Árshátíð starfsmanna Höfða var haldin að Miðgarði s.l. laugardagskvöld. Mæting var mjög góð og kvöldið vel heppnað, enda skemmtunin vel undirbúin af árshátíðarnefnd sem hafði m.a. gert kvikmynd af starfsmönnum í léttum dúr, en nefndina skipuðu Ingibjörg Ólafsdóttir, Maggi G.Ingólfsson og Nanna Sigurðardóttir.
Veislustjóri var Halldór Jónsson blaðamaður á Skessuhorni sem fór á kostum. Hljómsveit Friðjóns Jóhannssonar lék fyrir dansi og hélt uppi stanslausu fjöri fram á fjórða tímann.
Árshátíðin tókst í alla staði mjög vel og var almenn ánægja meðal þátttakenda sem hylltu árshátíðarnefndina fyrir góð störf. Þrír starfsmenn, Bjarni Þ.Ólafsson, Sigurbjörg Ragnarsdóttir og Hjördís Guðmundsdóttir, fengu viðurkenninguna “árshátíðartak”, litla styttu í stíl við “Grettistakið” sem er tákn Höfða. Viðurkenningunni fylgdi sú kvöð að viðkomandi skipa næstu árshátíðarnefnd.