Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Fundur með aðstandendum

Í gær var haldinn fundur með aðstandendum þeirra sem búa á Höfða. Dagskrá fundarins var svohljóðandi:

  1. Fjármál, framkvæmdir, greiðsluþátttaka íbúa í vistgjöldum: Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri
  2. Breyting við flutning móður á hjúkrunarheimili: Guðrún Björnsdóttir aðstandandi
  3. Allir í einbýli – breyting  á starfsemi við afnám tvíbýla: Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri
  4. Vinir Höfða – kynning á aðstandendafélagi: Guðrún Elsa Gunnarsdóttir
  5. Umræður og fyrirspurnir.

Þá fór fram skrifleg könnun meðal fundarmanna um hvað þeim fyndist um þjónustuna á Höfða og hvaða ábendingar þeir hefðu varðandi aðstöðu og þjónustu. Niðurstaða þessarar könnunar var mjög jákvæð.

Hátt í 70 manns sóttu fundinn.

Hrafnistufólk á Höfða

Snemma í morgun komu um 45 stjórnendur Hrafnistuheimilanna á Höfða og verða hér fram eftir degi á vinnufundi í Höfðasal. Gestirnir munu snæða hádegisverð í boði Höfða.

Þessir góðu gestir eru velkomnir á Höfða, en öll samskipti við Hrafnistu eru sérlega ánægjuleg.

Grundartangakórinn á Höfða

Síðasta vetrardag hélt Grundartangakórinn sína árlegu vortónleika á Höfða við frábærar undirtektir áheyrenda sem troðfylltu Höfðasalinn.

 

Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson og einsöng sungu Smári Vífilsson, Bjarni Atlason og Guðlaugur Atlason. Flosi Einarsson lék undir á píanó og Rut Berg Sævarsdóttir á flautu og harmonikku.

 

Kórinn hefur sungið á Höfða á hverju ári í 29 ár, undanfarin ár tvisvar á ári og eru hér jafnan aufúsugestir, enda sýnt íbúum heimilisins einstaka ræktarsemi.

Þemadagar

Í dag og undanfarna daga hafa 4 hópar nemenda Brekkubæjarskóla heimsótt Höfða í tilefni Þemadaga í skólanum. Nemendurnir hafa rætt við íbúa Höfða og spurt þá spjörunum úr, m.a. um hvernig þeir stunduðu líkamsrækt fyrr og nú. Þá tóku nemendurnir þátt í leikfimi með íbúum heimilisins.

Höfðingleg gjöf

Nýlega gaf starfsmannafélag sementsverksmiðjunnar Höfða 1 milljón króna. Peningarnir fara í gjafasjóð Höfða, en sjóðurinn veitir fé til kaupa á búnaði og tækjum fyrir Höfða og einnig til skemmtana og dægradvalar heimilisfólks.

 

Smári Kristjánsson afhenti gjöfina við athöfn í sementsverksmiðjunni, en félagið gaf fimm öðrum aðilum rausnarlegar gjafir. Helga Atladóttir formaður stjórnar gjafasjóðs Höfða tók við gjöfinni og færði starfsmönnum verksmiðjunnar kærar þakkir.

Gjöf frá FEBAN

Í morgun færði Þorkell Kristinsson Höfða gjöf frá FEBAN (félagi eldri borgara á Akranesi) 2 sett af innipútti. Er ekki vafi á að íbúar Höfða munu hafa gaman af að stunda innanhússgolf, ekki síst þeir sem hafa stundað golf um áratugaskeið.

Framkvæmdastjóri bað Þorkel að skila kærri kveðju og þakklæti til FEBAN fyrir þessa góðu gjöf.

 

Höfða færðar páskliljur

Í dag færði Kvenfélagið Liljan í Hvalfjarðarsveit Höfða páskaliljur að gjöf. Dúfa Stefánsdóttir afhenti gjöfina. Margrét A.Guðmundóttir tók við liljunum og bað fyrir góðar kveðjur og þakkir til kvenfélagskvenna í sveitinni.

 

Páskaliljurnar munu prýða borðin í matsal Höfða um páskana.

Málað og gróðursett

Einu sinni í mánuði fá íbúar Höfða leiðbeiningar í listmálun. Margir taka þátt í þessu og hafa gaman af.

Undanfarið hafa nokkrir íbúar Höfða undirbúið gróðursetningu í nýju gróðurkassana á lóð Höfða, en þar verða ræktaðir ýmsir garðávextir og kryddjurtir. Greinilegt var að íbúarnir kunnu vel til verka og höfðu fengist við gróðursetningu áður.

 

Vegleg hljóðfæragjöf

Í gær afhenti Hafdís Daníelsdóttir Höfða veglega hljóðfæragjöf, píanó og gítar, til minningar um mann sinn Helga Andrésson sem lést í bílslysi á Kjalarnesi þennan dag fyrir 10 árum. Gjöfin er frá Hafdísi, börnum hennar og barnabörnum og voru þau viðstödd athöfn í tilefni gjafarinnar.

 

Margrét A. Guðmundsdóttir bauð gesti velkomna, Hafdís flutti ávarp og afhenti framkvæmdastjóra fallegan blómvönd, Kristján Sveinsson formaður stjórnar Höfða þakkaði þessa góðu gjöf og minntist starfa Helga fyrir Starfsmannafélag Akraneskaupstaðar, en meirihluti starfsmanna Höfða eru þar félagsmenn.

 

Viðstaddir þessa athöfn voru flestir íbúar Höfða, en að henni lokinni var boðið upp á kaffi og meðlæti. Þar fluttu stutt ávörp Guðjón framkvæmdastjóri og Ragnar Leósson íbúi á Höfða