Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Frábær Þýskalandsferð

 

 

Í fyrradag komu 56 starfsmenn Höfða heim úr 5 daga fræðslu- og skemmtiferð til Þýskalands. Gist var í bænum Oberkirch í Svartaskógi. Á föstudag heimsótti hópurinn hjúkrunarheimilið Das Katharinenstift í Freiborg, en á heimilinu eru 129 íbúar. Stjórnendur heimilisins tóku mjög vel á móti hópnum, kynntu starfsemi heimilisins, sýndi aðstöðuna, svöruðu fjölmörgum fyrirspurnum og buðu að lokum upp á kartöflusúpu sem virðist vera mjög vinsæl á þessum slóðum. Þessi heimsókn var mjög gagnleg og fróðlegt að sjá hvernig að málum er staðið í öðrum löndum.

 

Á laugardag var farið í skoðunarferðar til Strasbourg í Frakklandi þar sem gengið var um gamla borgarhlutann og farið í siglingu á ánni Ill. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður og margt til gamans gert. Á sunnudag var svo ekið um vínræktarhéruðin í Alsace og komið við í tveimur fallegum smábæjum. Á heimleiðinni varð það óhapp að kviknaði í rútunni og varð hópurinn að yfirgefa hana og bíða í 2 tíma eftir annari rútu. Tóku því allir með bros á vör og göntuðust með að Höfðafólk og rútur ættu ekki samleið, en í síðustu utanlandsferð lenti hópurinn í svipaðri töf þegar rúta ók inn í skriðu á Kjalarnesi í upphafi ferðar.

 

Á mánudag var svo haldið heim á leið og lent í Keflavík síðdegis. Voru allir sammála um að ferðin hefði verið frábær í alla staði. Sigurbjörg Ragnarsdóttir og Unnur Guðmundsdóttir sáu um undirbúning og skipulagningu ferðarinnar. Guðrún Björnsdóttir og Hildur Bernódusdóttir  stjórnuðu fjáröflun sem starfsmenn tóku þátt í af miklum krafti mánuðum saman. Farið var með Bændaferðum sem lögðu til fararstjóra, Þórhall Vilhjálmsson.

 

Veðrið var einstaklega gott í þessari frábæru ferð, 20-30 stiga hiti og sól.

 

Velferðarráðherra heimsækir Höfða

 

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra heimsótti Höfða í morgun. Ráðherra skoðaði nýtt þjónustrými heimilisins, en framkvæmdum við það lauk í sumar. Hann átti síðan fund með forráðamönnum heimilisins þar sem rætt var um starfsemi Höfða og helstu áherslur Höfðafólks varðandi reksturinn.

 

Guðbjartur heilsaði síðan upp á starfsfólk og íbúa heimilisins.

Sumarferð

 

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin í gær. 50 manns tóku þátt í ferðinni, íbúar Höfða og dagdeildarfólk ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið til Þingvalla þar sem rúntað var um svæðið. Síðan var ekið um nýja veginn til Laugarvatns og þaðan niður Grímsnes til Selfoss þar sem boðið var upp á glæsilegt kaffihlaðborð á Hótel Selfoss. Síðan var farin skoðunarferð um Selfoss og Hveragerði og þaðan ekið til Reykjavíkur þar sem Harpan var skoðuð frá ýmsum sjónarhornum. Heim var svo komið kl. 18,20.

 

Hópurinn fékk frábært ferðaveður, logn, sól og allt að 20 stiga hita. Ferðast var með sérútbúinni hjólastólarútu frá Sæmundi. Leiðsögumaður var Björn Ingi Finsen og var leiðsögn hans fróðleg og skemmtileg að vanda.

 

Vösk sveit Höfðakvenna aðstoðaði fólkið í ferðinni. Á meðfylgjandi mynd sem Guðjón tók af þeim ásamt leiðsögumanni á Selfossi eru f.v. Björn Ingi, Inga Lilja, Adda, Kata, Ragnheiður, Marianne og Rúna.

Haldið upp á Írska daga

 

Í dag hófust Írskir dagar á Akranesi og verða mikil hátíðarhöld vítt og breitt um bæinn fram á sunnudag. Íbúar Höfða og dagdeildarfólk héldu upp á Írska daga með samkomu um miðjan daginn. Boðið var upp á léttar veitingar. Félagar úr Kammerkór Akraness sungu góðu gömlu íslensku lögin undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar.

 

Frábær stemning var á þessari samkomu sem var mjög vel sótt og má segja að nýji Höfðasalurinn hafi verið troðfullur.

Aðalfundur Höfða 2011

 

 

Aðalfundur Höfða var haldinn í gær. Kristján Sveinsson formaður flutti skýrslu stjórnar og Jóhann Þórðarson endurskoðandi fór yfir ársreikning 2010. Rekstrarafkoma var góð og fjárhagur Höfða traustur.

 

Árni Múli Jónasson bæjarstjóri og Ása Helgadóttir sveitarstjórnarmaður í Hvalfjarðarsveit fluttu ávörp og lýstu ánægju með starfsemi Höfða. Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri gerði grein fyrir stöðu framkvæmda og nokkrum þáttum í rekstri Höfða.

 

Fundarstjóri var Kjartan Kjartansson og fundarritari Margrét Magnúsdóttir.

Vinnuskólinn aðstoðar við gönguferðir

 

 

Eftir að sumarið kom hefur verið mikil þátttaka í gönguferðum um hið fagra umhverfi Höfða og niður með Langasandi.

 

Eins og undanfarin sumur var leitað til vinnuskólans og óskað eftir aðstoð þaðan og tók Einar Skúlason forstöðumaður skólans þeirra málaleitan ljúflega og útvegaði 4 stúlkur sem mæta á hverjum morgni og aðstoða við göngutúrana.

 

Mikil ánægja er með þátttöku þessara góðu stúlkna sem án efa hafa gott af að kynnast elstu kynslóðinni.

Kór eldri borgara syngur á Höfða

 

Í gær hélt Hljómur, kór eldri borgara, söngskemmtun í Höfðasal. Stjórnandi kórsins er Katrín Valdís Hjartardóttir og meðleikari Sveinn Arnar Sæmundsson.

 

Mikil aðsókn var að þessari söngskemmtun og undirtektir góðar.

Skemmtileg heimsókn

 

 

Á Vordögum í Grundaskóla komu nemendur á ýmsum aldri í heimsókn og spiluðu við íbúa Höfða öllum til mikillar ánægju.