Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Jólasöngur

Góðir gestir heimsóttu Höfða í morgun. 4 ára börn af Leikskólanum Garðaseli komu ásamt fóstrum og sungu nokkur jólalög í anddyrinu við góðar undirtektir.

Tónleikar Grundartangakórsins.

Grundartangakórinn hélt tónleika á Höfða í gær. Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson og einsöngvarar þeir Smári Vífilsson og Bjarni Atlason. Þá söng Tindatríóið sem er skipað þeim feðgum Atla Guðlaugssyni, Bjarna Atlasyni og Guðlaugi Atlasyni.

 

Íbúar Höfða troðfylltu samkomusalinn og gerði söngurinn mikla lukku að vanda, en Grundartangakórinn heimsækir Höfða reglulega og er í miklu uppáhaldi hjá Höfðafólki.

Aðventuhátíð

Aðventuhátíð var haldin á Höfða í gær. Sr. Eðvarð Ingólfsson stjórnaði samkomunni. Ræðumaður var Sigríður Indriðadóttir. Sr. Eðvarð fór með gamanmál. Stúlknakór Akraness og félagar úr Kór Akraneskirkju sungu. Að lokum sameinuðust allir í bæn.

 

Hátíðin tókst í alla staði mjög vel og aðsókn var meiri en nokkru sinni áður.

Vel heppnuð árshátíð

Árshátíð starfsmanna Höfða var haldin að Miðgarði s.l. laugardagskvöld. Mæting var ágæt og kvöldið vel heppnað, enda skemmtunin vel undirbúin af árshátíðarnefnd sem var skipuð þeim Sigurbjörgu Ragnarsdóttur, Hjördísi Guðmundsdóttur og Elísabetu Ragnarsdóttur.

 

Veislustjóri var Björn Gunnarsson læknir. Rakel Pálsdóttir söng og hljómsveitin Feðgarnir lék fyrir dansi og má segja að dansgólfið hafi verið fullt þar til árshátíðinni lauk á þriðja tímanum.

 

Árshátíðin tókst í alla staði mjög vel og var almenn ánægja meðal þátttakenda. Þrír starfsmenn, Helga Atladóttir, Guðrún Sigurbjörnsdóttir og Svandís Stefánsdóttir, fengu viðurkenninguna “árshátíðartak”, litla styttu í stíl við Grettistakið sem er tákn Höfða. Viðurkenningunni fylgdi sú kvöð að viðkomandi skipa næstu árshátíðarnefnd.

Nýir íbúar

Nýlega hafa eftirtaldir 9 einstaklingar flutt á Höfða:

 

Lilja G.Pétursdóttir

Rannveig Hálfdánardóttir

Eygló Hólmfríður Halldórsdóttir

Rakel Jónsdóttir

Björn Gústafsson

Jenney Bára Ásmundsdóttir

Gunnar Bjarnason

Hjördís Hjörleifsdóttir

Lára Arnfinnsdóttir

 

Þau eru boðin velkomin á Höfða.

Kvöldvaka

Hin árlega kvöldvaka sem starfsfólk Höfða býður íbúum til var haldin s.l. fimmtudagskvöld. Boðið var upp á kökur og góðgæti sem starfsmenn komu með að heiman og voru veitingar glæsilegar að vanda. Þetta árlega boð lýsir þeim góða anda sem ríkir á Höfða.

 

Meðal þeirra sem skemmtu voru Gísli S.Einarsson bæjarstjóri sem spilaði á harmoniku og söng, Oddný Björgvinsdóttir og Kristín Sigurjónsdóttir spiluðu á harmoniku og fiðlu, Sigurbjörg Halldórsdóttir kvað rímur. Dýrfinna Torfadóttir gullsmiður sýndi skartgripi og Eygló Halldórsdóttir, Sjöfn Jóhannesdóttir, Ragnheiður Björnsdóttir og Skarphéðinn Árnason sýndu hvernig bera átti djásnin. Einnig gaf Dýrfinna glæsilega vinninga í happdrætti kvöldsins.

 

Skemmtinefnd skipuðu þær Edda Guðmundsdóttir,Guðmunda Hallgrímsdóttir, Hildur Þorvaldsdóttir og Sigurlaug Garðarsdóttir.

 

Þetta skemmtikvöld tókst frábærlega vel og var mjög vel sótt af íbúum og starfsmönnum.

 

Góð gjöf

Í dag heimsótti sr. Eðvarð Ingólfsson Höfða og færði heimilinu að gjöf nýja þýðingu Biblíunnar.

 

Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni á Höfða veitti þessari góðu gjöf viðtöku.

Starfsmenn kvaddir

dag kvöddu íbúar og starfsmenn tvær heiðurskonur sem létu af störfum á Höfða í sumar eftir langan og farsælan starfsferil, þær Guðnýju Guðjónsdóttur sem starfaði við ræstingar í rúmlega 17 ár og Sigrúnu Sigurjónsdóttur sem starfaði við aðhlynningu í rúmlega 15 ár.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri ávarpaði þær stöllur, þakkaði störf þeirra og rakti farsælan starfsferil. Guðjón óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þær mættu njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld. Hann færði þeim hvorri um sig að gjöf afsteypu af Grettistaki, sem er tákn Höfða og gert af Magnúsi Tómassyni myndhöggvara.

 

Þær Guðný og Sigrún þökkuðu íbúum og starfsfólki ánægjuleg samskipti og óskuðu Höfða og þeim sem þar búa og starfa alls góðs.

Fjölgun hjúkrunarrýma

Undanfarna mánuði hafa stjórnendur Höfða óskað eftir því við heilbrigðisráðuneytið að hjúkrunarrýmum verði fjölgað á Höfða. Nú hefur Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra heimilað fjölgun hjúkrunarrýma um 2.

 

Nú eru því 48 hjúkrunarrými og 30 dvalarrými á Höfða.

Heimsókn frá Hrafnistu

Starfsfólk endurhæfingardeildar Hrafnistu heimsótti Höfða s.l. föstudag. Þau skoðuðu heimilið í fylgd Elísabetar Ragnarsdóttur sjúkraþjálfara. Leist þeim mjög vel á heimilið og hið fagra umhverfi þess.

 

Að lokum þáðu þau veitingar og fóru síðan í heimsókn á Sjúkrahús Akraness.