Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Söngskemmtun Davíðs og Stefáns Helga

 

Í dag héldu þeir Davíð Ólafsson bassi og Stefán Helgi Stefánsson tenór söngskemmtun í Höfðasal við frábærar undirtektir Höfðafólks sem fjölmennti.

 

Þeir félagar sungu fjölda íslenskra laga og enduðu dagskrána á Hamraborginni sem alltaf slær í gegn. Þeir tóku síðan aukalög eftir kröftugt uppklapp.

Sumarferð

 

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin í gær. 50 manns tóku þátt í ferðinni, íbúar Höfða og dagdeildarfólk ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið til Þingvalla þar sem rúntað var um svæðið. Síðan var ekið um nýja veginn til Laugarvatns og þaðan niður Grímsnes til Selfoss þar sem boðið var upp á glæsilegt kaffihlaðborð á Hótel Selfoss. Síðan var farin skoðunarferð um Selfoss og Hveragerði og þaðan ekið til Reykjavíkur þar sem Harpan var skoðuð frá ýmsum sjónarhornum. Heim var svo komið kl. 18,20.

 

Hópurinn fékk frábært ferðaveður, logn, sól og allt að 20 stiga hita. Ferðast var með sérútbúinni hjólastólarútu frá Sæmundi. Leiðsögumaður var Björn Ingi Finsen og var leiðsögn hans fróðleg og skemmtileg að vanda.

 

Vösk sveit Höfðakvenna aðstoðaði fólkið í ferðinni. Á meðfylgjandi mynd sem Guðjón tók af þeim ásamt leiðsögumanni á Selfossi eru f.v. Björn Ingi, Inga Lilja, Adda, Kata, Ragnheiður, Marianne og Rúna.

Haldið upp á Írska daga

 

Í dag hófust Írskir dagar á Akranesi og verða mikil hátíðarhöld vítt og breitt um bæinn fram á sunnudag. Íbúar Höfða og dagdeildarfólk héldu upp á Írska daga með samkomu um miðjan daginn. Boðið var upp á léttar veitingar. Félagar úr Kammerkór Akraness sungu góðu gömlu íslensku lögin undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar.

 

Frábær stemning var á þessari samkomu sem var mjög vel sótt og má segja að nýji Höfðasalurinn hafi verið troðfullur.

Tilboð opnuð

Í morgun voru opnuð tilboð í byggingu 9 rýma hjúkrunardeildar. 4 aðilar buðu í verkið:

 

Eykt hf.                                          186.312.862    frávikstilboð    175.368.982

VHE ehf.                                         144.532.615   

Sveinbjörn Sigurðsson hf.                189.020.000    frávikstilboð    235.000.000

Sjammi ehf.                                    181.361.959

 

Kostnaðaráætlun hönnuðar var 204.000.000.

 

Tilboðin verða nú yfirfarin og stefnt að afgreiðslu málsin í stjórn Höfða í næstu viku.

Aðalfundur Höfða 2011

 

 

Aðalfundur Höfða var haldinn í gær. Kristján Sveinsson formaður flutti skýrslu stjórnar og Jóhann Þórðarson endurskoðandi fór yfir ársreikning 2010. Rekstrarafkoma var góð og fjárhagur Höfða traustur.

 

Árni Múli Jónasson bæjarstjóri og Ása Helgadóttir sveitarstjórnarmaður í Hvalfjarðarsveit fluttu ávörp og lýstu ánægju með starfsemi Höfða. Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri gerði grein fyrir stöðu framkvæmda og nokkrum þáttum í rekstri Höfða.

 

Fundarstjóri var Kjartan Kjartansson og fundarritari Margrét Magnúsdóttir.

Vinnuskólinn aðstoðar við gönguferðir

 

 

Eftir að sumarið kom hefur verið mikil þátttaka í gönguferðum um hið fagra umhverfi Höfða og niður með Langasandi.

 

Eins og undanfarin sumur var leitað til vinnuskólans og óskað eftir aðstoð þaðan og tók Einar Skúlason forstöðumaður skólans þeirra málaleitan ljúflega og útvegaði 4 stúlkur sem mæta á hverjum morgni og aðstoða við göngutúrana.

 

Mikil ánægja er með þátttöku þessara góðu stúlkna sem án efa hafa gott af að kynnast elstu kynslóðinni.

Söngskemmtun

Í dag hélt Stefán Helgi Stefánsson söngskemmtun í Höfðasal. Hann söng góðu gömlu lögin sem allir kunna og tóku íbúar undir í nokkrum laganna.

 

Þessi söngskemmtun var í boði Oddfellowreglunnar á Akranesi, en Stefán Helgi mun syngja þrisvar í þeirra boði á Höfða og dvalarheimilinu í Borgarnesi á næstu mánuðum.

 

Margrét A.Guðmundsdóttir þakkaði Stefáni Helga frábæran söng og Oddfellowreglunni þetta góða boð.

Hjólað í vinnuna

27 starfsmenn Höfða tóku þátt í átaki ÍSÍ hjólað í vinnuna. Keppendum var skipt í 3 lið og hjólaði sigurliðið samtals 448 km. en liðið skipuðu Ásta Arngrímsdóttir, Birna Júlíusdóttir, Fanney Reynisdóttir, Guðmundína Hallgrímsdóttir, Guðný Aðalgeirsdóttir, Guðrún Björnsdóttir, Hildur Bernódusdóttir, Inga Lilja Guðjónsdóttir og Unnur Guðmundsdóttir.

 

Lið Höfða lenti í 29.sæti af 90 í hópi fyrirtækja með 70-140 starfsmenn.

Kór eldri borgara syngur á Höfða

 

Í gær hélt Hljómur, kór eldri borgara, söngskemmtun í Höfðasal. Stjórnandi kórsins er Katrín Valdís Hjartardóttir og meðleikari Sveinn Arnar Sæmundsson.

 

Mikil aðsókn var að þessari söngskemmtun og undirtektir góðar.

Starfsaldursviðurkenningar

 

 

Í dag fengu eftirtaldir 10 starfsmenn Höfða starfsaldursviðurkenningar:

 

Fyrir 5 ára starf: Jóhanna Gylfadóttir og Ólöf Elfa Smáradóttir.

 

Fyrir 10 ára starf: Guðmunda Maríasdóttir, Guðbjörg Halldórsdóttir, Hildur Bernódusdóttir, Maggi G.Ingólfsson, María Kristinsdóttir og Sigrún Valgarðsdóttir.

 

Fyrir 15 ára starf: Gréta Jóhannesdóttir og Sólveig Kristinsdóttir.

 

Framkvæmdastjóri sagði að starfsfólkið væri helsti styrkleiki Höfða og að stjórn Höfða vildi með þessum viðurkenningum þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins.

 

Á myndina vantar Guðmundu og Maríu sem eru í sumarleyfi.