Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Jólaskreytingar

Í gærkvöldi komu saman um 30 starfsmenn Höfða til að gera jólaskreytingar. Kirsten Benediktsdóttir blómaskreytir leiðbeindi um gerð aðventukransa.

 

Nokkrir starfsmenn höfðu úbúið skemmtilegt jólahlaðborð sem gerði mikla lukku. Almenn ánægja var með þessa notalegu kvöldstund.

 

 

Laufabrauðsskurður

Í dag settust nokkrir íbúar Höfða að laufabrauðsskurði. Gaman var að fylgjast með handbragði þeirra, enda flestir þaulvanir laufabrauðsskurði um áratugaskeið. Verkið gekk vel undir röggsamri stjórn Öddu húsmóður.

 

 

Lionsmenn heimsækja Höfða

 

Í gærkvöldi var fundur Lionsklúbbs Akraness haldinn á Höfða. Guðjón Guðmundsson bauð Lionsmenn velkomna og minnti á að Lionsklúbburinn hefði allt frá stofnun Höfða fært heimilinu margar góðar gjafir sem hefðu nýst vel. Guðjón sagði frá starfsemi Höfða, framkvæmdum og hvað væri framundan og svaraði spurningum Lionsmanna.

 

Valdimar Þorvaldsson formaður Lionsklúbbsins þakkaði móttökurnar og þann góða mat sem Haukur bryti bauð upp á.

Framkvæmdir ganga vel

 

 

Framkvæmdir við fyrri verkhluta stækkunar þjónusturýma ganga vel. Verkið tafðist nokkuð í sumar vegna hönnunarmála og krafna frá Brunamálastofnun, en verktakinn reiknar þrátt fyrir það með að verklok verði á umsömdum tíma.

 

Magnús H.Ólafssonarkitekt og Bragi Þór Sigurdórsson rafhönnuður fóru í skoðunarferð um nýbygginguna með deildarstjórum og framkvæmdanefnd. Þeir gerðu grein fyrir væntanlegu útboði á seinni hluta verksins sem verður boðinn út í þessum mánuði.

Harmonikkuball

Vegna framkvæmda við stækkun þjónusturýma er samkomusalur Höfða lokaður og verður því að halda samkomur á ganginum framan við salinn.

 

Í dag lék Jón Heiðar Magnússon á harmonikku gömlu góðu danslögin við góðar undirtektir Höfðafólks og tóku margir snúning við ljúfa tóna nikkunnar.

Helga styrkt

Í fyrradag voru veittir fjórir styrkir úr Rannsóknarsjóði Öldrunarráðs Íslands, en sjóðurinn styrkir áhugaverðar rannsóknir í öldrunarmálum.

 

Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri á Höfða hlaut 300 þúsund króna styrk vegna rannsóknar sinnar á heilsufari og færni aldraðra með einkenni heilabilunar á hjúkrunardeildum á Íslandi og gæðum þeirrar hjúkrunar sem þeir njóta. Um er að ræða meistaraverkefni Helgu en hún stundar meistaranám í hjúkrunarstjórnun við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

 

Samkoma vegna kvennafrídags

Í dag komu íbúar og starfsmenn saman kl. 14,25 í tilefni kvennafrídagsins og sungu og lásu ljóð. Mæting var mjög góð og mikil stemning í hópnum.

 

 

Bæjarstjóri heimsækir Höfða

Árni Múli Jónasson, nýráðinn bæjarstjóri á Akranesi, heimsótti Höfða í dag. Hann skoðaði heimilið ítarlega, ræddi við starfsmenn og íbúa og fundaði síðan með stjórnendum Höfða þar sem farið var yfir helstu áherslur í starfsemi og rekstri heimilisins. Í för með bæjarstjóra var Tómas Guðmundsson verkefnastjóri bæjarins.

 

 

Góðar gjafir

Kiwanisklúbburinn Þyrill á 40 ára afmæli um þessar mundir. Í tilefni af því færði klúbburinn nokkrum aðilum gjafir í samkvæmi á sjúkrahúsinu í gærkvöldi. Halldór Fr. Jónsson formaður Þyrils færði þar Höfða 3 góðar gjafir; sjúkrarúm sem hægt er að hækka og lækka, 3 vinnuborð fyrir dagdeild og þrekhjól fyrir sjúkraþjálfun. Heildarverðmæti þessara gjafa er kr. 1.135.000.

 

Guðjón Guðmundsson þakkaði klúbbfélögum fyrir þessar góðu gjafir og minnti á að Kiwanisklúbburinn Þyrill hefði allt frá því Höfði hóf starfsemi fyrir 32 árum fært heimilinu hverja stórgjöfina á fætur annari sem hefðu nýst vel.

 

Aðrir sem fengu gjafir frá Þyrli í tilefni afmælisins eru Sjúkrahús Akraness, Þjótur íþróttafélag fatlaðra og Dropinn félag sykursjúkra barna.