Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Grundaskólaheimsókn.

Í dag 15. mars komu krakkar úr bekknum 4.VHJ í Grundaskóla í heimsókn á Höfða. Margrét A.Guðmundsdóttir fór með þau í skoðunarferð um húsið þar sem þau skoðuðu m.a. eldhúsið, handavinnuna, sjúkraþjálfunina, iðjuþjálfunina, þvottahúsið, heita pottinn og tvær íbúðir þar sem þau fengu góðan mola.

 

Þau enduðu á að fara í nokkrar lotur í Boccia í félagsrýminu undir stjórn Ingibjargar Ólafsdóttur, iðjuþjálfa. Börnunum fannst þetta skemmtileg heimsókn og einhver hafði orð á því að vilja flytja hingað strax inn.

 

Nýir íbúar.

Tveir nýir íbúar fluttu á Höfða fyrr í þessum mánuði.


Kristinn Finnsson
býr í íbúð 106.


Sigríður Beinteinsdóttir
býr í íbúð 105.

Þau eru boðin velkomin á Höfða.

Heimsókn starfsfólks Sjúkrahúss Akraness.

Í gær heimsóttu 12 hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar af A-deild Sjúkrahúss Akraness Höfða og kynntu sér tæki, búnað og starfsemi heimilisins. Elísabet Ragnarsdóttir, Sólveig Kristinsdóttir og Sigurbjörg Halldórsdóttir tóku á móti þessum góðu gestum sem létu vel af heimsókninni.

Höfðagleði.

Hin árlega Höfðagleði var haldin í kvöld. Þar mættu íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn og stjórn Höfða, alls um 170 manns. Margrét A.Guðmundsdóttir setti skemmtunina og stjórnaði henni. Sigríður Gróa Kristjánsdóttir formaður stjórnar flutti ávarp, borin var fram frábær þrírétta máltíð sem Bjarni bryti og hans fólk töfraði fram og gerði mikla lukku.

 

 

Sá landskunni Raggi Bjarna skemmti gestum með söng og gamanmálum með aðstoð Þorgeirs Ástvaldssonar, Sylvía Nótt kom fram, leikin af Kristínu Sigurjónsdóttur, dregið var í happdrætti og Guðjón Guðmundsson og Eggert Sigurðsson sögðu sögur. Þá stjórnaði Ingibjörg Ólafsdóttir iðjuþjálfi stórskemmtilegu atriði þar sem hún fékk 4 karlmenn, Ásmund Ólafsson, Benedikt Jónmundsson, Magga G.Ingólfsson og Reyni Þorsteinsson til að klæða sig í sokka með sokkaífæru. Enginn þeirra hafði vald á þessu með góðu móti, en Ingibjörg úrskurðaði að allir væru þeir erkiklaufar,en Reynir væri sigurvegari og afhenti honum konfektkassa í verðlaun.

Að lokum var dansað til miðnættis við undirleik Jóns Heiðars Magnússonar, Geirs Guðlaugssonar og Guðmundar Jóhannssonar.

 

Almenn ánægja var með veitingar, skemmtiartiði og músík og óhætt að segja að Höfðagleðin hafi tekist einstaklega vel.

Umhverfisráðherra heimsækir Höfða.

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra heimsótti Höfða í dag ásamt aðstoðarmanni sínum Haraldi Johannessen og bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins á Akranesi. Ráðherra leit inn í nokkrar íbúðir og spjallaði við íbúa og starfsmenn. Hún skoðaði síðan iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og dagvistun og fékk sér síðan kaffisopa með stjórnendum Höfða sem kynntu henni starfsemi heimilisins.

 

Harmonikkutónleikar.

Í gær voru haldnir harmonikkutónleikar á Höfða. Nemendur tónlistarskólans ásamt eldri nemendum léku undir stjórn Fanneyjar M. Karldóttur og Jury Federow. Tónleikarnir voru mjög vel sóttir og undirtektir frábærar

Brunavarnarnámskeið

Þessa dagana er Þráinn Ólafsson slökkviliðsstjóri með námskeið í brunavörnum fyrir starfsmenn Höfða. Stefnt
er að því að allir starfsmenn sæki námskeiðið. 1.hópurinn mætti í dag og hófst námskeiðið í samkomusal Höfða.Síðan var verkleg æfing utandyra þar sem allir viðstaddir prófuðu notkun slökkvitækis með því að slökkva eld sem kveiktur var í stórri pönnu.

Þorrablót.

Í dag var haldið hið árlega þorrablót Höfða. Boðið var upp á hefðbundinn þorramat og snafs. Almenn ánægja var með matinn sem var frábærlega góður. Tekin voru í notkun tvö trog sem Baldur smíðaði og var súrmatur í öðru en ósúrt í hinu.

 

Kaffihúsakvöld.

Kaffihúsakvöld var á Höfða í gær frá kl. 20-22. Mikil aðsókn var og á mörkunum að samkomusalurinn væri nógu stór.

 

Ingibjörg, María og Adda afhentu verðlaun fyrir Boccia mótið og Guðjón þakkaði þeim fyrir undirbúning og framkvæmd mótsins sem tókst í alla staði frábærlega.

 

Sigurbjörg hjúkrunarforstjóri lagði til skemmtikrafta. Hallgrímur maður hennar lék á gítar og stjórnaði fjöldasöng. Börn þeirra Harpa og Halldór ásamt Sigurbjörgu dóttur Halldórs sungu og að lokum tóku hjónin lagið vegna eindreginna tilmæla gesta. Mjög góður rómur var gerður að tónlistarflutningi þessarar söngelsku fjölskyldu.

 

Mikil ánægja var með þetta kaffihúsakvöld sem tókst í alla staði mjög vel.

 

Úrslit í Boccia móti.

Síðdegis var leikið til úrslita í Boccia móti Höfða. Í 4 liða úrslitum sigruðu FOLAR LÓUR 4-3 og FÁLKAR sigruðu GARPA 17-4. Þá var leikið um 3-4.sæti og mættust þar LÓUR OG GARPAR í æsispennandi leik sem lauk 4-4, en í bráðabana sigruðu GARPAR og lentu því í 3.sæti, en LÓUR í 4 sæti.

Í úrslitaleiknum mættust FOLAR og FÁLKAR. Leiknum lauk með yfirburðasigri FÁLKA 16-0. Þess má geta að í 4 leikjum mótsins skoruðu FÁLKAR samtals 49 stig og komst ekkert lið nálægt þeim í stigaskorun. Lið FÁLKA skipuðu Guðrún Adolfsdóttir, Sjöfn Jóhannesdóttir og Skúli Þórðarson.

Ingibjörg iðjuþjálfi
stjórnaði mótinu af röggsemd og dæmdi alla leikina. Henni til aðstoðar við skipulagningu og framkvæmd mótsins voru María og Adda. Mótið tókst í alla staði mjög vel og fjöldi áhorfenda fylgdist með öllum umferðum.

Verðlaunaafhending verður á kaffihúsakvöldi sem hefst kl. 20 í kvöld.