótslok og fengu 3 efstu sveitirnar verðlaunagripi. Edda, Valey og Adda voru dómarar og stjórnuðu mótinu af röggsemi og léttleika.

 

Ein starfsmannasveit tók þátt í mótinu og komst ekki með tærnar þar sem íbúarnir höfðu hælana og lenti í næst neðsta sæti.

Leikhúsferð

S.l. föstudagskvöld bauð Höfði starfsmönnum og gestum þeirra á leikritið AFINN sem sýnt var í Bíóhöllinni. Um 160 manns mættu á vegum Höfða og skemmtu sér konunglega, en alls voru hátt í 300 manns á sýningunni.

102 ára afmæli

Laugardaginn 4.febrúar varð Sigríður Guðmunsdóttir 102 ára. Sigríður brá sér til Guðnýjar hárgreiðslukonu í tilefni dagsins og var myndin tekin þegar hún kom þaðan.

 

Enginn íbúi Höfða hefur náð svo háum aldri áður, en alls hafa 450 manns búið á Höfða síðan heimilið var opnað í febrúar 1978.

Dansiball

Í dag spilaði Jón Heiðar Magnússon á harmonikku í Höfðasal. Nokkrir íbúar Höfða notuðu tækifærið og stigu dans þegar gömlu góðu lögin voru leikin.

Tónlistarmessa

Í gærkvöldi var haldin tónlistarmessa á Höfða. Þorvaldur Halldórsson söng hugljúf lög og milli laga ræddi sr. Eðvarð um ástina.
Messan var vel sótt og mikil ánægja með þessa ljúfu stund.
 

Þorrablót á bóndadaginn

Einn af föstum siðum á Höfða er að halda þorrablót á bóndadaginn. Þorrablótið var í hádeginu í dag og reiddi Haukur kokkur og hans konur í eldhúsinu fram sérlega glæsilegt hlaðborð þar sem boðið var upp á allar gerðir þorramats og snafs með. Mikil ánægja var með matinn sem var mjög góður.

Bæjarstjóri í heimsókn

Í dag heimsótti Árni Múli Jónasson bæjarstjóri Höfða. Í fylgd með honum voru Inga Ósk Jónsdóttir starfsmanna- og gæðastjóri, Laufey Jónsdóttir verkefnastjóri heimaþjónustu og Ragnheiður Þórðardóttir þjónustu- og upplýsingastjóri.

 

Gestirnir skoðuðu heimilið og heilsuðu upp á íbúa og starfsmenn. Að lokum var svo fundað með stjórnendum Höfða um málefni heimilisins og framtíðarsýn í málefnum aldraðra á starfssvæði Höfða.