Út að ganga

Skipulagðar gönguferðir utandyra á sumrin eru orðnar fastur liður í dagskránni á Höfða. Þær eru mjög vinsælar,  ekki síst þegar veðrið er gott. Þeir sem ekki getað gengið langar vegalengdir  er boðið að koma út í hjólastól.

Reynt er að gefa öllum tækifæri sem vilja að komast út sem oftast .  Um 4-6 starfsmenn eru með í för, en skipulagning og stjórn er að mestu í höndum starfsmanna sjúkraþjálfunar, dagdeildar og iðjuþjálfunar.

Einnig hefur Vinnuskólinn verið svo vinsamlegur að „lána „ okkur nokkra unglinga sem koma og hjálpa til  og keyra þá oftast hjólastólana. Mikil  ánægja er með þetta fyrirkomulag sem er gagnlegt  og ánægjulegt fyrir báða aðila.

Farið er út alla virka daga en veðrið hefur ekki verið alveg nógu hliðhollt þetta sumarið. Þegar vel viðrar eru um 20 til 30 íbúar og dagdeildarfólk sem fara út.  

Um nokkrar gönguleiðir í nágrenni Höfða er að velja,  allt á malbikuðum stigum. Vinsælt er að fara eftir nýja stignum út á Sólmundarhöfðann, einnig út í Leynisvíkina í gegnum Höfðagrundina og svo ekki síst  að Aggapalli  á stígnum  eftir Langasandi.

Lagt er af stað um 11:15 og komið tímalega til baka fyrir hádegismat.  Aðstandendur eru velkomnir að koma með.

Sumarferð

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin s.l. fimmtudag. 50 manns tóku þátt í ferðinni, íbúar Höfða og dagdeildarfólk ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið norður fyrir fjall upp á Grundartanga, um Hvalfjarðargöng, gegnum Mosfellsbæ að Hafravatni og þaðan að Hellisheiðarvirkjun þar sem Helgi Pétursson tók á móti hópnum og fór yfir virkjun jarðhitans á Hengilsvæðinu, jarðfræði og sérþekkingu Íslendinga á sviði jarðvarma.  Að þessu loknu var ekið til Selfoss þar sem boðið var upp á glæsilegt kaffihlaðborð á Hótel Selfoss.  Síðan var ekið um Grafning og Mosfellsheiði á leiðinni heim á Skaga. Heim var svo komið kl. 19,20.


Oft hefur veðrið verið betra í sumarferðum Höfða en ferðafólk lét það ekki á sig fá enda ferðaðist hópurinn undir leiðsögn Björns Inga Finsen og var leiðsögn hans að vanda bæði fróðleg og skemmtileg.  Ferðast var með sérútbúinni hjólastólarútu frá Sæmundi.

Heimsókn úr Velferðarráðuneytinu

Síðastliðinn föstudag heimsóttu Höfða þær Bryndís Þorvaldsdóttir og Heiður Margrét Björnsdóttir úr Velferðarráðuneytinu. Kynntu þær sér ný afstaðnar framkvæmdir við nýbyggingu hjúkrunardeildar og endurbætur á eldri hjúkrunardeild ásamt því að eiga góðan fund með stjórnendum Höfða.

Haldið upp á Írska daga

Í upphafi Írskra daga á Akranesi komu íbúar Höfða og dagdeildarfólk saman í Höfðasal og skemmtu sér. Boðið var upp á léttar veitingar. Þjóðlagasveit tónlistarskólans hélt uppi írskri stemmingu með flutningi sínum.

 

Þá var heimilið skreytt með írskum fánum, blöðrum o.fl. Írska stemmningin sem ríkir á Akranesi þessa helgi er því ekki síður á Höfða en annars staðar í bænum.