Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Viðbygging rís

Framkvæmdir við stækkun þjónusturýma Höfða hafa staðið yfir undanfarnar vikur. Í morgun voru fyrstu einingarnar reistar við eldhúsið og í næstu viku verða svo reistar einingar við þjónusturýmin í Suðurhlið hússins.

 

Verktaki er Sjammi ehf. og byggingastjóri Sigurjón Skúlason. Veðrið hefur leikið við þá sem vinna við stækkunina, einmuna blíða alla daga og verður vonandi svo áfram.

Írskir dagar

Í dag hófust Írskir dagar á Akranesi og stendur hátíðin í 3 daga. Íbúar Höfða og dagdeildarfólk héldu upp á þetta með samkomu um miðjan daginn. Boðið var upp á léttar veitingar, Adda las upp gamlar fréttir frá Oddi og ljóð eftir Kjartan Guðmundsson. 4 stúlkur úr þjóðlagasveitinni léku Írsk lög á fiðlu, en þær starfa allar á Höfða í sumar. Þetta eru þær Kristín Sigurjónsdóttir, Gunnþórunn Valsdóttir, Harpa Gylfadóttir og Kristín Ragnarsdóttir. Að lokum tóku svo allir lagið og sungu nokkur gömul og góð lög.

 

Vegna framkvæmda við Höfða er samkomusalurinn lokaður og var samkoman því á gangi 1.hæðar og var mjög vel sótt. Sannaðist þar hið fornkveðna að þröngt mega sáttir sitja.

 

 

Sumarferð

 

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin í gær. Hátt í 50 manns, íbúar Höfða og dagdeildarfólk, tóku þátt í ferðinni ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og farið um Melasveit upp Norðurárdal að Bifröst og þaðan um Stafholtstungur að Deildartunguhver og síðan að Reykholti þar sem boðið var upp á kaffihlaðborð í hótelinu. Eftir kaffi var síðan ekið um Skorradal yfir Geldingadraga og yfir í Hvalfjörð þar sem Hvalstöðin var skoðuð. Kristján Loftsson forstjóri Hvals lýsti starfsemi fyrirtækisins, en fyrsti hvalurinn á þessari vertíð var væntanlegur hálftíma seinna. Síðan var haldið heim á leið og komið að Höfða kl. 18,30.

 

Ferðaveður var frábært, logn, sólarlaust og 17-19 stiga hiti. Fararkosturinn var sérútbúin hjólastólarúta frá Sæmundi. Leiðsögumaður var Björn Ingi Finsen og var leiðsögn hans einstaklega fróðleg og skemmtileg.

 

Ferðalangarnir voru ánægðir með þessa ferð sem tókst í alla staði mjög vel.

 

 

 

 

Með yl í hjarta og birtu á brá

Fyrirsögnin er heitið á tónleikum sem feðginin Ólafur Beinteinn og Ingibjörg Aldís óperusöngkona héldu á Höfða í dag. Þau fluttu innlenda og innlenda tónlist auk þess sem Ólafur stýrði hópsöng og sló á létta strengi með harmónikkunni.

 

Íbúar Höfða troðfylltu samkomusalinn og höfðu mikla ánægju af þessum frábæru tónleikum.

 

Orkuveita Reykjavíkur styrkti tónleikana.

 

 

Starfsaldursviðurkenningar – Margrét kvödd

 

Í dag fengu 13 starfsmenn Höfða starfsaldursviðurkenningar.

Þeir voru:

 

Fyrir 5 ára starf:

Guðjón Guðmundsson.

 

Fyrir 10 ára starf:

Ingibjörg Rósa Aðalsteinsdóttir,

Júlíana Karvelsdóttir,

Margrét Rögnvaldsdóttir og Vigdís Jóhannsdóttir.

 

Fyrir 15 ára starf:

Ólöf Auður Böðvarsdóttir og

Ragna Ragnarsdóttir.

 

Fyrir 20 ára starf:

Guðmundína Hallgrímsdóttir,

Hjördís Guðmundsdóttir,

Jóna Björk Guðmundsdóttir og

Sigurbjörg Ragnarsdóttir.

 

Og fyrir 30 ára starf:

Arinbjörg Kristinsdóttir og

Unnur Guðmundsdóttir.

 

Framkvæmdastjóri minnti á mikilvægi stöðugs vinnuafls og sagði að stjórn Höfða vildi með þessum viðurkenningum þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins.

 

Þá kvöddu íbúar og starfsmenn Margréti Þórarinsdóttur sem lét af störfum í mötuneyti Höfða um s.l. áramót. Guðjón rakti farsælan starfsferil Margrétar, þakkaði störf hennar og óskaði henni góðs gengis á ókomnum árum og að hún megi njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.

 

 

 

 

Vorferð starfsmanna Höfða

S.l. laugardag fór um helmingur starfsmanna Höfða í árlega vorferð. Að þessu sinni var haldið til Stykkishólms. Þar heimsóttum við sjúkrahúsið þar sem Róbert Jörgensen svæðisstjóri og Hrefna Frímannsdóttir yfirsjúkraþjálfari tóku á móti hópnum, buðu upp á kaffi og tertur, og lýstu starfseminna, einkum bakmeðferð sem sjúkrahúsið sérhæfir sig í.

 

Næst var haldið í Norska húsið og það skoðað með leiðsögn, einnig heimsóttu margir handverkshúsið en síðan var bjórverksmiðjan Mjöður heimsótt. Þar lýsti Gissur Tryggvason framleiðslunni og boðið var upp á smökkun.

 

Loks var snæddur dýrindis kvöldverður í Narfeyrarstofu og heim komu ánægðir ferðalangar upp úr miðnætti.

Framsóknarmenn heimsækja Höfða

 

Frambjóðendur Framsóknarflokksins, Guðmundur Páll Jónsson, Dagný Jónsdóttir og Elsa Arnardóttir heimsóttu Höfða í dag. Þau kynntu stefnumál Framsóknarflokksins í bæjarstjórnarkosningunum n.k. laugardag og ræddu við íbúa og starfsmenn. Með þeim í för var Guðmundur Steingrímsson alþingismaður.

Félagsmálaráðherra heimsækir Höfða

 

Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra heimsótti Höfða í dag. Með honum í för voru Guðbjartur Hannesson alþingismaður og fjórir efstu frambjóðendur á lista Samfylkingarinnar í komandi bæjarstjórnarkosningum þau Sveinn Kristinsson, Hrönn Ríkharðsdóttir, Ingibjörg Valdimarsdóttir og Einar Benediktsson. Gestirnir kynntu sér starfsemi Höfða og ræddu við íbúa og starfsmenn. Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri fylgdi gestunum um húsið, en hún á sæti á framboðslista Samfylkingarinnar.