Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Vinabæjarheimsókn

Bæjarstjórnin í Quagortog, vinabæ Akraness í Grænlandi, ásamt föruneyti heimsótti Höfða í gær. Með þeim í för var Magnús Oddsson fyrrverandi bæjarstjóri sem var leiðsögumaður þeirra í Íslandsförinni.

Góð kartöfluuppskera

Í vor setti Baldur Magnússon nokkrar kartöflur niður í fína blómareit sjúkraþjálfaranna. Sigurður Halldórsson hefur séð um að vökva kartöflugrösin og halda þeim í standi í sumar.

 

Í gær var svo tekið upp og var uppskeran tólfföld. Nýju kartöflurnar voru bornar fram í mötuneytinu í gær og smökkuðust vel. Sérstaklega þótti þeim Baldri og Sigurði þær góðar.

Nýr matreiðslumaður

Bjarni Þór Ólafsson sem verið hefur matreiðslumaður á Höfða s.l. 6 ár hefur nú látið af störfum og hafið eigin rekstur. Íbúar og starfsmenn Höfða þakka Bjarna fyrir góðan mat og frábæra viðkynningu og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

 

Auglýst var eftir nýjum matsveini og bárust 6 umsóknir. Stjórn Höfða ákvað á fundi sínum í gær að ráða Hauk Sigurð Gunndórsson í starfið. Hann mun koma til starfa á næstunni, en hann hefur s.l. 3 ár starfað við matreiðslu á hjúkrunarheimilinu Eir.

Reyfi 2007

Í gær tók Höfði þátt í norrænu menningarhátíðinni Reyfi 2007 í Norræna húsinu, en auk fjölbreyttra listkynninga var markaður þar sem seldar voru íslenskar heilsu- og náttúruvörur. Var Höfða boðið að kynna þar og selja grjónapokana sem hér hafa verið framleiddir um langt árabil og fyrir löngu sannað ágæti sitt.

 

Emilía Petrea Árnadóttir sá um Höfðabásinn þar sem mikill fjöldi sýningargesta leit við til að fræðast um grjónapokana, starfsemi Höfða og almennt um Akranes.

Grænlenskir gestir

Í gær heimsóttu Höfða 13 íbúar á dvalarheimili aldraðra í Qagortog, vinabæ Akraness í Grænlandi. Gestirnir kynntu sér starfsemi Höfða og litu inn til nokkurra íbúa heimilisins. Grænlendingarnir lýstu mikilli hrifningu á aðbúnaði öllum hér á Höfða. Með þeim í för var Magnús Oddsson fyrrverandi bæjarstjóri sem var leiðsögumaður hópsins í Íslandsheimsókninni.

 

Að lokum bauð Höfði gestunum upp á kaffi og meðlæti.

Falleg gjöf

Hjónin Ármann Gunnarsson og Helga Sólveig Bjarnadóttir á Steinsstöðum gáfu Höfða s.l. föstudag málverk eftir Bjarna Þór Bjarnason til minningar um foreldra Ármanns, hjónin Guðríði Guðmundsdóttur og Gunnar L.Gunnarsson á Steinsstöðum, en þau voru síðustu bændurnir á Akranesi.

 

Af þessu tilefni komu systkinin 8 frá Steinsstöðum ásamt mökum og börnum og tengdabörnum Ármanns og Helgu saman á Höfða þar sem Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri og Anton Ottesen varaformaður stjórnar Höfða veittu þessari fallegu gjöf viðtöku.

Laus störf á Höfða

Höfði leitar eftir starfsmönnum í eftirtaldar stöður frá 1.september n.k.:

 

Aðstoðarmaður iðjuþjálfa, starfshlutfall 80%.

Starfsmaður í umönnun, starfshlutfall 60%.

Sjúkraliði í afleysingar, starfshlutfall 60%.

 

Umsóknareyðublöð á skrifstofu og hér á heimasíðunni (heimilið – starfsmenn – umsóknareyðublað)

 

Upplýsingar gefa Sigurbjörg Halldórsdóttir hjúkrunarforstjóri, sími 433-4327, og Ingibjörg Ólafsdóttir iðjuþjálfi, sími 433-4316.

Sumarferð

Í gær var hin árlega sumarferð Höfðafólks. Um 40 manns, íbúar Höfða, dagvistarfólk og íbúar Höfðagrundarhúsanna, tóku þátt í ferðinni ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið að Sundahöfn í Reykjavík og skoðuð hin mikla uppbygging þar. Síðan var ekið til Grindavíkur og að Bláa lóninu, en þaðan haldið til Keflavíkur þar sem drukkið var kaffi í veitingahúsinu Ránni. Síðan var ekið um Garð að Garðskagavita og þaðan til Sandgerðis og síðan sem leið lá heim og komið til Akraness kl. 18,45.

 

Björn Ingi Finsen var leiðsögumaður í þessari ferð og var leiðsögn hans einstaklega fróðleg og skemmtileg.

 

Veðrið lék við ferðalangana – logn, sól og 18-20 stiga hiti. Almenn ánægja var með ferðina sem tókst í alla staði mjög vel.

Heilbrigðisráðherra heimsækir Höfða

Nýr heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, heimsótti Höfða s.l. laugardag. Ráðherrann ræddi við framkvæmdastjóra Höfða um rekstur og framtíðaráætlanir heimilisins.

 

Að fundi loknum gaf ráðherrann sér góðan tíma til að rölta um húsið og heilsa upp á íbúa Höfða. Var honum afskaplega vel tekið og sumir gaukuðu að honum góðum ráðum um hvað væri brýnasta verkefni nýs heilbrigðisráðherra.

Tónleikar Grundartangakórsins

Grundartangakórinn hélt söngskemmtun á Höfða í gær.Atli Guðlaugsson stjórnaði kórnum, undirleikarar voru Flosi Einarsson og Sigurbjörn Kári Hlynsson. Einsöngvarar voru Guðlaugur Atlason, Smári Vífilsson og Þórður Björgvinsson.

 

Íbúar Höfða troðfylltu samkomusalinn og höfðu mikla ánægju af söngnum og hylltu kórinn með miklu lófataki.

 

Grundartangakórinn hefur um langt árabil heimsótt Höfða reglulega og hafa íbúar Höfða alltaf jafn gaman af þeirra góða söng og léttu framkomu.

 

Kórinn fer í söngferð til Ítalíu um helgina og fylgja honum góðar óskir Höfðafólks.