Skipulagðar gönguferðir utandyra á sumrin eru orðnar fastur liður í dagskránni á Höfða. Þær eru mjög vinsælar, ekki síst þegar veðrið er gott. Þeir sem ekki getað gengið langar vegalengdir er boðið að koma út í hjólastól.
Reynt er að gefa öllum tækifæri sem vilja að komast út sem oftast . Um 4-6 starfsmenn eru með í för, en skipulagning og stjórn er að mestu í höndum starfsmanna sjúkraþjálfunar, dagdeildar og iðjuþjálfunar.
Einnig hefur Vinnuskólinn verið svo vinsamlegur að „lána „ okkur nokkra unglinga sem koma og hjálpa til og keyra þá oftast hjólastólana. Mikil ánægja er með þetta fyrirkomulag sem er gagnlegt og ánægjulegt fyrir báða aðila.
Farið er út alla virka daga en veðrið hefur ekki verið alveg nógu hliðhollt þetta sumarið. Þegar vel viðrar eru um 20 til 30 íbúar og dagdeildarfólk sem fara út.
Um nokkrar gönguleiðir í nágrenni Höfða er að velja, allt á malbikuðum stigum. Vinsælt er að fara eftir nýja stignum út á Sólmundarhöfðann, einnig út í Leynisvíkina í gegnum Höfðagrundina og svo ekki síst að Aggapalli á stígnum eftir Langasandi.
Lagt er af stað um 11:15 og komið tímalega til baka fyrir hádegismat. Aðstandendur eru velkomnir að koma með.