Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Sumarferð

Í gær var hin árlega sumarferð Höfðafólks. Um 40 manns, íbúar Höfða, dagvistarfólk og íbúar Höfðagrundarhúsanna, tóku þátt í ferðinni ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið að Sundahöfn í Reykjavík og skoðuð hin mikla uppbygging þar. Síðan var ekið til Grindavíkur og að Bláa lóninu, en þaðan haldið til Keflavíkur þar sem drukkið var kaffi í veitingahúsinu Ránni. Síðan var ekið um Garð að Garðskagavita og þaðan til Sandgerðis og síðan sem leið lá heim og komið til Akraness kl. 18,45.

 

Björn Ingi Finsen var leiðsögumaður í þessari ferð og var leiðsögn hans einstaklega fróðleg og skemmtileg.

 

Veðrið lék við ferðalangana – logn, sól og 18-20 stiga hiti. Almenn ánægja var með ferðina sem tókst í alla staði mjög vel.

Heilbrigðisráðherra heimsækir Höfða

Nýr heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, heimsótti Höfða s.l. laugardag. Ráðherrann ræddi við framkvæmdastjóra Höfða um rekstur og framtíðaráætlanir heimilisins.

 

Að fundi loknum gaf ráðherrann sér góðan tíma til að rölta um húsið og heilsa upp á íbúa Höfða. Var honum afskaplega vel tekið og sumir gaukuðu að honum góðum ráðum um hvað væri brýnasta verkefni nýs heilbrigðisráðherra.

Tónleikar Grundartangakórsins

Grundartangakórinn hélt söngskemmtun á Höfða í gær.Atli Guðlaugsson stjórnaði kórnum, undirleikarar voru Flosi Einarsson og Sigurbjörn Kári Hlynsson. Einsöngvarar voru Guðlaugur Atlason, Smári Vífilsson og Þórður Björgvinsson.

 

Íbúar Höfða troðfylltu samkomusalinn og höfðu mikla ánægju af söngnum og hylltu kórinn með miklu lófataki.

 

Grundartangakórinn hefur um langt árabil heimsótt Höfða reglulega og hafa íbúar Höfða alltaf jafn gaman af þeirra góða söng og léttu framkomu.

 

Kórinn fer í söngferð til Ítalíu um helgina og fylgja honum góðar óskir Höfðafólks.

Ís í sólinni.

Í dag var um 20 stiga hita við suðurvegg Höfða. Í tilefni góða veðursins voru útihúsgögnin dregin fram og slegið upp ísveislu við góðar undirtektir Höfðafólks.

Skipulagðar gönguferðir utandyra

Fyrir rúmri viku síðan byrjuðu skipulagðar gönguferðir á Höfða fyrir heimilisfólk og dagvistarfólk. Farið er út daglega virka daga rúmlega 11 og gengið um nærumhverfi Höfða og komið tímalega til baka fyrir hádegismat. Fimm til sjö stafsmenn eru með í för. Áhugi hefur verið mikill og allt að 30 þátttakendur hafa mætt í góðviðrinu undanfarna daga. Þessum gönguferðum verður haldið áfram í sumar og fram á haust svo lengi sem áhugi og veður leyfir.

Gönguferðir

Í síðustu viku lagði bærinn malbikaðan gangstíg frá Höfða, annars vegar inn á Höfðagrund og hins vegar til að tengjast hinum skemmtilega gangstíg sem liggur meðfram Langasandi. Þessi stígur gerir mun fleirum kleyft að njóta útiveru og umhverfi við Langasand og víðar.

 

Mikil ánægja er með þessa framkvæmd og nú eru reglulegar gönguferðir á hverjum morgni kl. 11,15. Mikil þáttaka er í þessum gönguferðum.

Söngskemmtun Kórs Gerðubergs

 

 

Kór Gerðubergs hélt söngskemmtun á Höfða í dag. Unnur Eyfells og Árni Ísleifs léku undir á píanó og stjórnuðu jafnframt kórnum í veikindaforföllum Kára Friðrikssonar. Þá lék Þorgrímur Kristleifs á munnhörpu.

 

Íbúar Höfða troðfylltu samkomusalinn og þökkuðu þessum góðu gestum með kröftugu lófataki. Að lokum þáðu gestirnir veitingar í boði Höfða.

Aukin fjölbreytni í færniþjálfun

Í síðasta mánuðu fór Marianne Ellingsen starfmaður í færniþjálfun á námskeið í meðhöndlun á silfurleir.

 

Nú er starfsemin hafin og vekur mikla ánægju hjá þátttakendum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þar sem þær Anna Erlendsdóttir, Steinunn Hafliðadóttir og Rósa Sigurðardóttir fást við skartgripagerð.