Vökudagar 2013

Í tilefni Vökudaga var opnuð sýning á málverkum Sylvíu Björgvinsdóttur s.l. föstudag. Við opnunina söng sönghópurinn Stúkurnar nokkur lög.  Boðið var upp á léttar veitingar.


Sýningin er opin alla daga meðan á Vökudögum stendur til 9. nóvember nk.


Á sunnudaginn var síðan Hanna Þóra Guðbrandsdóttir söngkona ásamt Jóni Gunnari Biering Margeirssyni gítarleikara með tónleika í Höfðasal .  Flutt voru íslensk sönglög, má þar nefna lög eftir Sigfús Halldórsson, Pál Ísólfsson, Sigvalda Kaldalóns, Jórunni Viðar og ýmsa fleiri.

Opnun ljósmyndasýningar

Í dag var opnuð ljósmyndasýning á Höfða í tilefni af Vökudögum á Akranesi.  Það eru 5 ára börn af leikskólanum Garðaseli sem sýna myndir sínar.  Yfirskrift sýningarinnar er: Það sem augað mitt sér.

Fjölmennt var við opnunina bæði af Höfðafólki og gestum.  Við þetta tækifæri fluttu börnin líka nokkur lög við góðar undirtektir.

Sýningin er opin alla daga meðan á Vökudögum stendur frá 30.október til 9. nóvember nk.

Tónleikar nemenda Tónlistarskóla Akraness

Nemendur úr  Tónlistarskóla Akraness héltu tónleika í Höfðasala þann 10.október sl.

Höfðafólk fjölmennti á tónleikana og þakkaði flytendum með lófataki.

Fyrirhugað er að nemendur úr skólanum komi mánaðarlega í heimsókn og haldi tónleika fyrir heimilisfólk.  Munu tónleikar vera annan fimmtudag í mánuði kl. 14.00 og eru  aðstandendur velkomnir að koma og njóta þeirra með sínu fólki.

Starfsaldursviðurkenningar

Í dag voru afhentar árlegar starfsaldursviðurkenningar við stutta athöfn í matsal Höfða að viðstöddum íbúum Höfða og dagdeildarfólki. Að þessu sinni fengu eftirtaldir 14 starfsmenn viðurkenningu:

Fyrir 5 ára starf: Aldís Þorbjörnsdóttir, Arna M. Kjartansdóttir, Birna Vala Skarphéðinsdóttir, Ester Talledo, Eva Guðbjörg Leifsdóttir, Halla Ingólfsdóttir og Sigurlín Gunnarsdóttir.

Fyrir 10 ára starf: Steina Ósk Gísladóttir.

Fyrir 15 ára starf: Ásta Björg Arngrímsdóttir, Hildur Þorvaldsdóttir, Lára V. Jóhannesdóttir Sóley Sævarsdóttir og Rakel Gísladóttir.

Fyrir 20 ára starf: Sigríður Sigurlaugsdóttir.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri sagði að með þessum viðurkenningum vildi stjórn Höfða þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins. Kjartan sagði að starfsfólkið væri helsti styrkleiki Höfða og minnti á mikilvægi stöðugs vinnuafls.

Við sama tækifæri kvaddi Höfðafólk starfsmenn sem látið hafa af störfum á Höfða á síðustu mánuðum eftir langan og farsælan starfsferil, þau Margrét A. Guðmundsdóttir sem var starfsstjóri, forstöðukona og húsmóðir á Höfða í rúmlega 31 ár, Guðbjörg Halldórsdóttir sem var starfsmaður í þvottahúsi í 12 ár og Guðjón Guðmundsson sem var framkvæmdastjóri Höfða í 8 ár.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri þakkaði störf þremenninganna og rakti farsælan starfsferil þeirra. Kjartan óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þau mætti njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld. Kristján Sveinsson formaður stjórnar Höfða afhenti þeim blómvönd og litla gjöf frá Höfða.

Alþýðuóperan í heimsókn

Síðastliðinn sunnudag kom Alþýðuóperan í heimsókn á Höfða og flutti gamanóperuna Ráðskonuríki (La serva padrona) eftir Pergolesi í Höfðasal.

Meðal flytjenda var Hanna Þóra Guðbrandsdóttir fyrrverandi bæjarlistamaður Akraness.

Góð aðsókn var að þessari skemmtun og undirtektir góðar.

