Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Ljósmyndasýning á Höfða.

Í dag var opnuð á Höfða sýningin myndir ÁRSINS 2004. Sýndar eru 27 myndir frá Blaðaljósmyndarafélagi Íslands, en myndirnar voru sýndar á menningarnótt í Reykjavík s.l. sumar. Íslandsbanki stendur fyrir sýningunni sem er liður í VORDÖGUM sem standa yfir á Akranesi næstu viku.

 

Við þetta tækifæri færði Íslandsbanki Höfða að gjöf um 70 metra af brautum til að hengja á listaverk. Brautirnar verða settar upp á næstunni og munu auðvelda mjög sýningarhald á Höfða. Íslandsbanka eru færðar þakkir fyrir þessa góðu gjöf.

Skírn á Höfða.

Guðsþjónusta var haldin á Höfða í dag. Þar skírði sr. Eðvarð Ingólfsson dreng, Hafstein Þór. Langamma drengsins er Sigurveig Eyjólfsdóttir frá Skálatanga, íbúi á Höfða. Sr. Eðvarð gat þess að þetta væri fyrsta skírnin á Höfða á þessari öld, en eitt barn mun hafa verið skírt hér á síðustu öld. Sigurveigu, foreldrum barnsins og aðstandendum eru færðar bestu hamingjuóskir.

Sláturgerð.

Í gær og í dag hafa íbúar og starfsmenn Höfða staðið í sláturgerð. Tekin voru 120 slátur. Mikill kraftur var í sláturgerðinni og fagmannleg handtök, enda margir sem tekið hafa slátur á hverju hausti í áratugi. Létt var yfir mannskapnum við sláturgerðina og greinilegt að fólk hafði gaman af þessu verkefni. Fyrsta sláturmáltíðin verður svo reidd fram á morgun.

Heimsókn frá Grensásdeild.

11 starfsmenn Grensásdeildar heimsóttu Höfða í gær. Margrét A. Guðmundsdóttir húsmóðir á Höfða tók á móti þeim, sýndi þeim heimilið og sagði frá starfseminni á Höfða. Eftir að hafa drukkið kaffi með heimamönnum kvöddu þessir góðu gestir og héldu til næsta áfangastaðar sem var Safnahúsið að Görðum.

Ásmundur kvaddur.

Stjórn Höfða bauð íbúum og starfsmönnum til samsætis s.l. föstudag til heiðurs Ásmundi Ólafssyni fyrrv.framkvæmdastjóra Höfða og Jónínu Ingólfsdóttur konu hans. Sigríður Gróa Kristjánsdóttir formaður stjórnar Höfða ávarpaði Ásmund og þakkaði honum vel unnin og farsæl störf í 24 ár. Þá færði hún honum að gjöf frá Höfða málverk af Innsta-Vogi, en fjölskylda Ásmundar átti Innsta-Vog í áratugi.

 

Þá færði Ásmundur Höfða að gjöf mynd af móður sinni, Ólínu Ásu Þórðardóttur og Svövu Finsen á unglingsárum en Ólína Ása er elsti íbúi Höfða, tæplega 98 ára gömul.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Höfða þakkaði Ásmundi fyrir lipurð við framkv.stjóraskipti og hve góðu búi hann skilar.

 

Nokkrir íbúar Höfða tóku til máls og þökkuðu Ásmundi góð kynni, þau voru Elín Frímannsdóttir, Eggert B.Sigurðsson, Skúli Þórðarson og Stefán Bjarnason.

 

Þá var flutt ávarp frá Valgarði L.Jónssyni. Flutt var tónlistaratriði undir stjórn Patrycju B.S.Mochola tónlistarkennara, sem starfaði á Höfða í sumar. Boðið var upp á góðar veitingar sem Bjarni Þór Ólafsson bryti og hans fólk hafði útbúið af alkunnri snilld.

 

Í þessu kveðjuhófi kom glöggt fram sá mikli hlýhugur sem fólkið á Höfða ber til Ásmundar Ólafssonar.

Sjúkravinir Höfða.

Sjúkravinir Höfða byrjuðu síðastliðið fimmtudagskvöld að spila með íbúum Höfða og sáu um veitingar. Áframhald verður á því seinasta fimmtudag í hverjum mánuði. Íbúar og starfsfólk Höfða þakkar góðar gjörðir.

Nýir íbúar.

Þrír nýir íbúar fluttu á Höfða um síðustu helgi; hjónin Hallveig Eiríksdóttir og Sveinn Jónsson í íbúð 214 og Sigrún Halldórsdóttir í íbúð 265.

 

Þau eru boðin velkomin á Höfða.

Opið hús.

Fyrsta “Opna hús” vetrarins var á Höfða í dag. Aðsókn var sæmileg og spilað á 9 borðum. Næst verður “Opið hús” þriðjudaginn 4.október og síðan fyrsta og þriðja þriðjudag í hverjum mánuði.