Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Ný gönguleið

Undanfarnar vikur hafa íbúar Höfða og dagdeildarfólk farið í daglegar gönguferðir um hið fagra umhverfi Höfða. Nú hefur ný gönguleið bæst við þær sem fyrir voru, en kominn er malbikaður gangstígur fram á Sólmundarhöfðann með fínum sólpalli þar sem fjöldi manns getur setið og notið góða veðursins.

Haraldur Sturlaugsson beitti sér fyrir þessari framkvæmd og safnaði til þess framlögum frá fjölda einstaklinga og fyrirtækja. Gaf Haraldur nýja gangstígnum nafnið Samfélagsstígurinn.

Ástæða er til að þakka Haraldi og öllum þeim sem lögðu þessu verkefni lið fyrir þessa frábæru viðbót við gönguleiðir í nágrenni Höfða.

Góðviðrisins notið

Undanfarna daga hefur verið frábært veður á Akranesi og hafa íbúar Höfða og dagdeildarfólk notað það til gönguferða um nágrennið. Í næstu viku bætist við ný gönguleið þegar Samfélagsstígurinn verður tekinn í notkun, en han liggur frá lóð Höfða og niður á Sólmundarhöfðann. Þessa dagana er verið að ljúka við smíði sólpalls við stíginn og verður þarna útivistarparadís.

 

Í gær tóku margir þátt í útileikjum; golfpútti, keilukasti o.fl. á nýju aðstöðunni sunnan við viðbygginguna. Þar eru einnig stórir gróðurkassar með jarðarberjaplöntum, kryddjurtum og káli og fylgjast íbúar Höfða vel með hvernig til tekst með ræktunina.

Starfsaldursviðurkenningar

Í dag voru afhentar árlegar starfsaldursviðurkenningar við stutta athöfn í matsal Höfða að viðstöddum íbúum Höfða og dagdeildarfólki. Að þessu sinni fengu eftirtaldir 19 starfsmenn viðurkenningu:

 

Fyrir 5 ára starf: Anna K.Belko, Fanney Reynisdóttir, Haukur S.Ingibjargarson, Helga Atladóttir, Kristín Alfreðsdóttir, Margrét Reimarsdóttir, Pálína Sigmundsdóttir og Þórey Einarsdóttir.

 

Fyrir 10 ára starf: Sigurlaug Garðarsdóttir.

 

Fyrir 15 ára starf: Arína Guðmundsdóttir, Elísabet Ragnarsdóttir og Hulda Ragnarsdóttir.

 

Fyrir 20 ára starf: Sigrún Sigurgeirsdóttir og Svandís Stefánsdóttir.

 

Fyrir 25 ára starf: Helga Jónsdóttir, Katrín Baldvinsdóttir, Kristín P.Magnúsdóttir og Ragnheiður Guðmundsdóttir.

 

Fyrir 30 ára starf: Margrét A.Guðmundsdóttir.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri sagði að með þessum viðurkenningum vildi stjórn Höfða þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins. Guðjón sagði að starfsfólkið væri helsti styrkleiki Höfða og minnti á mikilvægi stöðugs vinnuafls en 50 starfsmenn hafa starfað á Höfða í 10 ár eða lengur.

 

Á myndina vantar Kristínu, Pálínu og Ragnheiði.

Fundur með aðstandendum

Í gær var haldinn fundur með aðstandendum þeirra sem búa á Höfða. Dagskrá fundarins var svohljóðandi:

  1. Fjármál, framkvæmdir, greiðsluþátttaka íbúa í vistgjöldum: Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri
  2. Breyting við flutning móður á hjúkrunarheimili: Guðrún Björnsdóttir aðstandandi
  3. Allir í einbýli – breyting  á starfsemi við afnám tvíbýla: Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri
  4. Vinir Höfða – kynning á aðstandendafélagi: Guðrún Elsa Gunnarsdóttir
  5. Umræður og fyrirspurnir.

Þá fór fram skrifleg könnun meðal fundarmanna um hvað þeim fyndist um þjónustuna á Höfða og hvaða ábendingar þeir hefðu varðandi aðstöðu og þjónustu. Niðurstaða þessarar könnunar var mjög jákvæð.

Hátt í 70 manns sóttu fundinn.

Grundartangakórinn á Höfða

Síðasta vetrardag hélt Grundartangakórinn sína árlegu vortónleika á Höfða við frábærar undirtektir áheyrenda sem troðfylltu Höfðasalinn.

 

Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson og einsöng sungu Smári Vífilsson, Bjarni Atlason og Guðlaugur Atlason. Flosi Einarsson lék undir á píanó og Rut Berg Sævarsdóttir á flautu og harmonikku.

 

Kórinn hefur sungið á Höfða á hverju ári í 29 ár, undanfarin ár tvisvar á ári og eru hér jafnan aufúsugestir, enda sýnt íbúum heimilisins einstaka ræktarsemi.