Út að ganga

Skipulagðar gönguferðir utandyra á sumrin eru orðnar fastur liður í dagskránni á Höfða. Þær eru mjög vinsælar,  ekki síst þegar veðrið er gott. Þeir sem ekki getað gengið langar vegalengdir  er boðið að koma út í hjólastól.

Reynt er að gefa öllum tækifæri sem vilja að komast út sem oftast .  Um 4-6 starfsmenn eru með í för, en skipulagning og stjórn er að mestu í höndum starfsmanna sjúkraþjálfunar, dagdeildar og iðjuþjálfunar.

Einnig hefur Vinnuskólinn verið svo vinsamlegur að „lána „ okkur nokkra unglinga sem koma og hjálpa til  og keyra þá oftast hjólastólana. Mikil  ánægja er með þetta fyrirkomulag sem er gagnlegt  og ánægjulegt fyrir báða aðila.

Farið er út alla virka daga en veðrið hefur ekki verið alveg nógu hliðhollt þetta sumarið. Þegar vel viðrar eru um 20 til 30 íbúar og dagdeildarfólk sem fara út.  

Um nokkrar gönguleiðir í nágrenni Höfða er að velja,  allt á malbikuðum stigum. Vinsælt er að fara eftir nýja stignum út á Sólmundarhöfðann, einnig út í Leynisvíkina í gegnum Höfðagrundina og svo ekki síst  að Aggapalli  á stígnum  eftir Langasandi.

Lagt er af stað um 11:15 og komið tímalega til baka fyrir hádegismat.  Aðstandendur eru velkomnir að koma með.

Sumarferð

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin s.l. fimmtudag. 50 manns tóku þátt í ferðinni, íbúar Höfða og dagdeildarfólk ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið norður fyrir fjall upp á Grundartanga, um Hvalfjarðargöng, gegnum Mosfellsbæ að Hafravatni og þaðan að Hellisheiðarvirkjun þar sem Helgi Pétursson tók á móti hópnum og fór yfir virkjun jarðhitans á Hengilsvæðinu, jarðfræði og sérþekkingu Íslendinga á sviði jarðvarma.  Að þessu loknu var ekið til Selfoss þar sem boðið var upp á glæsilegt kaffihlaðborð á Hótel Selfoss.  Síðan var ekið um Grafning og Mosfellsheiði á leiðinni heim á Skaga. Heim var svo komið kl. 19,20.


Oft hefur veðrið verið betra í sumarferðum Höfða en ferðafólk lét það ekki á sig fá enda ferðaðist hópurinn undir leiðsögn Björns Inga Finsen og var leiðsögn hans að vanda bæði fróðleg og skemmtileg.  Ferðast var með sérútbúinni hjólastólarútu frá Sæmundi.

Heimsókn úr Velferðarráðuneytinu

Síðastliðinn föstudag heimsóttu Höfða þær Bryndís Þorvaldsdóttir og Heiður Margrét Björnsdóttir úr Velferðarráðuneytinu. Kynntu þær sér ný afstaðnar framkvæmdir við nýbyggingu hjúkrunardeildar og endurbætur á eldri hjúkrunardeild ásamt því að eiga góðan fund með stjórnendum Höfða.

Haldið upp á Írska daga

Í upphafi Írskra daga á Akranesi komu íbúar Höfða og dagdeildarfólk saman í Höfðasal og skemmtu sér. Boðið var upp á léttar veitingar. Þjóðlagasveit tónlistarskólans hélt uppi írskri stemmingu með flutningi sínum.

 

Þá var heimilið skreytt með írskum fánum, blöðrum o.fl. Írska stemmningin sem ríkir á Akranesi þessa helgi er því ekki síður á Höfða en annars staðar í bænum.

Grænir fingur á Höfða

Annað árið í röð er sáð og plantað út í nýja gróðurkassa á Höfða.  Í kössunum er m.a. jarðarber, grænkál, steinselja og ýmsar kryddplöntur s.s. graslaukur, mynta, blóðberg, origanó og timjan.  Vaskur hópur heimilismanna hefur unnið að ræktuninni undir stjórn þeirra Lísu sjúkraþjálfara, Maríu iðjuþjálfa og fleiri starfsmanna.  Að ræktuninni hafa komið þær  Jóhanna Ólafsdóttir, Rafnhildur Árnadóttir, Guðrún Jónsdóttir, Guðný Þorvaldsdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Guðborg Elíasdóttir og Guðbjörg Guðmundsdóttir.  Síðan hafa þeir Jóhannes Páll Halldórsson og Kristján Pálsson verði duglegir við að vökva plönturnar.