Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Sumarferð

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin í gær. 50 manns tóku þátt í ferðinni, íbúar Höfða og dagdeildarfólk ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið um Bessastaði, Álftanes, Hafnarfjörð og til Keflavíkur þar sem boðið var upp á kaffihlaðborð í Kaffi Duus. Eftir kaffið litu margir við í safni sem er í sama húsi, en þar má sjá á annað hundrað skipslíkön auk fjölda gamalla muna og ljósmynda frá liðinni tíð. Næst var ekið til Grindavíkur og þaðan um hinn nýja Suðurstrandarveg til Þorlákshafnar og síðan haldið heim um Þrengslin og með Hafravatni. Heim var svo komið kl. 18,50.

 

Á suðurleiðinni rigndi nokkuð á Kjalarnesi og til Kópavogs en eftir það var blíðskaparveður alla leið. Ferðast var með sérútbúinni hjólastólarútu frá Sæmundi. Leiðsögumaður var Björn Ingi Finsen og var leiðsögn hans stórskemmtileg og fróðleg.

Þóra heimsækir Höfða

Þóra Arnórsdóttir forsetaframbjóðandi heimsótti Höfða í dag. Með henni í för var Svavar Halldórsson eiginmaður Þóru og nýfædd dóttir þeirra.

Þóra hélt fund í Höfðasal þar sem hún ávarpaði Höfðafólk og síðan spjallaði hún við íbúa og starfsmenn.

Upptökulið frá þýska sjónvarpinu fylgdi frambjóðandanum og tók m.a. viðtöl við nokkra íbúa Höfða.

Herdís heimsækir Höfða

Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi heimsótti Höfða í dag og spjallaði við íbúa og starfsmenn. Á myndinni heilsar Herdís upp á Freystein Jóhannsson en þau eru gamlir vinnufélagar af Morgunblaðinu.

Ný gönguleið

Undanfarnar vikur hafa íbúar Höfða og dagdeildarfólk farið í daglegar gönguferðir um hið fagra umhverfi Höfða. Nú hefur ný gönguleið bæst við þær sem fyrir voru, en kominn er malbikaður gangstígur fram á Sólmundarhöfðann með fínum sólpalli þar sem fjöldi manns getur setið og notið góða veðursins.

Haraldur Sturlaugsson beitti sér fyrir þessari framkvæmd og safnaði til þess framlögum frá fjölda einstaklinga og fyrirtækja. Gaf Haraldur nýja gangstígnum nafnið Samfélagsstígurinn.

Ástæða er til að þakka Haraldi og öllum þeim sem lögðu þessu verkefni lið fyrir þessa frábæru viðbót við gönguleiðir í nágrenni Höfða.

Góðviðrisins notið

Undanfarna daga hefur verið frábært veður á Akranesi og hafa íbúar Höfða og dagdeildarfólk notað það til gönguferða um nágrennið. Í næstu viku bætist við ný gönguleið þegar Samfélagsstígurinn verður tekinn í notkun, en han liggur frá lóð Höfða og niður á Sólmundarhöfðann. Þessa dagana er verið að ljúka við smíði sólpalls við stíginn og verður þarna útivistarparadís.

 

Í gær tóku margir þátt í útileikjum; golfpútti, keilukasti o.fl. á nýju aðstöðunni sunnan við viðbygginguna. Þar eru einnig stórir gróðurkassar með jarðarberjaplöntum, kryddjurtum og káli og fylgjast íbúar Höfða vel með hvernig til tekst með ræktunina.

Leikskólabörn í heimsókn

Í síðustu viku komu um 20 börn af Leikskólanum Akraseli í heimsókn á Höfða í fylgd leikskólakennara.
Börnin sungu vísur Vatnsenda-Rósu „Augun mín og augun þín“ fyrir fólkið á dagdeild sem hafði mikla ánægju af þessari heimsókn og tóku margir undir sönginn.

Starfsaldursviðurkenningar

Í dag voru afhentar árlegar starfsaldursviðurkenningar við stutta athöfn í matsal Höfða að viðstöddum íbúum Höfða og dagdeildarfólki. Að þessu sinni fengu eftirtaldir 19 starfsmenn viðurkenningu:

 

Fyrir 5 ára starf: Anna K.Belko, Fanney Reynisdóttir, Haukur S.Ingibjargarson, Helga Atladóttir, Kristín Alfreðsdóttir, Margrét Reimarsdóttir, Pálína Sigmundsdóttir og Þórey Einarsdóttir.

 

Fyrir 10 ára starf: Sigurlaug Garðarsdóttir.

 

Fyrir 15 ára starf: Arína Guðmundsdóttir, Elísabet Ragnarsdóttir og Hulda Ragnarsdóttir.

 

Fyrir 20 ára starf: Sigrún Sigurgeirsdóttir og Svandís Stefánsdóttir.

 

Fyrir 25 ára starf: Helga Jónsdóttir, Katrín Baldvinsdóttir, Kristín P.Magnúsdóttir og Ragnheiður Guðmundsdóttir.

 

Fyrir 30 ára starf: Margrét A.Guðmundsdóttir.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri sagði að með þessum viðurkenningum vildi stjórn Höfða þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins. Guðjón sagði að starfsfólkið væri helsti styrkleiki Höfða og minnti á mikilvægi stöðugs vinnuafls en 50 starfsmenn hafa starfað á Höfða í 10 ár eða lengur.

 

Á myndina vantar Kristínu, Pálínu og Ragnheiði.

Þjóðdansasýning

Í gær sýndi danshópurinn Sporið þjóðdansa í Höfðasal. Stjórnandi var Ásrún Kristjánsdóttir og harmonikuleikarar Hilmar Hjartarson og Karl Stefánsson.

 

Mjög góð aðsókn var að þessari sýningu og skemmti Höfðafólk sér vel.