Þessa dagana er mikið að gera hjá Guðnýju hárgreiðslukonu sem stendur myrkranna á milli við að klippa og snyrta íbúa og starfsmenn Höfða fyrir jólin og einnig fyrir fólk utan úr bæ. Við smelltum mynd af henni þegar hún var að eiga við höfuð Elísabetar sjúkraþjálfara.
Allar færslur eftir user7sj1fc4mt
Gjöf frá nemendum Grundaskóla
Í morgun komu fjórir nemendur Grundaskóla í heimsókn á Höfða og færðu heimilinu forkunnarfagran handunninn engil og skreyttan poka, en hvort tveggja var unnið af nemendum skólans.
Nemendur Grundaskóla hafa heimsótt Höfða fyrir hver jól í fjölda ára og fært heimilinu fallega hluti gerða af nemendum. Þessar góðu gjafir prýða Höfða.
Höfði færir nemendum Grundaskóla kærar þakkir fyrir þessar góðu gjafir og þann hlýhug sem þeim fylgja.
Mynd frá vinstri: Elsa María Gunnlaugsdóttir, Eva Ösp Sæmundsdóttir, Særós Ýr Þráinsdóttir, Guðrún Ýr Bjarnadóttir og Guðbjartur Hannesson skólastjóri Grundaskóla.
Sigurjón gefur sjónvarp.
Sigurjón Jónsson íbúi á Höfða gaf heimilinu 32ja tommu sjónvarp í dag. Það verður notað í setustofu á 3.hæð.
Sigurjóni eru færðar þakkir fyrir þessa góðu gjöf og hlýhug í garð heimilisins.
Fræðsla fyrir starfsfólk
Fræðsla fyrir starfsfólk Höfða er konin í gang á ný eftir langt sumarfrí og hafa nokkrir fræðslufundir verið haldnir síðasta mánuðinn.
14.nóvember komu starfsmenn frá Sjónstöð Íslands, þær Vala Jóna Garðarsdóttir og Kristín Gunnarsdóttir og fræddu okkur um sjónstöðina, um hjálpartæki fyrir blinda og sjónskerta og umgengni við sjónskerta.
28.nóvember fjallaði Elísabet Ragnarsdóttir sjúkraþjálfari Höfða um byltur aldraðra. Talað var um áhættuþætti byltna og varnir gegn þeim.
12.desember kom Björn Gunnarsson læknir SHA og fræddi okkur um verkjalyf, allt frá Opium til nútímalegri verkjalyfja. Fjallað var um notkun þeirra, aukaverkanir o.fl.
Fræðslufundir halda áfram á nýju ári.
Laufabrauðsskurður
Í dag settust nokkrir íbúar Höfða að laufabrauðsskurði. Gaman var að fylgjast með handbragði kvennanna, enda flestar þaulvanar laufabrauðsskurði um áratugaskeið. Verkið gekk vel undir röggsamri stjórn Öddu og Svandísar.
Grundartangakórinn á Höfða
Grundartangakórinn söng fyrir íbúa Höfða í gær, en kórinn heimsækir Höfða reglulega við góðar undirtektir.
Söngur kórsins gerði mikla lukku hjá Höfðafólki sem troðfyllti samkomusal heimilisins. Stjórnandi Grundartangakórsins er Atli Guðlaugsson.
Aðventuhátíð
Aðventuhátíð var haldin á Höfða í gær. Sr. Eðvarð Ingólfsson stjórnaði samkomunni. Ræðumaður var Sigríður Kr.Valdimarsdóttir og Guðrún Valdís dóttir hennar lék á píanó Sr. Eðvarð fór með gamanmál og Kammerkór Akraness söng. Að lokum sameinuðust allir viðstaddir í bæn.
Hátíðin var vel sótt af Höfðafólki og tókst í alla staði mjög vel.
Jólahlaðborð
Hið árlega jólahlaðborð Höfða var í hádeginu í dag. Boðið var upp á fjölbreytt úrval gómsætra rétta sem Bjarni kokkur og samstarfsfólk hans í eldhúsinu töfraði fram. Var mikil ánægja með matinn og þjónustuna og át margur yfir sig.
Heimsókn úr Borgarnesi
Í dag heimsóttu Höfða þrír starfsmenn frá sjúkraþjálfun og handavinnu Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi. Þær skoðuðu heimilið í fylgd Ingibjargar Ólafsdóttur iðjuþjálfa og fengu upplýsingar um þá starfsemi sem fer fram í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og handavinnu Höfða. Einnig skoðuðu þær hjálpartækjakost heimilisins.
Valgarður níræður
Valgarður Jónsson á níræðisafmæli í dag. Hann hélt upp á það með fjölskyldu sinni í samkomusal Höfða síðastliðinn sunnudag.
Valgarði eru færðar hamingjuóskir í tilefni dagsins