Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsótti Höfða í dag. Með honum í för voru tveir efstu frambjóðendur Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs í komandi bæjarstjórnarkosningum, Þröstur Ólafsson og Hjördís Garðarsdóttir. Gestirnir ræddu við íbúa og starfsmenn og kynntu sér starfsemi Höfða.
Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized
Félagsmálaráðherra heimsækir Höfða
Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra heimsótti Höfða í dag. Með honum í för voru Guðbjartur Hannesson alþingismaður og fjórir efstu frambjóðendur á lista Samfylkingarinnar í komandi bæjarstjórnarkosningum þau Sveinn Kristinsson, Hrönn Ríkharðsdóttir, Ingibjörg Valdimarsdóttir og Einar Benediktsson. Gestirnir kynntu sér starfsemi Höfða og ræddu við íbúa og starfsmenn. Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri fylgdi gestunum um húsið, en hún á sæti á framboðslista Samfylkingarinnar.
Höfðingleg gjöf
Sigursteinn Árnason frá Sólmundarhöfða færði Höfða að gjöf sex milljónir króna í gær. Sigursteinn, sem er 94 ára gamall, hefur búið á Höfða s.l. hálft annað ár, en áður átti hann heimili sitt á Sólmundarhöfða frá barnæsku.
Dvalarheimilið Höfði stendur sem kunnugt er á lóð Sólmundarhöfða og dregur nafn sitt af höfðanum.
Stjórn Höfða færir Sigursteini kærar þakkir fyrir þessa höfðinglegu gjöf.
Myndbandagerð
Tveir hópar nemenda Grundaskóla hafa síðustu daga fengið aðstöðu á Höfða til að taka upp myndband. Þetta er liður í stærðfræðiverkefni sem þau eru að kynna fyrir yngri nemendum skólans.
Ball
Það var fjör á Höfða í dag þegar hljómsveitin Bjórbandið lék fyrir dansi síðdegis. Hljómsveitina skipa Árni Aðalsteinsson, Baldur Árnason, Helgi Jensson og Smári Guðbjartsson. Mikið var dansað og stuð á mannskapnum, enda leikur hljómsveitin gömlu góðu lögin sem íbúar Höfða þekkja og hafa ánægju af.
Passíusálmalestur á föstudaginn langa
Sjö starfsmenn Höfða lásu passíusálmana í Akraneskirkju á föstudaginn langa. Góð aðsókn var að lestrinum og þótti flutningur Höfðafólks mjög góður.
Rauðmagaveisla
Friðrik Magnússon útgerðarmaður og skipstjóri á Keili 2. AK gaf Höfða hátt á annað hundrað rauðmaga sem hann fékk í grásleppunetin í gær. Haukur kokkur og Skarphéðinn Árnason íbúi á Höfða stóðu á bryggjunni og gerðu að rauðmaganum í norðan næðingi og frosti, en Skarphéðinn er gamalreyndur hrognkelsaveiðimaður.
Það verður því rauðmagaveisla á Höfða í hádeginu í dag.
Mottukeppni
Þrír herramenn á dagdeild Höfða, Vignir, Ármann og Tómas, tóku þátt í mottukeppni Krabbameinsfélags Íslands sem staðið hefur yfir í þessum mánuði. Ekki verður annað sagt en að vel hafi tekist til hjá þeim félögum.
Seltirningar heimsækja Höfða
Í dag heimsótti Höfða 39 manna hópur úr félagsstarfi eldri borgara á Seltjarnarnesi. Með þeim í för var bæjarstjórinn Ásgerður Halldórsdóttir.
Margrét A.Guðmundsdóttir og Helga Jónsdóttir sýndu gestunum starfsemi dagdeildar og annað sem í gangi er á heimilinu.
Að því loknu var gestunum boðið upp á kaffi og meðlæti. Þar ávarpaði Guðjón Guðmundsson gestina og sagði frá uppbyggingu Höfða og starfsemi.
Gestirnir létu í ljós mikla hrifningu af heimilinu. Héðan lá leið þeirra niður í bæ þar sem þau ætluðu að líta inn á fleiri staði.
Handavinnuleiðbeinendur í heimsókn
S.l. laugardag heimsóttu Höfða 42 konur úr Félagi handavinnuleiðbeinenda. Komu þær víða af landinu. Helga Jónsdóttir deildarstjóri dagdeildar tók á móti þeim og sagði frá starfseminni á Höfða og bauð þeim upp á kaffi og konfekt.









-150x150.jpg)
-150x150.jpg)
-150x150.jpg)
-150x150.jpg)
-150x150.jpg)