Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Indíánahópur heimsækir Höfða!

Fólk á öllum aldri sækir þær listsýningar sem nú standa yfir á Höfða.

 

Í dag kom Indíánahópur Leikskólans Garðasels í fylgd Guðlaugar Sverrisdóttur leikskólakennara og skoðaði listaverkin. Ræddu þau opinskátt um það sem fyrir augun bar og höfðu gaman af að stúdera listina.

Grunnskólanemar í heimsókn

Í dag heimsóttu nemendur 8.bekkjar BJ í Grundaskóla Höfða í fylgd kennara síns Borghildar Jósúadóttur.

 

Erindið var að skoða þær listsýningar sem nú standa yfir á Höfða, en faðir eins nemandans er einn þeirra listamanna sem sýna verk sín hér á Vökudögum.

 

Unga fólkið hafði gaman af að skoða listaverkin og heilsa upp á þá íbúa Höfða sem urðu á vegi þeirra.

Opið hús – basar

 

Í dag var opið hús á Höfða frá kl. 13-16 í tilefni af 30 ára afmæli Höfða. Mjög margir litu inn. Boðið var upp á skipulagðar skoðunarferðir um húsið í fylgd Helgu Atladóttur hjúkrunarforstjóra.

 

Hinn árlegi Höfðabasar var svo opinn frá kl. 14-16. Gífurleg aðsókn var að basarnum og mikil sala á þeim fallegu vörum sem þar voru í boði.

 

Þá voru hjónin Rakel Jónsdóttir og Björn Gústafsson, íbúar á Höfða, með sölubás þar sem þau seldu fallega muni og skartgripi úr íslensku grjóti sem þau hafa gert á liðnum árum. Mikil sala var á þessu fallega handverki.

 

Boðið var upp á kaffi í samkomusal og þáðu margir sopann, ekki síst þeir sem áttu maka á basarnum.

Listsýningar

 

Í dag voru opnaðar sýningar á verkum þriggja Skagamanna í tilefni 30 ára afmæli Höfða. Sýndir eru skúlptúrar Guttorms Jónssonar, málverk Guðmundar Þorvaldssonar og glerlist Jónsínu Ólafsdóttur.

 

Við opnun sýninganna flutti Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Höfða ávarp og Sigursteinn Hákonarson söng nokkur lög við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar.

 

Síðan var boðið upp á léttar veitingar meðan gestir skoðuðu verk listamannanna.

 

Mjög góð aðsókn var að opnuninni, en sýningarnar standa út Vökudaga til 9.nóvember.

 

 

Konsúll Færeyja í heimsókn

Í dag heimsótti Gunnvör Balle konsúll Færeyja á Íslandi Höfða. Með henni för voru Gunnar Sigurðsson settur bæjarstjóri, Jón Pálmi Pálsson bæjarritari og Helga Gunnarsdóttir sviðsstjóri.

 

Gestirnir skoðuðu heimilið og snæddu síðan hádegisverð með framkvæmdastjóra, húsmóður og hjúkrunarforstjóra.

Hallgrímur og Eðvarð syngja

Í dag heimsóttu Hallgrímur Árnason og Eðvarð Árnason Höfða og skemmtu íbúum við góðar undirtektir. Hallgrímur söng gömlu góðu dægurlögin og spilaði á gítar og Eðvarð á harmonikku.

 

Góð aðsókn var að skemmtun þeirra félaga og margir tóku undir sönginn.

Heimsókn þingmanna

Jón Bjarnason og Katrín Jakobsdóttir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs heimsóttu Höfða í dag og spjölluðu við íbúa og starfsmenn, en nú standa yfir kjördæmadagar á Alþingi þar sem þingmenn fara um kjördæmin og hitta fólk að máli.